Sjálfsbjörg á Akureyri - sagan

Sjálfsbjörg, félag fatlaðra á Akureyri var stofnað þann 8. október 1958 og hlaut nafnið Sjálfsbjörg – félag fatlaðra á Akureyri og nágrenni. Um hundrað manns töldust stofnfélagar en það voru þeir sem skráðu sig í félagið fyrir áramót. Milli fimmtíu og sextíu manns sóttu stofnfundinn. Fljótlega fjölgaði í félaginu og voru félagar orðnir um 140-150 síðla árs 1959. Fyrsti formaður félagsins var Emil Andersen. Heiðrún Steingrímsdóttir var lengi formaður félagsins á upphafsárunum.

Félagið stóð fyrir merkjasölu og lagði líkt og önnur félög helming hagnaðarins í húsbyggingarsjóð landssambandsins, en einnig var kaffisala, kvikmyndasýningar og dansleikir. Föndur- og vinnukvöld voru haldin vikulega og nutu mikilla vinsælda. Einnig voru haldnir fræðslu- og skemmtifundir.

Þegar á fyrsta starfsári var farið að huga að húsnæði fyrir starfsemina fyrir vinnu- og félagsheimilis. Akureyrarbær lagði þeim til lóð við Hvannavelli á fyrsta starfsárinu og framkvæmdir við sérteiknað hús handa félaginu hófust á árinu 1959. Í fyrsta áfanga var byggður salur ásamt eldhúsi, skrifstofuherbergi og snyrtingum og dugði það til fundahalda, föndurkvölda og þess konar starfsemi. Fékk húsið nafnið Bjarg. Við hliðina á þessu rými var síðan byggður góður vinnusalur og lauk byggingu hans á tveimur árum. Bíða þurfti lengur eftir að taka vinnustofuna í notkun, einkum vegna þess að verið var að leita að heppilegum iðnaði fyrir félagsmenn. Niðurstaðan varð að setja upp verksmiðju sem framleiddi plasthluti af ýmsu tagi. Haustið 1967 var ráðinn verksmiðjustjóri, Gunnar Helgason, og kynnti hann sér hliðstæðan rekstur erlendis og kom með vélar í verksmiðjuna með sér heim, Plastiðjuna Bjarg. Aðalframleiðsluvaran voru tengidósir fyrir raflagnir.

Endurhæfingarstöð Bjargs var sett á laggirnar árið 1970 og var Magnús Ólafsson sjúkraþjálfari ráðinn til stöðvarinnar. Ári síðar hóf plasiðjan einnig framleiðslu á fiskkössum.

Í tímariti Sjálfsbjargar má lesa um stuðning sem veittur var til þessa þarfa framtaks í endurhæfingarmálum:

,,Í framhaldi af endurhæfingarlögunum er mér ánægja að geta þess, að Sjálfsbjörg á Akureyri vinnur nú að stofnun endurhæfingarstöðvar og er sá undirbúningur vel á veg kominn. Kiwanisklúbburinn Kaldbakur mun styrkja félagið til tækjakaupa og sjúkraþjálfari hefur verið ráðinn. Er þetta fyrsta félagið innan landssambandsins, sem kemur slíkri stöð á stofn, en vafalaust munu hin fljótlega fylgja í kjölfarið, því að þörfin er brýn.”

Árið 1972 var farið að huga að hönnun nýrrar byggingar á vegum Sjálfsbjargar á Akureyri, en það var aukin og endurbætt endurhæfingarstöð á lóð félagsins í Lundahverfi. Fyrsta skóflustungan var tekin 21. ágúst 1976. Þann 1. mars 1981 var kjallari hússins að mestu fullbúinn og þangað fluttist Plastiðjan Bjarg þar sem 18-20 manns störfuðu um þær mundir og viðbótarverkefni fengust þegar samsetning á rafmagnsklóm bættist við framleiðsluna. Sömuleiðis flutti skrifstofa félagsins í nýja húsnæðið. Endurhæfingin fluttist úr gamla húsinu að hausti sama árs. Síðar var íþróttasal og sundlaug bætt við húsnæðið og öflug endurhæfingarstarfsemi hefur verið að Bjargi æ síðan.  Nýja íþróttahúsið var tekið í notkun árið 1988 á 30 ára afmæli félagsins. Húsasmíðameistari beggja húsanna var Jón Gíslason. Árið 1997 voru tveir félagssalir teknir í notkun í kjallara Bjargs.

Á árunum 1992-1993 tóku opinberir aðilar, ríki og Akureyrarbær, við hluta af húsnæði og iðnrekstri Bjargs af Sjálfsbjörg á Akureyri og árið 2001 tók Líkamsræktin Bjarg húsnæði á leigu hjá félaginu og yfirtók rekstur líkamsræktarinnar. Sjúkraþjálfunin var áfram á vegum Sjálfsbjargar á Akureyri og félagið fékk fyrsta sjálfstæða samning sinn við Tryggingastofnun ríkisins vegna sjúkraþjálfunar árið 2002. Tveimur árum síðar var íþróttahúsið selt til Líkamsræktarinnar á Bjargi ehf. en iðjuþjálfi er ráðinn með samningi við Tryggingastofnun að Bjargi. Árið 2007 var ráðist í verulegar breytingar á vegum félagsins á húsnæði því sem tilheyrði iðjuþjálfuninni. Nú hafa eldri borgarar aðstöðu í kjallara hússins á vegum Akureyrarbæjar.

Formaður Sjálfsbjargar á Akureyri á 50 ára afmælisári Sjálfsbjargar lsf. (2009) og jafnframt á 60 ára afmæli félagsins (2018) er Herdís Ingvadóttir.

Mynd: Lagt upp frá Akureyri í baráttu- og áheitaferð fjögurra Sjálfsbjargarfélaga árið 1989. Þáverandi formaður leggur, Jóhann Pétur Sveinsson hefur ferðina.