Magnús Reynir nýr formaður á Ísafirði

Magnús Reynir Guðmundsson var kjörinn nýr formaður Sjálfsbjargar á Ísafirði á aðalfundi félagsins sem haldinn var í Edinborgarhúsinu á Ísafirði laugardaginn 9. október sl.

Magnús Reynir hefur mikla reynslu af málefnum fatlaðra en hann var tólf ár formaður Svæðisstjórnar málefna fatlaðra á Vestfjörðum og hefur auk þess áralanga reynslu af félagsmálum. Hann sat í bæjarstjórn Ísafjarðar og var bæjarritari um árabil.

Kolbrún Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar landsambands fatlaðra var fundarstjóri og fræddi hún fundarmenn um þau málefni sem eru efst á baugi hjá landssambandinu. Hún segir að ákveðið hafi verið á fundinum að boða til kynningarfundar á Vestfjörðum síðar í haust um málefni Sjálfsbjargar. Þar verða m.a. kynnt þau úrræði sem nú eru í boði fyrir hreyfihamlaða og brýn baráttumál sem enn hafa ekki komist í framkvæmd á Íslandi. Félagar Sjálfsbjargar á Ísafirði eru 36, en heildar fjöldifélaga í landssambandinu losar tvö þúsund.