Þjónusta sveitarfélaga

Þjónusta sveitarfélaga getur verið veitt af sveitarfélagi, byggðarsamlagi eða öðru formlegu samstarfi sveitarfélaga.

Þjónusta sveitarfélaganna getur verið mismunandi eftir sveitarfélögum en fatlað fólk á lögbundinn rétt til þjónustu samkvæmt lögum um félagsþjónustu nr. 40/199. Reynist þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustu eða stuðning skal veita meiri eða sérhæfðari en svo að henni verði fullnægt innan almennar þjónustu skal viðbótarþjónusta veitt samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/ 2018. Mikilvægt er að hafa í huga að sú þjónusta sem er veitt á grundvelli þeirra laga kemur til viðbótar þeirrar þjónustu sem veitt er á grundvelli annara laga en ekki í stað hennar. Þjónustan sem veitt er á grundvelli beggja laganna skal vera samþætt í þágu notanda.

Þjónusta allra sveitafélaga


Í öllum tilfellum er fólki sem leitar upplýsingar um þjónustu sveitarfélags ráðlagt að fara á vefsíðu sveitarfélagsins og leita upplýsinga þar eða hringja beint á skrifstofu viðkomandi sveitarfélags. Flest sveitafélaganna hafa á vefsíðu sinni þjónustugátt (mínar síður ) sem eru mínar síður íbúanna og er mikilvægt að skrá sig þar inn því þar inni má komast í samskipti við sveitaryfirvöld og þar liggja gjarnar umsóknareyðublöð og fleira. 

Athugið að á nokkrum stöðum hér vantar upplýsingar um þjónustu í einstökum flokkum og er þá best að hafa beint samband við viðkomandi sveitarfélag með netpósti eða hringja beint á skrifstofu þess. Upplýsingar Þekkingarmiðstöðvarinnar á þjónustu sveitarfélaganna eru frekar almennar og byggjast á upplýsingum sem fengnar eru á vefsíðum sveitarfélaganna.

Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga má m.a. finna:

Liðveisla

Fatlað fólk á rétt á liðveislu, sem hefur það markmið að styðja við viðkomandi, auka sjálfstæði og rjúfa félagslega einangrun. Til liðveislu getur talist að gefa fötluðum einstaklingi kost á að njóta tómstunda og menningar, en einnig getur hún falið í sér stuðning heima við daglegar athafnir sem og búðarferðir og annað slíkt.

Frekari liðveisla

Frekari liðveisla er viðbótarþjónusta við lögbundna almenna þjónustu sem fötluðu fólki stendur til boða, eins og heimaþjónustu, heimahjúkrun, kennslu og þjálfun og kemur einungis til álita ef sú þjónusta telst ekki nægjanleg.
Frekari liðveisla er margháttuð persónuleg aðstoð í daglegu lífi, sniðin að þörfum hvers og eins.
Frekari liðveisla er þjónusta fyrir þá sem búa sjálfstætt í íbúð, hafi þeir fullnýtt rétt sinn til heimaþjónustu sveitarfélags skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Einnig að veitt sé heimahjúkrun þar sem það á við. Frekari liðveisla er fyrst og fremst veitt á heimili þjónustunotandans.

Húsnæðisbætur

Húsnæðisbætur eru mánaðarlegar greiðslur sem eru ætlaðar til að aðstoða þá sem leigja íbúðarhúsnæði, hvort sem er í félagslega kerfinu, námsgörðum eða á hinum almenna leigumarkaði.
Markmið laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur er að lækka húsnæðiskostnað efna minni leigjenda með greiðslu húsnæðisbóta vegna leigu á íbúðarhúsnæði og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum. Húsnæðis og mannvirkjastofnun  annast framkvæmd húsnæðisbótakerfisins og er sótt um bæturnar á vefsíðu og eru þar um fyrirkomulagið. Kerfið er fjármagnað að fullu úr ríkissjóði

Ferðarþjónusta fatlaðra

Fatlaðir einstaklingar sem ekki geta keyrt bíl, hafa ekki afnot af bíl né geta nýtt sér almenningssamgöngur eiga rétt á að nýta sér akstursþjónustu fyrir fatlaða til að komast á milli staða.

Til að eiga rétt á þjónustunni þarftu að eiga lögheimili í því sveitarfélagi sem þú sækir um aksturþjónustuna. Einnig þarf að uppfylla eitt eða fleiri af eftirfarandi skilyrðum:

  • Vera hreyfihamlaður og nota hjólastól.
  • Geta ekki nýtt sér almenningssamgöngur vegna fötlunar.
  • Vera blindur.

