Aðgengi fyrir alla

Það er mikið ánægjuefni að loksins sé komin byggingarreglugerð hér á landi sem gerir kröfu um að húsnæði henti öllum og húsnæði sé aðgengilegt fyrir alla,  hreyfihamlaða og aðra fatlaða.

Tugir þúsunda Íslendinga búa við hreyfihömlun eða margvíslega fötlun vegna slysa, veikinda eða einfaldlega vegna þess að tímabundnar aðstæður gera kröfu til góðs aðgengis.  Þjóðin er jafnframt að eldast og eldri borgarar eiga sinn rétt til að geta ferðast um og heimsótt börn sín og barnabörn.  Það hefur einnig verið vanrækt að taka tillit til ungs fólks með börn í kerrum og barnvögnum sem þurfa að búa í húsnæði sem hentar þeim t.d. í stúdentaíbúðum eða almennt í húsnæði  upp á 2-3 hæðir í fjölbýlishúsum.

Nú er þess loks krafist að í íbúðarhúsnæði sem er tvær til þrjár hæðir sé lyfta og salerni séu hönnuð með það í huga að hreyfihamlaðir hafi þar aðgang.  Þetta er sjálfsagt réttlætismál.  Ég  hef einnig oft velt því fyrir mér hvers vegna sumarbústaðir eru yfirleitt með allt of þröngar dyr og óaðgengilega snyrtiaðstöðu.  Þetta er oft mikilvægur samkomustaður allrar fjölskyldunnar.

Það á eftir að vera mjög hagkvæmt fyrir samfélagið að líkamlegt ásigkomulag setji ekki hömlur á búsetu fólks og fólk þarf ekki lengur að flytja eða gera stórfelldar breytingar á húsnæði til að geta lifað þar eðlilegu lífi.   Það er mikilvægt að flestir geti sem lengst búið heima hjá sér og fengið þar jafnvel heimahjúkrun.  Sumir hafa horft til þess að byggingarkostnaður aukist, en jafnvel þótt svo væri, ætti ekki að horfa til þess sem kostnaðar heldur ekki síður sem tækifæris í lækkun kostnaðar og aukinna lífsgæða.

Friðrik Á. Ólafsson hjá Samtökum iðnaðarins segist hræðast það að þetta hafi í för með sér aukinn kostað.  Það er ekkert að hræðast við þetta.  Þetta er liður í eðlilegri þróun við að auka gæði og aðbúnað húsnæðis. Þorkell Magnússon, formaður laganefndar Arkitektafélags Íslands, talar um að þetta sé göfugt markmið að stuðla að neytendavernd, en of langt sé gengið hvað varðar aðgengismál.  Þetta er ekki bara göfugt markmið, heldur mikilvægt og sjálfsagt markmið til að huga að hagsmunum allra.  Margt hefur haft áhrif á byggingarkostnað svo sem jarðskjálftakröfur, eingangrun húsnæðis , kröfur um hljóðvist og fjölmargt annað, en hagsmunir hreyfihamlaðra eru ekki síður mikilvægir.   Það er ekki stórt mál að taka tillit til fatlaðra í þessu samhengi.

Það hefur verið sífelld barátta hjá fötluðum að sækja rétt sinn og njóta jafnræðis í þjóðfélaginu.  Sem betur fer hafa orðið gífurlegar framfarir og hugarfarsbreyting á undanförnum áratugum.  Að sjálfsögðu er það ekki án kostnaðar að tryggja jafnrétti og aðengi fyrir alla og við megum aldrei horfa framhjá því að lífsgæði okkar allra skipta miklu máli og aðgengi fyrir alla er þar lykilatriði.  Ég fagna þessum áfanga í hagsmunabaráttu hreyfihamlaðra.

Þorkell Sigurlaugsson
Stjórnarformaður
Sjálfsbjargarheimilins