Geðheilsa/andleg heilsa
Þegar verið er að tala um geðheilsu eða geðheilbrigði/andlegt heilbrigði er ekki aðeins verið að tala um að vera laus við geðsjúkdóma. Góð geðheilsa er að vera sáttur við sjálfan sig og umhverfi sitt, upplifa jafnvægi, öryggi, ánægju í lífi og starfi og hafa getu til að aðlagast breytilegum aðstæðum. Í stuttu máli er góð geðheilsa undirstaða lífsgæða og lífsánægju og því er mikilvægt að huga að geðheilsu sinni og njóta lífsins með þeim sem standa manni næst.
Hér fyrir neðan má finna tengla að síðum sem innihalda ýmislegt fróðlegt um geðheilsu.
Geðhjálp Tilgangur félagsins er að vinna að geðheilbrigðismálum og bæta hag þeirra, sem eiga við geðræn vandamál að stríða, barna og fullorðinna, svo og aðstandenda þeirra.
Á heimasíðu félagsins er hægt að finna ýmsar upplýsingar sem varða geðheilsu.
Geðorðin 10.
Félagasamtökin Hugarafl veita stuðning í bataferli sem byggir á að efla geðheilsu og tækifærin í daglegu lífi. Sá sem kemur til Hugarafls fær bæði faglegan stuðning og þekkingu geðsjúkra sem getur verið gott veganesti í bataferlinu. Öll umræða fer fram á jafningjagrunni, hver og einn er hvattur til að láta rödd sína heyrast, hafa skoðun og koma henni á framfæri og taka þátt.
Klúbburinn Geysir er fyrir fólk sem á eða hefur átt við geðræn veikindi að stríða. Klúbburinn starfar eftir hugmyndafræði Fountain House sem byggir á markvissri uppbyggingu á hæfileikum og getu einstaklingsins. Eitt af markmiðum Geysis er að vinna gegn félagslegri einangrun, og að hver og einn kemur á sínum forsendum og leggur sitt af mörkum eftir getu og vilja en allir hafa eitthvað að gefa og hver félagi er því mikilvægur í starfseminni. Frá því Klúbburinn Geysir hóf starfsemi hefur hann verið vettvangur starfsleitar fyrir félaga sína. Þau úrræði sem klúbburinn hefur boðið félögum sínum hefur verið atvinna með stuðningi, sjálfstæð ráðning og ráðning til reynslu.
Klúbburinn Strókur hefur það að markmiði að styðja bataferli notenda heilbrigðiskerfisins meðal annars með því að miðla reynslu.
Rauði krossinn, Reykjavíkurborg og Hafnarfjörður reka nokkur athvörf fyrir fólk með geðraskanir, Vin, Dvöl og .Lækur
Miðjan er geðræktarmiðstöð þar sem er batahvetjandi stuðningsúrræði fyrir einstaklinga sem búa innan Þingeyjarsýslu og hafa búið við geðraskanir, atvinnuleysi og/eða alvarleg veikindi með þeim afleiðingum að lífsgæði þeirra hafa skerst.
Hugræn atferlismeðferð, skamstafað HAM, hefur verið notað með góðum árangri við þunglyndi og kvíða. Starfsfólk geðsviðs Reykjalundar hefur unnið meðferðarhandbók í hugrænni atferlismeðferð sem hefur verið gefin út til notkunar fyrir almenning og meðferðaraðila. Á vef Reykjalundar er hægt að nálgast texta bókarinnar og verkefni, bæði á ritformi og á hljóðskrám.
Á vef landlæknisembættisins landlaeknir.is er búið að safna saman ýmsum fróðlegum greinum um geðvernd. Þar er meðal annars skrifað um mikilvægi geðheilsu og hvernig megi bæta hana. Á síðunni er einnig hægt að finna ítarefni, bæklinga, skýrslur, rannsóknir/tölfræði sem tengjast geðrækt.
Markmið starfsemi Lausnarinnar er að veita meðvirkum einstaklingum stuðning, fræðslu og þá hjálp sem til þarf til að lifa eðlilegu og heilbrigðu lífi. Boðið er upp á ráðgjöf, námskeið og fræðslu hjá Lausninni.
Persona.is er sálfræðivefur þar sem hægt er að lesa ýmsar greinar og fréttatengt efni um þunglyndi, fíkn, ofbeldi, kvíða, tilfinningar, sjálfstraust, átraskanir/offitu, sambönd, börn/unglinga, aldraða, vinnu, persónu-og persónuleikavandamál, svefn, samskipti, streitu, áföll, sjálfsvíg, geðsjúkdóma og meðferðir.
Streitumóttakan tilheyrir fyrirtækinu Forvarnir ehf sem er til húsa í Lágmúla 5 í Reykjavík. Markmið Forvarna er tvíþætt, annars vegar að veita meðferðir og ráðgjöf varðandi geðheilbrigði og geðsjúkdóma og hins vegar að veita ráðgjöf og stuðning í sálfélagslegri vinnuvernd.
Á Streitumóttökunni fer fram greining á streitu og streitutengdum vandamálum. Veittur er stuðningur og fræðsla. Allir eru velkomnir og það er ekki þörf á beiðni. Einnig er hægt að fá ráðgjafa til að halda fræðsluerindi í fyrirtækjum, á vinnustöðum og í félagasamtökum. Hægt er að kynna sér nánar starfsemi Streitumóttökunnar á vefsíðu Forvarnir og Facebooksíðu.
Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja.
Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér