Norræn samtök CP í burðarliðnum

Norræn samtök þeirra er sem eru með CP er í burðarliðnum, en sænsku CP samtökin hafa haft veg og vanda að stofnuninni. Stefnt er að því að formleg stofnun verði í upphafi Norrænnar ráðstefnu um CP málefni sem haldin verður í Gautaborg 12.-14. nóvember nk.

Gert er ráð fyrir að stofnaðilar komi frá öllum Norðurlöndunum, Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð, auk sjálfsstjórnarlandanna Álandseyja, Færeyja og Grænlands. “Samtökin eru fyrst og fremst hugsuð sem samstarfsvettvangur þar sem aðildarfélögin skiptast á upplýsingum og fræðslu til nota hvert í sínu landi,” sagði Johan Alex Lindman framkvæmdastjóri RBU, sænsku CP samtakanna sem var hér á landi á ferð á dögunum.

Hann sagði jafnfram að ekki væri fyrirhugað að um pólitísk samtök yrði að ræða sem síðan gengju í evrópsk og alþjóðleg samtök. “Við lítum fyrst og fremst á þetta sem samstarfsvettvang Norrænu þjóðanna sem byggja sitt velferðarkerfi upp á svipuðum nótum. Kostnaður vegna þátttökunnar verður fyrst og fremst kostnaður við þátttöku í fundum sem haldnir verða til skiptist í löndunum árlega. Gert er ráð fyrir vinnuhópi sem saman stendur af fulltrúum landanna.”