Starfsemin

Afhentu heilbrigðisráðherra undirskriftir herferðarinnar Nema fötluð

Í gær afhentu Sjálfsbjargarfélagar heilbrigðisráðherra 8700 undirskriftir úr undirskriftaherferðinni Öll nema fötluð - þar sem hvatt er til þess að hjálpartækjalöggjöfin verði uppfærð þannig að hún tryggi hreyfihömluðu fólki m.a. tækifæri til að lifa sjálfstæðu lífi, stunda íþróttir og tómstundir, mennta sig og taka þátt á vinnumarkaði og sinna foreldrahlutverki.

Í samfélagi sem gerir sífellt meiri kröfur til samfélagsþátttöku fatlaðs fólks og sem fatlað fólk sjálft gerir kröfur um, er grundvallaratriði að það hafi aðgengi að hjálpartækjum sem gerir því kleift að taka þátt. Til þess að inngilding og samfélagsþátttaka geti raunverulega orðið, verður að uppfæra hjálpartækjalöggjöfina til nútímans. Slíkt dregur úr mismunun og eykur jöfnuð svo fátt eitt sé nefnt. Heilbrigðisráðherra tók vel á móti hópnum og upplýsti að nú þegar væri starfshópur að störfum varðandi endurbætta hjálpartækjalöggjöf, fannst honum einboðið að Sjálfsbjörg ætti fulltrúa í þeim hóp og samráðs yrði gætt. Við þökkum heilbrigðisráðherra fyrir góðar viðtökur og þau orð að hann myndi vinna að þessu mikilvæga máli.