Freyja Haraldsdóttir ráðin framkvæmdastjóri NPA miðstöðvarinnar

Freyja Haraldsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri NPA miðstöðvarinnar og hóf hún störf 1. des. Verksvið hennar verður víðtækt, hún mun sjá um daglegan rekstur miðstöðvarinnar auk þess sem henni er falið að koma starfsemi hennar á gott skrið hvað varðar þjónustu við félagsmenn skv. samþykktum miðstöðvarinnar.

Fyrsta verk Freyju var að fara fyrir hópi nokkurra félagsmanna NPA miðstöðvarinnar í Alþingishúsið á alþjóðlegum degi fatlaðs fólks 3. des. þar sem þeir afhentu alþingismönnum kröfuyfirlýsingu í 10 liðum. Við þetta tækifæri sagði Freyja nokkur orð og las yfirlýsinguna fyrir viðstadda. Helgi Hjörvar, alþingismaður tók við yfirlýsingunni í 63 eintökum sem hvert um sig var merkt alþingismanni. Hann kvaðst myndu koma skilaboðunum áleiðis og sagðist ætla að vinna að málefnum fatlaðs fólks innan Alþingis eins og hann frekast gæti.

Þess má svo að lokum geta að Freyja Haraldsdóttir fékk glæsilega kosningu á Stjórnlagaþingið.