Andlát: Arnór Pétursson

Arnór Pétursson, fyrrverandi formaður  Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra og Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík, lést á Landspítalanum í Fossvogi þriðjudaginn 28. júní síðastliðinn, 61 árs að aldri. Arnór fæddist hinn 14. nóvember 1949 í Kópavogi.

Hann hlaut skipstjórnarréttindi og fiskimannapróf árið 1971 og sótti sjó um nokkurra ára skeið. Árið 1974 var Arnór einn stofnenda Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík og gegndi fyrstur formennsku í félaginu, allt til ársins 1986. Sjálfur var hann íþróttamaður og keppti fyrstur fatlaðra Íslendinga á ólympíuleikum þegar hann keppti í lyftingum á leikunum í Arnheim árið 1980.

Auk ötuls starfs innan íþróttahreyfingarinnar starfaði Arnór um árabil innan Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, og var meðal annars formaður sambandsins árin 1998 til 2004. Hann hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín, þar á meðal gullmerki Íþróttasambands Íslands, Íþróttasambands fatlaðra, Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík og var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1997. Arnór lætur eftir sig uppkomna dóttur, barnabörn og barnabarnabörn.

Sjálfsbjörg landssamband fatlaðra vottar aðstandendum innilegrar samúðar.