ÖBÍ segja greiðsluþakið hálfgerðan blekkingarleik

Öryrkjabandalag Íslands segir þak á greiðsluþátttöku sjúklinga hriplekt. Í nýrri skýrslu þess kemur fram að sjúklingar greiði á annan milljarð í komugjöld til sérfræðilækna og sjúkraþjálfara framhjá greiðsluþakinu. Formaður bandalagsins segir viðbótarkostnaðinn bitna verst á þeim sem mest þurfa á þjónustunni að halda. 

250 milljónir úr vösum öryrkja

Frá því að sérfræðilæknar og sjúkraþjálfarar sögðu upp samningum við Sjúkratryggingar Íslands, sérfræðilæknar árið 2018 og sjúkraþjálfarar árið 2020, hafa margir þeirra innheimt komugjöld af sjúklingum.

Í nýrri skýrslu Öryrkjabandalagsins, sem kynnt var í dag, kemur fram að í heild hafi almenningur greitt sérfræðilæknum og sjúkraþjálfurum um 1,7 milljarða á ári, til viðbótar greiðslum frá Sjúkratryggingum. Þar af áætlar bandalagið að um 250 milljónir hafi komið úr vösum öryrkja. „Við getum eiginlega ekki litið á þetta á neinn annan hátt en að þetta sé hálfgerður blekkingarleikur þegar sjúklingar bera sjálfir kostnaðinn af lækkun greiðsluþátttökunnar,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.

Greiða margfalt meira en greiðsluþakið segir til um

Greiðsluþátttökukerfið gerir ráð fyrir því að hámarkskostnaður öryrkja fari ekki yfir rúmar 18 þúsund krónur á ári en vegna samningsleysisins og komugjaldanna eru dæmi um að kostnaður öryrkja sem fara reglulega í sjúkraþjálfun sé fjórfalt, jafnvel sexfalt það sem nemur greiðsluþakinu. „Þarna er um þann hóp að ræða sem þarf hvað mest á þessari þjónustu að halda og þessi kostnaður sem bætist þarna við er bara orðinn of íþyngjandi,“ segir Þuríður. „Við viljum að samningar haldi og fólk fari eftir þeim sáttmála sem ríkt hefur, að greiðsluþökin gildi en þetta sé ekki bara einhvern veginn gefið laust.“

Frétt af RUV.IS

https://www.ruv.is/frett/2021/10/13/obi-segja-greidsluthakid-halfgerdan-blekkingarleik