Grétar Pétur mættur!

Grétar Pétur Geirsson nýr formaður Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra starfar í hlutastarfi á skrifstofu sambandsins sem er nýjung í starfinu. Félagar geta haft samband við hann, annað hvort í gegnum síma  5-500-360 eða litið við á skrifstofunni eftir nánara samkomulagi.

Grétar Pétur segir þessa nýbreytni tilkomna til að auka þjónustu Sjálfsbjargar og ennfremur til að hann nái betra og meira sambandi við félaga. “Þetta er auðvitað gert í þeim tilgangi að efla starfsemi Sjálfsbjargar um allt land, en eitt af stefnumálum nýrrar stjórnar er að efla mjög starfsemi  einstakra félaga Sjálfsbjargar  en í dag er heildarfjöldi  þeirra fimmtán vítt og breitt um landið.”

Grétar Pétur segir mikla gerjun vera í málefnum fatlaðra um þessar  mundir, ekki síst með hliðsjón af tilflutningi málefna þeirra yfir frá ríki til sveitarfélaga í ársbyrjun 2011. “Það er skýlaus krafa okkar Sjálfsbjargarfólks að þessi tilflutningur leiði alls ekki til neinna skerðinga á þjónustu við félagsmenn, enda hefur hugmyndin á bak við tilfultninginn alltaf verið sú að með aukinni nærþjónustu við fólk með fötlun myndi þjónustan við það aukast og þar með lífsgæði.”