Almennt um aðgengi

Gott aðgengi er lykillinn að því að hreyfihamlað (fatlað) fólk geti verið fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Fötlun fólks getur verið margvísleg, svo sem skert hreyfigeta handa eða fótleggja eða sjónskerðing.  Ennfremur þurfa flestir á sérstöku aðgengi að halda einhvern tímann á ævinni vegna tímabundinna aðstæðna eins og handleggsbrots, þungunar og þegar fólk er með börn í kerru.  Margir eldri borgarar þurfa líka á sérstöku aðgengi að halda vegna skertrar hreyfigetu fyrir aldurs sakir. 

Í byggingarreglugerð nr.112/2012  er m.a. áhersla á algilda hönnun sem gerir ráð fyrir að mannvirki séu þannig úr garði gerð að þau henti öllum.  Sérstök áhersla er á að tekið sé tillit til þeirra sem eru hreyfihamlaðir eða búa við annars konar fötlun.

Þá felur vefaðgengi í sér að vefir á internetinu séu aðgengilegir öllum, líka fötluðum notendum, t.d.  þeim sem eru hreyfihamlaðir, blindir, heyrnarlausir eða með skerta getu vegna aldurs. Á vef Velferðarráðuneytis er fjallað um að mikilvægt sé að  aðgengi að rafrænni þjónustu sé hugsað út frá ólíkum hópum þjóðfélagsins.

Hér erum við fyrst og fremst að fjalla um aðgengi hreyfihamlaðs fólks þó eðlilega megi yfirfæra það á margvíslega fötlun.

Betra aðgengi öllum í hag!

Aðgengi og mannvirki

Hér getur þú meðal annars fengið upplýsingar um byggingarreglugerð sem tók gildi í janúar 2012 og hefur verið breytt síðar (2019 er nýjasta útáfan). HMS, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, hefur gefið út leiðbeiningar við byggingarreglugerð 112/2012 og sjást þær breytingar sem hafa verið gerða á reglugerðinni.  Í leiðbeiningunum má t.d. finna hagnýtar upplýsingar um bílastæði hreyfihamlaðra s.s. stærð og fjölda sem hlutfall af almennum bílastæðum.  Annað dæmi eru upplýsingar um snyrtingu sem hönnuð er á grundvelli algildrar hönnunar, þar má sjá í hvaða hæð tæki og fylgihlutir á snyrtingum eiga að vera.  Leiðbeiningablöðin eru rúmlega 40 talsins og gefa hagnýtar upplýsingar um mismunandi svæði mannvirkja út frá algildri hönnun.

Einnig eru á þessari síðu tekin fyrir nokkur svæði innandyra og helstu atriði í leiðbeiningarblöðunum tengd þeim og upplýsingar um hvar hægt er að kaupa hjálpartæki sem eiga við hvert svæði. Ef þú vilt fá upplýsingar um P-merki og bílastæði fyrir hreyfihamlaða má finna það í málaflokknum Utandyra hér til hliðar.

Fyrirtæki/stofnanir sem sinna aðgengismálum

Sjá ehf

Sjá ehf veitir alhliða úttekt á vefsíðum með tilliti til aðgengis. Aðgengisstaðlar Sjá byggjast á stöðlum WAI (Web Accessibility Initiative) og eru staðfærðir og prófaðir á Íslandi í samvinnu við Öryrkjabandalagið.

Til að kanna hvort að vefur er aðgengilegur gerir aðgengissérfræðingur Sjá úttekt á honum. Vefir sem uppfylla þær kröfur sem gerðar eru varðandi aðgengi fá vottun þess efnis á vefi sína sem gildir í 1 ár. Vottunarmerkið tryggir að vefurinn sé aðgengilegur öllum notendum óháð fötlun þeirra eða getu. Vottunin er unnin í samráði við Öryrkjabandalag Íslands og er hægt að velja um þrenns konar stig vottunar.

Listi WAI, WCAG (Web Content Accessibility Guidelines) útgáfa 1 sem Sjá styðst í meginatriðum við er hægt að nálgast á vef W3C (World Wide Web Committee).

Vottun vefsíðu - þrjú stig

Forgangur I

Vottun um forgang I: Lágmarkskrafa sem gerð er um aðgengi á vef.

Dæmi:

  • ALT texti þarf að vera á öllum myndum, myndatenglum og myndahnöppum
  • Bjóða þarf upp á að minnsta kosti 2 stillingar á leturstærðum og 1 litastillingu (ljóst letur á dökkum bakgrunni)
  • Margmiðlunarefni þarf að hafa efni í boði fyrir heyrnarlausa
  • Leiðbeiningar þurfa að fylgja allri virkni eins útfyllingu á eyðublöðum, reiknivélum og þess háttar

Vefur verður að uppfylla öll atriðin fyrir forgang I á gátlistanum til að fá vottun.

Forgangur II

Vottun um forgang II: Meiri kröfur eru gerðar um aðgengi á vefnum.

Dæmi:

  • Tenglaheiti þurfa að vera skýr, ekki er nægilegt að tenglaheiti sé hér eða smella hér eða meira heldur þarf að tilgreina nánar hvert tengillinn leiðir notendur til dæmis.: Lán: Upplýsingar um bílalán
  • Reitir í formum þurfa að vera rétt skilgreindir fyrir skjálesara, nota þarf LABEL for
  • Útskýra þarf skammstafanir eða merkja þær sérstaklega
  • Nota þarf stílsíður (CSS, e. Cascading Style Sheets) í uppbyggingu vefjarins
  • Ekki ætti að nota töflur né myndir til að sníða útlit

Í forgangi II felst að einnig þarf að uppfylla öll atriði samkvæmt forgangi I.

Forgangur III

Vottun um forgang III: Háar kröfur varðandi aðgengi á vefnum.
Uppfylla þarf einnig forgang I og II til að geta fengið vottun um forgang III.

Dæmi:

  • Veita þarf notendum upplýsingar um stærð og snið skjala (til dæmis. PDF 20Kb)
  • Bjóða þarf upp á orðalista/orðabók
  • Stillingar þurfa að vera í boði fyrir lesblinda notendur

Í forgangi III felst að einnig þarf að uppfylla öll atriði samkvæmt forgangi I og II.

Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

Á vefsíðu Umhverfis/-og auðlindaráðuneytisins má sjá að ráðuneytið fer m.a. með mál er varða skipulagsmál, landmælingar og byggingarmál. 

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Samkvæmt vefsíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar skal hún tryggja samræmingu á byggingar- og eldvarnareftirliti og starfsemi slökkviliða í samráði við viðkomandi stjórnvöld og hafa yfirumsjón með rafmagnsöryggismálum. Meðal annarra verkefna á HMS að annast aðgengismál. Hér má finna upplýsingar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um aðgengismál.

Hér má finna slóð þar sem hægt er að finna leiðbeiningar við byggingarreglugerð frá 2012, athugið að breytingar hafa verið gerðar á þessari reglugerð frá árinu 2012 og því gott að lesa niður síðuna.

Vegagerðin

Á vefsíðu Vegagerðarinnar kemur fram að hlutverk hennar er að þróa og sjá um vegakerfið á sem hagkvæmastan hátt með þarfir samfélagsins, öryggi vegfarenda og umhverfissjónarmið að leiðarljósi. 

Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér