Menning

Hér söfnum við upplýsingum um aðgengi á ýmsum menningarstöðum. Ef þú hefur upplifað gott aðgengi á einhverjum menningarstöðum víðs vegar um landið, sem ekki eru að finna hér á síðunni, endilega láttu okkur vita.

Leikhús

Leikhús er dægradvöl sem margir njóta og miklu skiptir fyrir fatlað fólk að aðgengi sé gott bæði utanhúss og innan. Aðstaða varðandi salerni og sali þar sem leiksýningar fara fram þarf einnig að vera góð.

Borgarleikhúsið

Borgarleikhúsið | Listabraut 3 |103 Reykjavík | Sími: 568 8000 |Vefsíða Borgarleikhússins

Hjólastólanotendur fá afslátt af miðaverði líkt og aðrir öryrkjar. Gott aðgengi er fyrir hjólastóla inn í leikhúsið og innan þess. Það eru hjólastólastæði í Stóra salnum. Á Litla sviðinu eru margar tröppur en engin handrið. Á Nýja sviðinu er sviðsmyndin og sætaskipan. Það þarf að láta vita þegar miðinn er pantaður ef leikhúsgestur notar hjólastól. Salerni er fyrir hjólastólanotendur. Tvenn P-bílastæði eru fyrir utan (upplýsingar frá fötluðum leikhúsgest).

Sætishæð er aðeins mismunandi eftir sölum, Stóra svið: 43 cm, Litla svið: 44 cm og Nýja svið: 41 cm.

Á heimasíðu Borgarleikhússins kemur fram að Borgarleikhúsið tekur vel á móti fötluðum og státar m.a. af góðu aðgengi og áhorfendastæðum fyrir hjólastóla.

Menningarfélag Akureyrar (áður Leikfélag Akureyrar)

Menningarfélag Akureyrar | Hafnarstræti 57 |600 Akureyri | Sími: 4 600 200 | Vefsíða Menningarfélags Akureyrar

Menningarfélag Akureyrar er með sýningar á tveimur stöðum: Samkomuhúsinu og Hofi (upplýsingar frá maí 2016).
Eftirfarandi upplýsingar um aðgengi hjá Menningarfélagi Akureyrar fengust hjá hjólastólanotanda sem býr á Akureyri.

  • Samkomuhúsið er gamalt hús, tekið í gegn fyrir nokkrum árum, tvær lyftur til að bæta aðgengi fatlaðs fólks. Salerni fyrir fatlað fólk. Ekki hjólastólastæði en sæti tekin í burtu ef fólk lætur vita. Tvö sérmerkt bílastæði.
  • Hof: gott aðgengi, salerni, hjólastólastæði. Salurinn Hamraborg er með hallandi gólfi, fimm hjólastólastæði og sæti við hliðina fyrir t.d. vin eða maka. Hamrar, sem er minni salur er með lausum sætum og því nægt rými fyrir hreyfihamlaða og fólk í hjólastól.  Þrjú bílastæði eru fyrir fatlað fólk fyrir utan.
Tjarnarbíó

Tjarnarbíó | Tjarnargötu 12 | 101 Reykjavík | Sími: 527 2100 |Vefsíða Tjarnarbíós

Tjarnarbíó er aðgengilegt fyrir hjólastólanotendur. Rampur er frá götu upp á gangstétt og gengið er beint inn frá gangstéttinni. Hurðir eru breiðar, einnig hurð inn í salinn og í salnum er svæði þar sem gert er ráð fyrir einstaklingum í hjólastólum. Aðgengileg salernisaðstaða er einnig til staðar.
Þegar miðar eru pantaðir þarf að taka fram í tölvupósti á midasala(hjá)tjarnarbio.is eða með því að hringja í miðasölu, ef sýningargestur notar hjólastól. Miðaverð er misjafnt eftir því hverjir halda hvern viðburð og því fer eftir hverjum og einum viðburði hvort öryrkjar fái afslátt á sýningar í Tjarnarbíói eða ekki.

Þjóðleikhúsið

Þjóðleikhúsið |Hverfisgata 19 |101 Reykjavík | Sími: 551 1200|Vefsíða Þjóðleikhússins

Aðgengi er að öllum leiksviðum fyrir hreyfihamlaða (lyftur og rampar). Taka þarf fram við miðasölu ef leikhúsgestur notar hjólastól, þar sem fjöldi stæða í sal er takmarkaður. Hjólastólanotendur greiða ekki fyrir stæði í sal, annars fá öryrkjar og aldraðir afslátt af miðaverði. 

Kvikmyndahús

Eftirfarandi upplýsingar um aðgengi í kvikmyndahúsum eru fengnar frá hreyfihömluðum einstaklingum.