Fötluð börn geta fengið akstursþjónustu og sækja þá foreldrar eða forsjáraðilar um hana. Börn yngri en sex ára verða alltaf að vera í fylgd fullorðins einstaklings.

Sótt er um akstursþjónustu fyrir fatlaða inn á mínum síðum eða með því að senda umsókn á þjónustumiðstöð.


Sveitarfélagið, sem einstaklingur á lögheimili í, sendir umsókn þar sem eftirfarandi er tekið fram:

  • hversu margar ferðir einstaklingurinn þarf
  • á hvaða tímabili
  • ábyrgð greiðslu ferðanna

Gefinn er út skriflega tilkynningu um hvort umsókn er samþykkt eða synjað. Svör við rafrænum umsóknum eru birt á umsóknargátt akstursþjónustu. Almennt er þjónustan samþykkt til tveggja ára.

Reglur um ferðaþjónustu fatlaðara á höfuðborgarsvæðinu

Umsóknareyðublað um ferðaþjónustu fatlaðra

Félagsleg heimaþjónusta

Félagsleg heimaþjónusta er veitt fötluðum einstaklingum sem búa í heimahúsum og geta ekki án stuðnings séð um heimilishald og athafnir daglegs lífs. Einnig er veittur félagslegur stuðningur. Undir félagslega heimaþjónustu falla því heimilisþrif, heimsendur matur o.fl.

Félagslegt leiguhúsnæði

Félagslegt húsnæði er ætlað þeim einstaklingum sem vegna lágra tekna geta ekki leigt á almennum markaði eða keypt sér húsnæði. Skoðaðar eru tekjur allra á heimilinu, fjöldi barna o.s.frv. þegar verið er að ákveða hvort einstaklingur eigi rétt á félagslegu leiguhúsnæði og hve stórri íbúð.

Fjárhagsleg aðstoð

Einstaklingar sem ekki geta séð sér og fjölskyldu sinni farborða eiga rétt á fjárhagslegri aðstoð frá því sveitarfélagi sem viðkomandi er með lögheimili í. Sýna þarf fram á að tekjur séu lágar og nægi ekki fyrir fjölskylduna. Skoðaðar eru tekjur allra á heimilinu, fjöldi barna o.s.frv. þegar reiknað er út hvort viðkomandi eigi rétt á slíkum stuðningi.

Reglur um fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg

Notendastýrð persónuleg aðstoð ( NPA)

Hugmyndafræðin um sjálfstætt líf

Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) byggir á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf. Hugmyndafræðin byggist á rétti fatlaðs fólks til að lifa sjálfstæðu lífi, hafa fulla stjórn á lífi sínu, taka eigin ákvarðanir og hafi rétt á því að búa í og taka þátt samfélaginu án aðgreiningar. Ennfremur að fatlað fólk geti tekið, óháð eðli og alvarleika skerðingar, eigin ákvarðanir, stjórnað eigin aðstoð og mótað eigin lífsstíl.

Markmið NPA er að við sem fatlað fólk getum lifað lífi okkar og haft sömu möguleika og ófatlað fólk. Einnig að við höfum hámarks stjórn á því að móta okkar eiginn lífsstíl.

Samkvæmt hugmyndafræðinni gerir fatlað fólk kröfu um borgaraleg réttindi. Í þeim felst að fatlað fólk geti valið hvar það býr og með hverjum það býr. Einnig er gerð krafa um að fatlað fólk ráði hvernig aðstoðin er skipulögð, hvenær hún fer fram, hvar hún fer fram og hver veitir hana.

NPA samningur

Fatlað fólk semur við sitt sveitafélag um að sjá um og skipuleggja sína eigin aðstoð. Einstaklingurinn og sveitarfélagið gera þá svokallaðann NPA samning sín á milli.

Við gerð NPA samninga þarf einstaklingurinn að meta sínar þarfir og væntingar, enda er sjálfsmat mikilvægt atriði í hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf. Síðan koma sveitarfélagið og einstaklingurinn sér saman um þjónustuþörf einstaklingsins, þar sem sjálfsmatið er lagt til grundvallar. Út frá því er svo áætlað mánaðarlegt fjárframlag sveitarfélagsins til einstaklingsins svo að hann geti séð um og skipulagt þjónustuna sjálfur eftir sínum þörfum og hentisemi.

