Sjálfstætt líf

Sjálfstætt líf

Sjálfstætt líf (Independent living movement) er hugmyndafræði og hreyfing fatlaðs fólks sem á rætur sínar að rekja til mannréttindabaráttu fatlaðs fólks á 8. áratug 20. aldar. Um er að ræða endurskilgreiningu á hugtakinu sjálfstæði.  Í stað þess að geta gert allt upp á eigin spýtur án aðstoðar sé sjálfstæði fólgið í að hafa stjórn, val og möguleika til sjálfstæðs lífs með notendastýrðri persónulegri aðstoð - NPA .  

Hvað er NPA?

NPA er þjónustuform sem byggir á hugmyndafræðinni um sjálfsætt líf. Markmiðið er að fatlað fólk geti lifað sínu lífi og haft sömu möguleika og ófatlað fólk. Valdið flyst frá þjónustukerfinu til borgarans sem verður um leið vinnuveitandi og verkstjórnandi síns aðstoðarfólks sem hann ræður til sín sjálfur. Aðstoðarfólk vinnur samkvæmt starfslýsingu sem fatlað fólk semur og er hönnuð eftir einstaklingsbundnum þörfum og lífsstíl.  Þannig hefur fatlað fólk val um hver aðstoðar það, hvar aðstoðin fer fram, hvernig hún er skipulögð og hvenær (tekið af www.npa.is).

NPA samningur felur í sér að fatlað fólk semur við sitt sveitarfélag um að sjá um og skipuleggja sína eigin aðstoð. Einstaklingurinn og sveitarfélagið gera þá svokallaðan NPA samning sín á milli og byggir á sjálfsmati á þjónustuþörf einstaklingsins. Út frá því er áætlað mánaðarlegt fjárframlag sveitarfélagsins til einstaklingsins. Fjármagnið sem einstaklingurinn fær skiptist í þrjá hluta:

  • 85%  í  laun og launatengd gjöld til aðstoðarfólks.
  • 10% umsýslukostnaður sem fer til umsýsluaðila.
  • 5% vegna útlagðs kostnaðar við aðstoðarfólk.

NPA samningar byggja á lögum nr 38/2018 Lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Um er að ræða samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og samtaka fatlaðs fólks um innleiðingu á NPA  á Íslandi, en sveitarfélögin og ríkið skipta méð sér kostnaðinum.

Bæklingar og annað efni tengt NPA

  • Handbók Félagsmálaráðuneytisins um NPA (út. 2019)

1250/2018 – Reglugerð um notendastýrða persónulega aðstoð. (island.is)

NPA handbók

Vefsíður tengdar NPA

NPA miðstöðin, svf. var stofnuð 16. júní 2010. Félagið er rekið af og í eigu félagsmanna; fatlaðs fólks sem hefur NPA og nýtir NPA miðstöðina sem umsýsluaðila. Hægt er að kynna sér starfsemi NPA miðstöðvarinnar og  hugmyndafræðina um Sjálfstætt líf á Vefsíðu NPA miðstöðvarinnar. NPA miðstöðin er staðsett í Urðarhvarfi 8, 203 Kópavogur.

NPA á Norðurlöndunum
Í Stokkhólmi í Svíþjóð var hreyfingin um Sjálfstætt líf stofnuð árið 1983, sú fyrsta á Norðurlöndunum. Hægt er að kynna sér NPA þjónustu og samvinnufélagið STIL - personlig assistans. Í Svíþjóð er einnig að finna samvinnufélagið Jag.se sem sérhæfir sig í að aðstoða fólk með þroskahömlun að hafa NPA. 

Noregur, þar er samvinnufélagið ULOBA sem var stofnað 1991. Þar er talað um BPA (Borgerstyrt Personlig Assistane) eða Borgarastýrð persónuleg aðstoð.  Finna má góðar upplýsingar fyrir notendur og aðstoðarfólk, svo sem fræðslumyndbönd á heimasíðu þeirra uloba.no

Beingreiðslur

Beingreiðslusamningar um notendastýrða persónulega aðstoð byggja ekki á lagaskyldu en hafa verið við lýði um nokkurt skeið. Í ákveðnum tilfellum er heimilt að gera beingreiðslusamning við fatlaðan notanda þjónustunnar eða við forsjáraðila ólögráða barna. Í beingreiðslusamningi felst að viðkomandi fær greidda ákveðna fjárhæð sem hann ráðstafar sjálfur til kaupa á þeirri þjónustu sem hann ella hefði fengið frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Fjárhæð beingreiðslusamninga er byggð á mati á stuðningsþörf skv. reglum Reykjavíkurborgar um félagslega heimaþjónustu og  stuðningsþjónustu.

Reglur um beingreiðslusamninga við fatlað fólk og forsjáraðila fatlaðra barna í Reykjavík.

Munur á NPA samningi og beingreiðslusamningi er annað regluverk í kringum beingreiðslusamninga og fjárhæðin sem einstaklingurinn fær úthlutað frá sínu sveitarfélagi skiptist ekki í þrjá hluta eins og NPA samningar gera. Þeir sem eru með beingreiðslusamning hafa því ekki ákveðna upphæð sem ætluð er sérstaklega til að mæta kostnaði við aðstoðarfólk t.d. ferðakostnað (5%) né umsýslukostnað (10%).

Einkafyrirtæki sem sinna aðstoð í heimahúsum

Vinun

Silungakvísl 14 | 110 Reykjavík | 578 9800 |[email protected] | Vefsíða Vinunar

Á vefsíðu Vinunar má sjá að Vinun veitir sveigjanlega þjónustu heim á borð við stutt innlit, lengri viðveru, yfirsetu, þrif, útréttingar, matarinnkaup, matseld og annað. Vinun veitir einnig heimahjúkrun þar sem hjúkrunarfræðingur heldur utan um lyfjagjöf, sáravarnir, umhirðu sára og inniliggjandi legg meðal annarra þátta. Vinun býður einnig upp á sértæka þjónustu fyrir þá sem þurfa mikinn stuðning. 

Sinnum

Ármúli 9 | 108 Reykjavík | 519 1400 | [email protected] | Vefsíða Sinnum

Samkvæmt vefsíðu Sinnum er boðið upp á aðstoð við aðhlynningu, persónulega aðstoð, máltíðir, þrif, útréttingar, hreyfingu, snyrtingu, afþreyingu og stuðning við aðstandendur. Sinnum sérhæfir sig í alhliða heimaþjónustu, heimahlynningu og veitir þjónustu allan sólarhringinn. Sinnum býður einnig upp á hvíldardvöl á sjúkrahótelinu í Ármúla 9. Hvíldardvöl er aðlöguð hverju sinni að þörfum eldri borgara, sjúklinga, hreyfihamlaðra, langveikra og annarra sem þurfa tímabundna hvíld í öruggu umhverfi.

Ylfa ehf.

S: 849-3985 |[email protected] |Vefsíða Ylfu ehf.

Samkvæmt heimasíðu Ylfu ehf. er markmið fyrirtækisins að veita sveigjanlega notendastýrða persónulega aðstoð og sveigjanlega þjónustu fyrir fólk með fötlun og fjölskyldur þeirra. Með þjónustunni er leitast við að einstaklingurinn njóti sín til fulls í þátttöku í samfélaginu á eigin forsendum. Hugmyndafræðin sem liggur að baki þjónustunnar er að efla sjálfstætt líf einstaklingsins, að hann stjórni sínu lífi á þann hátt sem hann kýs. Grunnhugmyndin að þjónustu er brotin niður í fjóra þjónustuþætti sem eru: NPA notendastýrð persónuleg aðstoð, ráðgjöf, nærþjónusta, fræðsla og stuðningshópar. Ylfa ehf. veitir þjónustu um land allt.

Sjálfstæð búseta

Nánar um húsnæði í boði fyrir fatlað fólk



Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér