Viðtal: Margrét Lilja

Margrét Lilja er 25 ára baráttukona fyrir bættu aðgengi og hag öryrkja og hreyfihamlaðra einstaklinga. Eftir að Margrét Lilja lauk námi í menntaskóla fór hún sem au pair til Englands. Hún fór að sofa eitt hefðbundið kvöld, þá 21 árs, og vaknaði morguninn eftir án þess að geta hreyft sig. Í kjölfarið, eða árið 2017, greindist hún með Ehlers-Danlos, sem er heilkenni sem leiðir til hreyfihömlunar. Hún flutti heim til Íslands, þá búin að búa erlendis í 7 ár. Breyttum aðstæðum fylgdu miklar breytingar og við lífið bættist sú vinna að vera sífellt að láta aðra vita af hreyfihömluninni, til þess að gulltryggja það að hún komist leiðar sinnar.

margretlilja.jpg

Margrét Lilja ætlaði ekki að láta veikindin stöðva sig heldur hóf nám í lífeindafræði í Háskóla Íslands árið 2018. Hún hafði alltaf gengið út frá því að háskólanám væri aðgengilegt fyrir alla og áður en hún hóf nám fundaði hún sérstaklega með fulltrúum Háskólans til þess að upplýsa skólann um stöðu sína. En þegar hún mætti fyrsta daginn í húsnæði gamla hjúkrunarskóla Háskóla Íslands voru tröppur það fyrsta sem mætti henni. Í kjölfarið komst hún að því að kennslustundirnar sem hún átti að vera í voru á 3. hæð í lyftulausu húsnæði.

Margrét hafði alltaf vitað að hún myndi fara í háskóla, en hún hafði aldrei hugsað til þess að hún myndi fara þangað í hjólastól. “Fæstir vita að líf öryrkja er endalaus barátta. Þeir þurfa að berjast við sjúkdóminn sinn og fötlunina. Margir þurfa að berjast bara svo þeir geti komist leiðar sinnar, komist þangað sem aðrir geta farið án nokkurs erfiðis.” Hún var komin í nýjan veruleika og hún ætlaði ekki að trúa móttökunum hjá háskólanum og samfélaginu.

Lesa meira...