Fjármagnið sem einstaklingurinn fær skiptist í þrjá hluta:

  • 85% laun og launatengd gjöld til aðstoðarfólks.
  • 10% umsýslukostnaður sem fer til umsýsluaðila.
  • 5% vegna útlagðs kostnaðar við aðstoðarfólk.

Hugmyndafræðin - NPA miðstöðin

Hlutverk - NPA miðstöðvarinnar

Styrkur til náms og til verkfæra/-og tækjakaupa.

Samkvæmt 25. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 er heimilt að veita fötluðu fólki styrki eða fyrirgreiðslu vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar

Leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um verkfæra og tækja kaupa.

Reglur um verkfæra / tækjakaupa hjá Reykjavíkurborg.


Fasteignagjöld

Sveitarfélögum er heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Sveitarfélögum er skylt að setja sér reglur um beitingu heimildarinnar. Reykjavíkurborg veitir einnig afslátt af fráveitugjaldi sem greitt er til Orkuveitu Reykjavíkur á grundvelli 4. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Lækkun á fasteignaskatti og fráveitugjaldi er byggð á reglum sem borgarstjórn setur, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Reglur um vaxtabætur vegna eignar styðjast við B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003 um tekju- og eignaskatt. Ákvarðanir vegna þessara reglna eru kæranlegar til innanríkisráðuneytisins innan þriggja mánaða frá ákvörðuninni á grundvelli 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Til að hafa rétt á afslættinum þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Vera elli- eða örorkulífeyrisþegi.
  • Vera með skráð lögheimili í eigninni og vera þinglýstur eigandi eignarinnar.
  • Vera búsett/ur í eigninni.
  • Vera með rétt á vaxtabótum vegna eignarinnar.

Tekjumörk vegna lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds á árinu 2022 eru:

  • Réttur til 100% lækkunar

Einstaklingur með tekjur allt að 4.550.000 kr.
Samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 6.350.000 kr.

  • Réttur til 80% lækkunar

Einstaklingur með tekjur á bilinu 4.550.001 til 5.210.000 kr.
Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 6.350.001 til 7.040.000 kr.

  • Réttur til 50% lækkunar

Einstaklingur með tekjur á bilinu 5.210.001 til 6.060.000 kr.
Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 7.040.001 til 8.410.000 kr.

Við álagningu fasteignagjalda í janúar 2022 er hlutfall afsláttar elli- og örorkulífeyrisþega til bráðabirgða það sama og það var í árslok 2021. Álagning vegna tekna ársins 2021 liggur fyrir í júní 2022, stuttu síðar hefst vinna við útreikning afsláttar og verða allar breytingar tilkynntar bréflega í lok október 2022.

Það þarf ekki að sækja sérstaklega um afslátt vegna þessara gjalda. Fjármála- og áhættustýringarsvið sér um að framkvæma breytingar á fasteignaskatti og fráveitugjaldi eftir yfirferð á skattframtölum elli- og örorkulífeyrisþega.

Afsláttarþegar sem eiga von á endurgreiðslu geta skráð upplýsingar um bankareikning á Mínum síðum

Félagsleg ráðgjöf

Öll þurfum við að takast á við ýmsar áskoranir í lífinu. Stundum er nauðsynlegt að fá ráðgjöf og stuðning til að mæta þeim. Félagsleg ráðgjöf hefur það markmið að hjálpa fólki til sjálfshjálpar með fjölbreyttum leiðum þannig að það geti sem best notið sín í samfélaginu.

Þú hefur samband við þjónustumiðstöð í þínu hverfi eða skrifstofur sveitafélags sem þú býrð í til að biðja um félagslega ráðgjöf. Ráðgjafi leiðbeinir þér varðandi umsóknir um ákveðna þjónustu sem hentar þínum þörfum og aðstoðar við gerð þeirra ef þörf er á.

Allt fólk 18 ára og eldra sem á lögheimili í Reykjavík getur leitað félagslegrar ráðgjafar sér að kostnaðarlausu á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar.

Félagsleg ráðgjöf getur meðal annars falið í sér fjárhagsaðstoð, stuðning við húsnæðisleit, stuðning við virkni í atvinnuleysi og stuðning vegna skertrar starfsgetu.

Ráðgjafar á þjónustumiðstöðvum vinna með fólki og veita því upplýsingar um ýmsa þjónustu og vísa áfram í úrræði sem henta hverjum og einum.

Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja.

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér