Sjálfsbjörg í Austur-Húnavatnssýslu - sagan

Sjálfsbjargarfélag var stofnað í Austur – Húnavatnssýslu þann 2. apríl árið 1981. Fyrsti formaður félagsins var Guðmundur Klemensson. Stofnfundurinn var haldinn í framhaldi af kynningarfundi sem starfsnefnd á vegum J.C. Húnabyggð og Samband austur-húnvetnskra kvenna (SAHK) efndu til. Ólöf Ríkarðsdóttir mætti á stofnfundinn og sagði frá starfsemi Sjálfsbjargar. Á framhaldsstofnfundi 25. maí sama ár fékk hið nýstofnaða félag góðar gjafir.

Árið 1982 gaf félagið Héraðshælinu á Blönduósi þjálfunarbekk og stól. Fyrirkomulag og aðstaða til sjúkraþjálfunar var þá til umræðu. Félagið hefur haldið áfram að styrkja heilbrigðisstofnun héraðsins og færði Héraðssjúkrahúsinu á Blönduósi að gjöf tvo hjólastóla árið 2000 í minningu Guðmundar Klemenssonar, sem þá var látinn. Fleiri gjafir hafa verið gefnar til sjúkrahússins á umliðnum árum.

Haustið 1989 er Jóhann Pétur Sveinsson og fleiri fóru á rafmagnshjólastólum frá Akureyri til Reykjavíkur komu þeir við á Blönduósi og var tekið á móti þeim með kaffisamsæti.

Í febrúar árið 2000 var beðið um aðstoð frá Sjálfsbjörg, landssambandi fatlaðra, við að hjálpa til við að þrýsta á bætt aðgengi inn á sýsluskrifstofu Austur – Húnvetninga. Beiðnin kom frá þáverandi sýslumanni, Kjartani Þorkelssyni og tímasetning beiðninnar var ef til vill ekki tilviljun, því Arnór Pétursson formaður Sjálfsbjargar og Sigurður Einarsson framkvæmdastjóri voru þá í heimsókn á Blönduósi. Fyrir hönd Sjálfsbjargar í Austur – Húnavatnssýslu var Guðfinna Einarsdóttir í forsvari og sýslumaður sá er tók við af Kjartani ásamt fleirum. Þetta er aðeins eitt af nokkrum dæmum um átak í ferlimálum í Austur – Húnavatnssýslu, en ferlimálin hafa gjarnan verið aðalbaráttumál félagsins.

Formaður Sjálfsbjargar, Austur-Húnavatnssýslu á 50 ára afmælisári Sjálfsbjargar lsf. (2009) sem og á 60 ára afmælisári landssambandsins 2019 var Ingunn María Björnsdóttir.

Sjálfsbjargarfélagar í Austur Húnavatnssýslu gefa hjartastuðtæki, úr Morgunblaðinu 24. janúar 2003.