Smárabíó

Smárabíó | Smáralind | 200 Kópavogur | Sími: 564 0000 | Vefsíða Smárabíós

Fyrir utan Smáralind eru mörg sérmerkt stæði fyrir fatlað fólk. Aðgengi í miðasölu og upp í Smárabíó er gott, lyfta og rúllustigi. Fjögur stór salerni eru fyrir fatlaða, en þungar pumpuhurðar. Í öllum sölum eru hjólastólastæði, þó mismörg. Sætishæð í bíósölum er 40 cm og hæð sætisarma 65 cm. Í Lúxussal er sætishæð 45 cm og hæð sætisarma 65 cm.

Kringlubíó

Kringlubíó | Kringlunni  4 - 6 | 105 Reykjavík | Sími: 575 8900 | Vefsíða Sambíóa
Mörg sérmerkt stæði fyrir utan húsið, gott aðgengi inni í húsinu. Eitt salerni sérmerkt fyrir fatlaða og á kvennasalerninu er eitt salerni sem er rýmra en hin (myndi henta hreyfihömluðum sem geta gengið eða nota hækjur eða göngugrindur, ekki þó nægt pláss fyrir hjólastóla). Hjólastólastæði eru í tveimur sölum, sal 1 og 2, en í sal 3 getur hjólastóll verið við hliðina á sætaröðinni þar sem gengið er inn í salinn.

Laugarásbíó

Laugarásbíó | Laugarási | 104 Reykjavík | Sími: 553 2075 | Vefsíða Laugarásbíós
Það er mikið af tröppum í og við Laugarásbíó og því ekki gott aðgengi fyrir hreyfihamlað fólk, hvorki utandyra né innandyra.

Háskólabíó

Háskólabíó | Við Hagatorg | 107 Reykjavík | Sími: 591 5145 | Vefsíða Háskólabíós
Tvö sérmerkt bílastæði fyrir fatlað fólk eru fyrir utan húsið, rétt við innganginn. Miðasala er á fyrstu hæð. Hjólastólastæði er öllum sölum uppi en ekki í salnum á neðri hæð. Fyrir þá sem ekki geta gengið stiga þarf að hafa þó nokkuð fyrir því að komast í lyftu niður á neðri hæð þar sem hún er stýrð með lykli sem starfsfólk geymir. Aðeins eitt salerni er fyrir fatlað fólk, staðsett hinu megin í húsinu. Fyrir þá sem eru lítið hreyfihamlaðir, geta gengið niður tröppur og þurfa ekki á rúmgóðu salerni að halda er það minni fyrirhöfn.

Sambíóin Egilshöll

Sambíóin Egilshöll | Fossaleyni 1 | 112 Reykjavík | Sími: 575 8900 | Vefsíða Sambíóa
Gott aðgengi og aðstaða utandyra sem innan. Fyrir utan eru sérmerkt stæði fyrir fatlað fólk. Miðasala er á fyrstu hæð og bíósalirnir á annarri hæð, lyfta og rúllustigi milli hæða. Salerni fyrir fatlaða og hjólastólastæði í sölunum.

Bíó Paradís

Bíó Paradís | Hverfisgötu 54 | 101 Reykjavík | Sími: 412 7711 | Vefsíða Bíó Paradísar
Fyrir utan Bíó Paradís  er stæði, en ekki sérmerkt P- stæði.  Það er rampur/skábraut  fyrir utan til að komast inn í kvikmyndahúsið. Og er hjólastóla aðgengi að sal 1, en þar er lyfta (stigalyfta) inn í salinn.  Einnig er skábraut upp á efri pall sem gengið er upp tröppur fyrir framan sal 2 og 3.  Fyrirhugað er að setja aðgengilegt salerni á þeirri hæð. Ráðgert er að bæta aðgengið að sölum 2 og 3 í framtíðinni svo hjólastolanotendur geti farið í þá sali einnig.  Hægt er að hafa samband ef kvikmynd sem er sýnd í sal 2 eða 3 með fyrirvara til að hægt sé að sýna myndina í sal 1.  

Borgarbíó Akureyri

Borgarbíó Akureyri | Hólabraut 12 | 600 Akureyri | Sími: 462 2602 | Vefsíða Borgarbíós
Í A-sal er stæði fyrir hjólastóla fremst  (fara þarf inn um dyr neðst til að geta setið þar) og aftast, þarf þó að bera hjólastól upp nokkur þrep til að komast aftast.
Rampur er inn í B-sal og hjólastólastæði í salnum.
Engin salernisaðstaða er fyrir fólk í hjólastól eða aðra sem eru mikið hreyfihamlaðir og þurfa gott rými og handföng við klósett. Engin sérmerkt bílastæði eru fyrir utan.

Sambíóin Akureyri

Sambíóin Akureyri | Ráðhústorg 8 | 600 Akureyri | Sími: 575 8900 | Vefsíða Sambíóanna
Tvö sérmerkt bílastæði eru beint á móti Sambíóunum (við Landsbankann).
Hjólastólastæði eru tvö í sal 1 og eitt í sal 2. Eitt salerni er fyrir fatlaða. Það er þó galli að salernið er notað sem ræstikompa og geymsla sem minnkar rýmið.

Tónlistarsalir

Harpa

Austurbakka 2 | 101 Reykjavík | 528 5000 |midasala(hjá)harpa.is  | Vefsíða Hörpu

Gott aðgengi, nokkur salerni eru í húsinu fyrir fatlaða og lyftur á milli hæða. Sérmerkt bílastæði eru í bílakjallara.
Aðgengi í sölum er misjafnt, í nokkrum eru lausir stólar og þar er auðvelt að sitja í hjólastól við enda raðar eða einfaldlega taka einn stól í burtu og leggja hjólastólnum þar. Í Eldborgarsal, aðalsal Hörpu, eru 4 gjaldfrjáls stæði fyrir hjólastóla, við enda B og D stúku.  Einnig er hægt að taka út sæti fyrir hjólastóla víða um salinn fyrir gesti sem kaupa miða.  Athugið að hafa samband tímanlega við miðasölu, þ.e. áður en mætt er á staðinn, ef þörf er á stæðum fyrir hjólastóla.

Fólk sem notar heyrnartæki hefur verulegt gagn af tónmöskvakerfi eða sambærilegu kerfi sem er notað til að draga úr aukahljóðum og bæta hlustun.  Í Hörpu er hægt að fá afnot af slíkum búnaði, athugið að láta vita í miðasölu þegar miðar eru keyptir ef óskað er eftir afnotum af búnaðinum.

Ef þörf er á aðstoð við blinda og sjónskerta eru gestir vinsamlegast beðnir um að láta vita af því tímanlega í miðasölu.

Háskólabíó

Háskólabíó | Við Hagatorg | 107 Reykjavík | Sími: 591 5145 | Vefsíða Háskólabíós

Stóri salurinn í Háskólabíói er oft notaður fyrir tónlistarviðburði og hefur stæðum fyrir hjólastóla verið komið fyrir í miðjum salnum. Tröppur eru upp í salinn úr anddyrinu, en þar er stólalyfta og starfsmaður á svæðinu til þess að aðstoða fólk (betra að tryggja fyrirfram). Samkvæmt upplýsingum frá starfsmanni getur verið strembið að fara á rafknúnum stól í lyftuna og getur starfsmaður þá fylgt viðkomandi inn um annan hliðarinngang í salinn.
Gott er að hafa samband fyrirfram og láta vita af komu hjólastólanotanda og eru starfsmenn þá viðbúnir að aðstoða ef þörf er á.

Salurinn

Hamraborg 6 | 200 Kópavogi | 570 0400 | salurinn(hjá)salurinn.is| Vefsíða Salarins (Opnast í nýjum vafraglugga)

Í  Salnum eru nokkur sérmerkt stæði fyrir utan húsið. Gott aðgengi er inni í húsinu, lyfta á milli hæða og salerni sérstaklega ætlað fötluðu fólki. Í salnum sjálfum er hins vegar ekki mikið rými fyrir hjólastóla, þeir þurfa að vera meðfram röðum og í smá halla. Það eru fjögur hjólastólastæði og þá eru endasætin tekin úr bekknum (betra að láta vita fyrirfram).

Menningarhúsið Hof

Strandgötu 12 | 600 Akureyri | 450 1000 |midasala(hjá)menningarhus.is | Facebooksíða Hofs | Vefsíða MAK

Gott aðgengi er í Hofi hvað varðar salerni og hjólastólastæði. Hamraborg er með hallandi gólfi, fimm hjólastólastæði og sæti við hliðina fyrir t.d. vin eða maka. Hamrar, minni salurinn er með laus sæti og því nægt rými fyrir hreyfihamlaða og fólk í hjólastól.  Þrjú bílastæði fyrir fatlaða eru fyrir utan.

Söfn

Borgarsögusafn Reykjavíkur

Aðalstræti 10 | 101 Reykjavík | 411 6300 | [email protected] | Facebooksíða Borgarsögusafns | Vefsíða Borgarsögusafns

Borgarsögusafn Reykjavíkur tók til starfa þann 1. júní 2014 en undir það heyra: Árbæjarsafn, Aðalstræti, Sjóminjasafnið í Reykjavík, Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Viðey. Á heimasíðu safnsins er sérstök síða um aðgengi þar sem nálgast má allar upplýsingar um aðgengi á hverjum stað fyrir sig. Þá er einnig ókeypis aðgangur fyrir öryrkja gegn framvísun örorokuskírteinis.

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér