Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra fordæmir fyrirvaralausa brottvísun fatlaðra flóttamanna

Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra fordæmir vinnubrögð ríkisins við brottvísun flóttamanna í skjóli nætur þann 3. nóvember síðastliðinn. Sjálfsbjörg fer fram á að Hussein Hussein verði veitt hæli hér á landi, ásamt fjölskyldu sinni, vegna brota ríkisins á Sáttmála sameinuðu þjóðanna (SRFF) um réttindi fatlaðs fólks. Íslensk stjórnvöld undirrituðu samninginn árið 2007, fullgiltu árið 2016 og skuldbatt íslenska ríkið sig þar með til að framfylgja samningnum, jafnvel þó hann hafi enn ekki verið lögfestur.

Það er fullljóst að íslenska ríkið braut með aðgerðum sínum á réttindum Hussein í meðferð sinni á honum en mannleg reisn fatlaðs fólks er kjarni SRFF og í ákvæðum samningsins kemur með annars fram:

“1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að samþykkja tafarlausar, árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir:

a) til þess að standa að vitundarvakningu á öllum sviðum samfélagsins, þar á meðal sviði fjölskyldunnar, um fatlað fólk og auka virðingu fyrir réttindum þess og mannlegri reisn”

“mikilvægi sjálfræðis og sjálfstæðis fyrir fatlað fólk, þ.m.t. frelsis til að taka eigin ákvarðanir”


Aðstæður flóttafólks í Grikklandi eru eins og sakir standa ómannúðlegar og algjörlega óásættanlegt að senda viðkvæma hópa fólks inn í þær aðstæður sem þar eru. Sem dæmi má nefna að fatlað fólk í Grikklandi gengur ekki að réttindum sínum vísum, hvað þá ef um er að ræða flóttamann sem ekki getur greitt fyrir nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

Það er staðreynd að hreyfihamlað fólk glímir oft við sértækan heilsufarsvanda eins og legusár, sýkingar, næringar og meltingarvanda auk hættu á varanlegum vöðva/tauga-skaða ef faglega þjálfun og meðhöndlun skortir. Þess ber að geta að slíkt er ekki í boði fyrir flóttamenn í Grikklandi. Vinnubrögð lögreglunnar við brottvísun Hussein eru óviðunandi með öllu, án mannlegrar reisnar og hreyfihömlun hans notuð gegn honum. Það að hreyfihamlaður einstaklingur í óhentugum hjólastól hafi verið sendur til að búa á götunni er óviðunandi með öllu, hvort sem það er tímabundið eða ótímabundið.

Heilsufarsleg áhætta er gríðarleg, sem og hætta á ofkólnun en fatlaður hreyfingarlítill einstaklingur í hjólastól getur ekki haldið á sér hita á sama hátt og ófatlaðir. Hætta á þrýstingssárum við að sofa á garðbekk er langt yfir meðalhófi og slík sár gróa illa eða alls ekki við þessar aðstæður sem aftur leiðir til lífshættulegra sýkinga og eru þá ótaldir þeir undirliggjandi sjúkdómar og kvillar sem fyrir voru vegna fötlunar og/eða heilsu.

Það er ólíðandi að íslenska ríkið sendi fatlað fólk út í óvissuna, vitandi að þar eru mannréttindi einstaklingsins ekki, og munu ekki, verða virt.

Reykjavík, 10. nóvember 2022