Sjálfsbjargarheimilið

Stærsta og viðamesta rekstrareining Sjálfsbjargar lsh. er Sjálfsbjargarheimilið (SBH), en það er rekið í hluta Sjálfsbjargarhússins. Frá Landsfundi Sjálfsbjargar lsh. 2018 er stjórn Sjálfsbjargar lsh. jafnframt stjórn SBH.  SBH er endurhæfingar- og hjúkrunarheimili fyrir hreyfihamlaða einstaklinga sem þurfa umtalsverða daglega þjónustu. Í upphaflegri skipulagsskrá SBH segir: „Sjálfsbjargarheimilið er fyrir hreyfihamlað fólk er þarfnast aðstoðar og stuðnings við athafnir daglegs lífs“.

Árið 1973 flutti fyrsti íbúinn inn á heimilið. Reksturinn hefur síðan jafnt og þétt verið að þróast og endurhæfingarþátturinn í starfseminni farið vaxandi. Þjónustumiðstöðin (áður nefnd dagvist) opnaði 1979, sundlaugin bættist við 1981, endurhæfingaríbúð 1993, sjálfstæð búseta með stuðningi hófst 2003 og Þekkingarmiðstöðin opnaði 2012.  Á heimilinu starfa um 80 starfsmenn í um 60 stöðugildum.

SBH er á fjárlögum. Reksturinn byggir á lögum nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu.  SBH er með eigin vefsíðu þar sem finna má frekari upplýsingar um starfsemina: www.sbh.is