Ályktun Landsfundar Sjálfsbjargar lsh. um hjálpartækjalöggjöfina

Eftirfarandi ályktun um hjálpartækjalöggjöfina var samþykkt á landsfundi Sjálfsbjargar lsh. 2024

Landsfundur Sjálfsbjargar lsh. skorar á heilbrigðisráðherra að leggja fram endurskoðað og uppfært lagafrumvarp um hjálpartæki á vorþingi 2025.

Landsfundur Sjálfsbjargar lsh. krefst þess að þegar í stað verði hafin vinna við uppfærslu á gildandi hjálpartækjalöggjöf og að þar verði virkt samráð haft við notendur hjálpartækja sem eru fatlað fólk.

Fatlað fólk er mikilvægur hluti af fjölbreytileika samfélagsins, það er í öllum þjóðfélagshópum og á öllum aldri. Í samfélagi sem gerir sífellt meiri kröfur til samfélagsþátttöku fatlaðs fólks og sem fatlað fólk sjálft gerir kröfur um, er aðgengi að margskonar hjálpartækjum grundvallaratriði. Til þess að inngilding og samfélagsþátttaka geti raunverulega orðið, verður að uppfæra hjálpartækjalöggjöfina til nútímans. Mörg ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttind fatlaðs fólks (SRFF) taka til hjálpartækja, enda er tilgangur þeirra að jafna stöðu fatlaðs fólks. Samningurinn (SRFF) staðfestir í 26. grein, rétt fólks til sjálfsbjargar sem inniber í sér rétt til hjálpartækja til samfélagsþátttöku á öllum sviðum samfélagsins.

Landsfundurinn hvetur stjórnvöld til að vinna saman þvert á ráðuneyti og með sveitarfélögum til að heildarendurskoðuð hjálpartækjalöggjöf nái markmiðum sínum, að gagnast notendum hjálpatækja, börnum og fullorðnum í skóla, íþróttum, tómstundum, frítíma, atvinnulífi og einkalífi.

Ísland fullgilti samninginn 2016, það er tími til komin að vinna eftir honum.

Greinagerð

Í 26. grein SRFF segir „Aðildarríkin skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir … til þess að gera fötluðu fólki kleift að öðlast og viðhalda sem mestu sjálfstæði, fullri líkamlegri, andlegri og félagslegri getu, ásamt starfsgetu, og að taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins án aðgreiningar.“

Ákvæði SRFF sem til dæmis taka til hjálpartækja eru m.a. 4. gr. um almennar skuldbindingar, 5. gr. um jafnrétti og bann við mismunun, 20. gr. um ferlimál, 24. gr. um menntun, 25. gr. um heilbrigði, 26. gr. um hæfingu og endurhæfingu, 27. gr. um vinnu, 30. gr. um réttinn til átttöku í menningarlífi, tómstunda-, og frístunda- og íþróttastarfi.

Í 4. gr. um almennar skuldbindingar kemur fram:

g) Aðildarríkin skuldbinda sig til að framkvæma eða gangast fyrir rannsóknum og þróun á nýrri tækni, og sjá til þess að hún sé tiltæk og notuð, þar á meðal upplýsinga- og samskiptatækni, ferliaðstoð, búnaði og hjálpartækni sem henta fötluðu fólki, með áherslu á tækni á viðráðanlegu verði,

h) Aðildarríkin skuldbinda sig til að láta fötluðu fólki í té aðgengilegar upplýsingar um ferliaðstoð, búnað og hjálpartækni, þar á meðal nýja tækni auk annarra tegunda aðstoðar, stuðningsþjónustu og búnaðar,

i) Aðildarríkin skuldbinda sig til að efla þjálfun og þekkingu fagfólks og starfsfólks sem vinnur með fötluðu fólki á þeim réttindum sem eru viðurkennd með samningi þessum í því skyni að betrumbæta þá aðstoð og þjónustu sem þau réttindi tryggja.