Starfsemin

Fyrsti landsfundur Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra

Þann 26. september var haldinn fyrsti landsfundur Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra á Bolungarvík. Á þingi Sjálfsbjargar lsf. vorið 2014 sem haldin voru annað hvert ár var ákveðið að breyta lögum sambandsins og breyta fyrirkomulagi þinganna í árlega fundi sem “landsfundi”.

Á fundinum voru tveir Sjálfbjargarmeðlimir sæmdir gullmerki félagsins fyrir vel unnin störf þær Birna Hjaltalín Pálsdóttir og Messíana Marsellíusardóttir. Hér er örlítill texti um þeirra störf innan Sjálfsbjargar:

Messíana Marsellíusdóttir varð snemma félagi í Sjálfsbjörg á Ísafirði. Hún var fyrst kosin í stjórn árið 1972, þá sem ritari en síðar formaður um árabil eða allt til ársins 2002, er hún gekk úr stjórninni. Messíana sá um rekstur vinnustofu Sjálfsbjargar, Vinnuver, sem rekið var í Mjallargötu á Ísafirði til fjölda ára. Vinnuver veitti félögum í Sjálfsbjörg vinnu við sitt hæfi, en þar voru framleiddar ýmis konar vörur sem voru svo seldar í verslun Vinnuvers og víðar um land. Messíana sótti fundi og þing á vegum Sjálfsbjargar. Einnig sótti hún þing Bandalags fatlaðra á Norðurlöndum sem haldin voru m.a. í Danmörku og Finnlandi og hafði ávallt brennandi áhuga á starfsemi sambandsins og málefnum hreyfihamlaðra almennt. Mikill fengur var í starfi Messíönu fyrir félagið.

Birna Hjaltalín Pálsdóttir er stofnfélagi. Hún tók þátt í stofnun Sjálfsbjargar í Bolungarvík 5. september 1959. Hún hefur verið mjög virk í félaginu alveg frá stofnun þess til dagsins í dag, meðal annars bakaði hún hluta af þeim pönnukökum sem bornar voru fram á landsfundinum fyrr í dag. Hún var ritari frá árinu 1997 til 2012 og sat í varastjórn í mörg ár. Hún var skoðunarmaður reikninga félagsins lengi, starfaði í mörgum nefndum og alltaf verið tilbúin að hjálpa. Hún var gerð að heiðursfélaga í Sjálfsbjörg á aðalfundi 20. apríl síðastliðinn.

 

Á landsfundinum voru eftirtaldar ályktanir samþykktar:

Ályktun frá 1. landsfundi  Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra um kjaramál fatlaðra.

Fyrsti landsfundur Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra, haldinn í Bolungarvík 26. september 2015 krefst þess að greiðslur Tryggingastofnunar verði nú þegar færðar til samræmis við þær kjarabætur sem urðu 1. maí s.l. á almennum vinnumarkaði;  sama skal gilda um orlofs- og desemberuppbót.

Mikill kostnaðar getur fylgt fötlun fólks og er mikilvægt að þak sé sett á slíkan kostnað þannig að hann sé viðráðanlegur, en sá kostnaður sem fatlað fólk getur orðið fyrir beinlínis vegna fötlunar sinnar hefur aukist ár frá ári. Nauðsynlegt er að leiðrétta þessa beinu kjaraskerðingu margra fatlaðra. Í þessu samhengi krefst Sjálfsbjörg þess einnig að felldur verði niður virðisaukaskattur af lyfjum og hjálpartækjum, að skattleysismörk verði hækkuð og að öllum sé tryggð mannsæmandi framfærsla.

Við mótmælum um leið þeirri tekjuskerðingu sem öryrkjar verða fyrir þegar þeir ná ellilífeyrisaldri, en þá fellur t.d. niður hin svokalla aldurstengda lífeyrisuppbót. Er hér um beina mismunun vegna aldurs að ræða.

Fátækt meðal fatlaðra er ekki óviðráðanlegt náttúrulögmál heldur pólítísk ákvörðun íslenskra ráðamanna, byggð á virðingarleysi og vanþekkingu sem verður ekki breytt án þess að ráðamenn skilji að við slíkt verði ekki unað.

 

Ályktun frá 1. landsfundi  Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra Um nærþjónustu við fatlaða.

Fyrsti landsfundur Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra, haldinn í Bolungarvík 26. september 2015 telur nauðsynlegt að efla sveitarfélögin í landinu til að þau geti veitt fötluðum íbúum þá nærþjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum. Nýleg dæmi um sveitarfélög sem hafa ekki getað sinnt akstursþjónustu fyrir fatlað fólk sýna berlega vandann sem þau standa frammi fyrir.

Nauðsynlegt er að sveitarfélögin sjálf sýni frumkvæði og fari eftir tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014 sem ráðherra hefur framlengt til ársins 2016.

Sjálfsbjörg telur að endurskoða þurfi fjármagnsskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga vegna þessa málaflokks; ríkið þarf að leggja til meira fjármagn til sveitarfélaganna svo að þau geti sinnt lagalegri skyldu sinni gagnvart fötluðum íbúum sínum.

Stjórnmálamenn hampa gjarnan hagsmunasamtökum á hátíðarstundum. Til að gera hagsmunasmtökum fatlaðs fólks kleift að gera sig gildandi í störfum sínum, hvort sem það er á vettvangi nefndarstarfa á vegum hins opinbera eða annars staðar, er nauðsynlegt að ríki og sveitarfélög styðji við þau með fjárframlögum.

 

Ályktun frá 1. landsfundi Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra um stöðu fatlaðra kvenna.

Fyrsti landsfundur Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra, haldinn 26. september 2015 í Bolungarvík lýsir yfir áhyggjum sínum af stöðu fatlaðra kvenna á Íslandi.  Mikil umræða og vitundarvakning hefur átt sér stað um háa tíðni ofbeldis gagnvart konum á Íslandi.  Sjálfsbjörg vill í þessu samhengi benda á að rannsóknir hafa sýnt að fatlaðar konur eru líklegri til að verða fyrir ofbeldi en ófatlaðar konur.  Ofbeldið getur verið margskonar, t.d. líkamlegt, kynferðislegt, fjárhagslegt og/eða félagslegt.  Fatlaðar konur geta verið í þeirri aðstöðu að þurfa að reiða sig á stuðning þess sem beitir þær ofbeldi.  Getur verið mjög erfitt að losna úr slíkum aðstæðum. Mikilvægt er því að stuðla að fjárhagslegu sjálfstæði fatlaðra kvenna og rjúfa félagslega einangrun þeirra. Þjónusta við þær ætti að vera í því formi að hún stuðli að valdeflingu og sjálfstæði; það gera ríki og sveitarfélög t.d. með því að fylgja hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf og með því að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Fyrsti landsfundur Sjálfsbjargar lsf. skorar á stjórnvöld og aðra sem málið varða til að beita sér fyrir vitundarvakningu um stöðu fatlaðra kvenna og að leita allra leiða til að koma í veg fyrir ofbeldi gagnvart öllum konum.

Fatlaðar konur eru fyrst og fremst konur.