Áætlun um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í dag tillögur nefndar sem fjallað hefur um fyrirhugaða fullgildingu Íslands á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun. Í skýrslu nefndarinnar er fjallað um einstakar greinar samningsins og gerð grein fyrir nauðsynlegum aðgerðum til að fullgilda hann sem fela meðal annars í sér heildarendurskoðun á lögum um málefni fatlaðra, auk ýmissa annarra lagabreytinga.

Samkvæmt tillögum nefndarinnar verður skýrsla hennar nú send hagsmunaaðilum til umsagnar. Í framhaldi af því hefst vinna við endurskoðun laga um málefni fatlaðra, auk annarra lagabreytinga sem nauðsynlegar eru. Félags- og tryggingamálaráðuneytið mun í samstarfi við nefndina efna til almennrar kynningar á áformum um fullgildingu samningsins.

Samningur Sameinuðu þjóðanna var staðfestur af Íslands hálfu í mars 2007. Í febrúar 2008 skipaði Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, nefnd sem falið var að kanna hvort íslensk löggjöf uppfyllti kröfur til fullgildingar samningsins og eru það tillögur hennar sem nú liggja fyrir. Formaður nefndarinnar er Helgi Hjörvar.

Tillögur nefndar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks