Félagsleg heilsa

Félagsleg heilsa

Félagsleg heilsa er hugtak sem almennt er notað til að vísa í, annars vegar getu einstaklinga til að hafa samskipti við aðra og dafna í félagslegu umhverfi og hins vegar heilsu almennt í samfélaginu og hvernig einstaklingar hegða sér og koma fram við hvern annan í því samfélagi.



Samskipti

  • Öll samskipti manna einkennast af einhvers konar tjáskiptum, hvort sem það er í riti, í tali, með svipbrigðum eða á annan hátt. Við sendum stöðugt frá okkur merki sem fólk í kringum okkur túlkar og á sama hátt túlkum við vitandi og óafvitandi orð, hegðun og fas annarra.
  • Árangursrík/góð samskipti hjálpa okkur að skilja einstaklinga eða aðstæður betur og gera okkur kleift að leysa ágreining, byggja upp traust og virðingu, og skapa umhverfi þar sem skilningur, skapandi hugmyndir, lausnaleit og umhyggja getur blómstrað. Eins einföld og samskipti virðast vera þá kemur það fyrir að fólk misskilur hvort annað, sem getur valdið átökum og gremju bæði í persónulegum og faglegum samskiptum.
  • Árangursrík/góð samskipti snúast ekki aðeins um að skiptast á upplýsingum, heldur einnig um að skilja tilfinningarnar á bak við upplýsingarnar. Góð samskipti bæta og dýpka tengsl þín við aðra og bæta samvinnu, ákvarðanatöku og lausn vandamála. Góð samskipti gera þér jafnvel auðveldara fyrir að miðla neikvæðum eða erfiðum skilaboðum án þess að skapa átök og eyðileggja traust.

Félagsfælni

Maðurinn er félagsvera og því er það okkur ekki eðlislægt að verja tíma okkar ein löngum stundum. Sú örvun sem að fylgir samskiptum við aðra er okkur því nauðsynleg.

  • Félagsfælni má skilgreina sem yfirdrifinn, óraunhæfan, og þrálátan kvíða í tengslum við félagslegar aðstæður, þ.e. samskipti við annað fólk eða að framkvæma athafnir að öðrum viðstöddum. Kvíðinn veldur því að einstaklingurinn forðast meðvitað slíka félagslega þátttöku, finnur til mikils kvíða í aðstæðunum og/eða hefur kvíða við tilhugsunina eina. Þeir sem þjást af félagsfælni gera sér almennt grein fyrir að um óraunhæfan ótta er að ræða. Kvíðinn er það mikill að hann hefur hamlandi áhrif á daglegt líf einstaklingsins. Félagsfælni getur verið mjög mismunandi víðtæk. Hún getur náð yfir allt frá fáum aðstæðum upp í mjög víðtækar aðstæður, sem í raun veldur þá algjörri einangrun, þar sem einstaklingurinn fer helst ekki úr húsi.
  • Meðferð við félagsfælni byggir á lyfjameðferð og/eða viðtalsmeðferð, sem byggir einkum á hugrænni atferlismeðferð. Meta þarf í hverju tilviki hvaða leið er vænlegust til árangurs í samráði við fagaðila og sérfræðinga (fengið af vef doktor.is) 

  • Á vefsíðu Kvíðameðferðarstöðvarinnar er hægt að nálgast spurningar sem gætu hjálpað þér að gera þér grein fyrir hvort þú sért haldinn félagsfælni. Svarir þú spurningunum játandi getur verið að þú sért haldinn félagsfælni, en úr því fæst ekki skorið nema með mati fagmanns.

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér