Starfsemin

Hefur ungt fatlað fólk tæki­færi á vinnu­markaði?

Margrét Lilja Arnheiðardóttir varaformaður Sjálfsbjargar lsh. skrifar.

Tækifæri ungs fatlaðs fólks á vinnumarkaði eru því miður færri en fyrir ungt fólk almennt. Það eru margir þættir þar á bak við, svo sem aðgengi eða réttara sagt skortur á aðgengi, fordómar, fá hlutastörf í boði og kerfi sem hentar alls ekki öllum. Ekki má gleyma almannatryggingakerfi sem klekkir á fötluðum sem vilja vinna hlutastarf á móti örorkulífeyrinum.

Alltof margir vinnustaðir eru óaðgengilegir fötluðu fólki, hvort sem það er sjálfur inngangurinn, hönnunin að innanverðu eða hreinlega hugarfar yfirmanna og vinnufélaga.

Ungt fatlað fólk mætir svo ýmsum öðrum þröskuldum í atvinnuleit, á ég að taka það fram í umsókninni að ég sé fötluð? Gæti það haft neikvæð áhrif og komið í veg fyrir að ég verði boðuð í viðtal? Ef fólk veit fyrir fram að ég er fötluð, mun það skyggja á hæfni mína í starfið og allt sem ég hef fram að bjóða?

Og á hinn bóginn, ef ég tek það ekki fram í umsókninni, gæti fólki fundist eins og ég hafi svikið það? Eins og ég hafi villt á mér heimildir?

Þrátt fyrir að margt hafi batnað á seinustu árum, þá eru samt svo margir með fyrir fram ákveðnar hugmyndir um fatlanir og fatlað fólk. Köllum þær bara því nafni sem þær í raun eru – fordóma. Fordómar um hvað við erum, hvað við getum og hver við erum. Fólk á það til að gleyma að við erum jafn mismunandi og við erum mörg. Ekkert okkar er eins.

Það á að sjálfsögðu ekki að skipta máli hvort manneskja fer um samfélagið gangandi, hlaupandi, hjólandi eða rúllandi. Eða hvort hún skynji umheiminn á „hefðbundinn“ hátt eða ekki. Ef manneskja er hæf í starfið, þá á hún að eiga jafn mikinn möguleika á að fá starfið eins og hver annar umsækjandi, hvort sem hún er fötluð eða ekki.

Heimsfaraldurinn leiddi til aukins sveigjanleika í atvinnulífinu. Langflest okkar hafa að minnsta kosti heyrt um heimaskrifstofur og fjarlausnir, og jafnvel notað sjálf, en mikil tregða var til að taka í notkun fyrir faraldurinn. Hlutir sem stór hópur fatlaðs fólk kallaði lengi eftir eru loksins notaðir reglulega og við sjáum að mörg okkar geta unnið heiman frá okkur. Þetta, þótt í leiðinlegum aðstæðum sé, er stór sigur fyrir fatlaða – unga sem aldna.

Fólk sem vegna mismunandi sjúkdóma og fatlana er fast heima hjá sér á daginn hefur samt möguleika á að taka þátt í atvinnulífinu ef heilsa leyfir. Þarna er stórt sóknarfæri fyrir vinnumarkaðinn til að fá inn flott og hæft fólk.

Því miður gerir almannatryggingakerfið fötluðu fólki á öllum aldri erfitt fyrir á vinnumarkaði. Ég vildi óska þess að þetta mein­gallaða kerfi væri ekki einn af þáttunum á bak við erfiðleika fatlaðs ungs fólks á vinnumarkaði, en þar til því verður breytt til hins betra erum við knúin til að ræða þetta trekk í trekk. Í stað þess að benda á tölur og prósentur vil ég segja frá minni persónulegu reynslu sem ungur öryrki á vinnumarkaði.

Árið 2019 vann ég 50% starf í níu mánuði af árinu. Ég var yfir mig ánægð að fá tækifæri til að sýna hvað í mér býr, en á sama tíma með kvíðahnút í maganum yfir því að lenda í veseni með örorkugreiðslurnar mínar. Ég passaði því sérstaklega vel upp á að allir pappírar, tölulegar upplýsingar og greiðsluáætlanir stemmdu og uppfærði um leið og eitthvað breyttist. Ég tók líka persónuafsláttinn minn út úr kerfinu hjá TR þegar ég byrjaði að vinna, til að vera viss um að ég myndi ekki lenda í veseni. Ég gerði allt eins og ég átti að gera og hélt að það væri nóg.

Í október fékk ég launaseðil frá TR eins og alla aðra mánuði, en tók eftir því að þau höfðu nýtt persónuafsláttinn minn, þrátt fyrir að vera ekki með aðgang að honum. Ég hringdi strax í TR og þau fullvissuðu mig um að þetta myndi ekki koma fyrir aftur.

Launaseðill nóvembermánaðar kom og ég sá að TR nýtti persónuafsláttinn minn aftur. Bara í þetta skipti var hann nýttur tvöfalt, eitthvað sem ég hélt að væri ekki hægt. Ég hringdi, skiljanlega ansi pirruð, í TR og eftir að vera hent á milli mismunandi deilda var mér tilkynnt að þetta myndi ekki koma fyrir aftur. Aftur. Allt í góðu, ég treysti þeim, aftur.

Desember kom og þar með launaseðillinn. Þennan mánuðinn höfðu þau þrefaldað persónuafsláttinn minn. Ég hringdi í TR eins og í hin tvö skiptin og fékk þá skýringu í þetta skipti að „þetta gerðist bara stundum“.

Ég var fegin að árið kláraðist eftir þessa þreföldun þar sem hver veit hvar þetta hefði endað.

Þegar kom að bráðabirgðareikningi skattframtalsins kveið ég niðurstöðunni. TR hafði stefnt mér í 400.000 króna skuld við ríkið. Þarna kom sér vel að ég var ung og hafði ekki nýtt barnasparnaðinn í neitt. Svona grínlaust – á ungt fólk á almennum leigumarkaði almennt 400.000 krónur í rassvasanum? Það er enn ólíklegra ef maður bætir svo við dæmið hærri heilbrigðiskostnaði, lægri launum og svo framvegis.

Svo kom að því sem ég hafði kviðið hvað mest af öllu, endurreikningur Tryggingastofnunar – þar sem þau gera nákvæmlega það – endurreikna allt sem þau borguðu þér árið áður og ákveða hvort þú skuldir þeim ekki örugglega eitthvað.

Niðurstaða þeirra var sú að þau höfðu borgað mér 200.000 krónum of mikið árið áður. Öll gögn sem þau höfðu undir höndum og voru sífellt uppfærð þessa 9 mánuði fyrra árs voru allt í einu röng. Enginn fyrirvari og ekki eins og ég hefði fengið glæsilega útborgað þegar á heildina er litið heldur.

Það að ég hafði ákveðið að fara inn á vinnumarkað þýddi það að ég sat uppi með 600.000 króna skuld eftir 9 mánaða starf, allt þökk sé almannatryggingakerfinu.

Hvað verður um hvatann til þess að vinna í svona aðstæðum? Svarið er einfalt – hann hverfur. Í mínu tilfelli þurfti ég að leggja talsvert á mig til að geta unnið og fannst það þess virði. Hins vegar þegar ég fékk þessar skuldir framan í mig eins og blauta tusku, fór ég skiljanlega að spyrja sjálfa mig af hverju ég væri yfirhöfuð að reyna. Fjárhagsáhyggjur sem komu í kjölfarið voru svo þáttur í því að heilsu minni hrakaði enn frekar.

Mín reynslusaga er því miður bara ein af svo alltof mörgum öðrum. Það að þurfa að samtvinna örorkugreiðslur og almennar launagreiðslur er einn stór höfuðverkur sem yfirvöld verða að bæta úr. Ekki bara fyrir okkur launþega, heldur einnig vinnumarkaðinn allan.

Viljum við ekki að þeir sem geta, mega og treysta sér til að vinna, geri það?

Viljum við ekki gera öllu ungu fólki kleift að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðinum? Af hverju á ungt fatlað fólk að vera undanskilið þar?