Utandyra

Aðgengi utandyra

Hér er að finna leiðbeiningar og reglugerðir um aðgengi utandyra, þar með taldar upplýsingar um stærð P-stæða, hæð kanta, halla á skábrautum og merkingar.


Algild hönunn utandyra. Leiðbeiningarrit gefið út af málefnahópi Öryrkjabandalags Íslands um aðgengi.

Leiðbeiningablöð Mannvirkjastofnunar

Aðkoma að byggingum - Leiðbeiningar 6.2.3 og 6.2.2

Í leiðbeiningum 6.2.3. um algilda hönnun aðkomu að byggingum má finna upplýsingar um hvernig aðkoma að byggingum skuli vera samkvæmt algildri hönnun. Leiðbeiningar 6.2.2. um aðkomuleiðir og umferðasvæði innan lóðar fjalla um aðkomu að almennum byggingum og má þar  jafnframt finna upplýsingar um áherslumerkingar. Leiðbeiningarnar hafa skýringarmyndir ásamt neðangreindum upplýsingum:

Frá götu að inngangi:

  • Kantur frá t.d. bílastæði að fláa á gangstétt má að hámarki vera 25 mm hár til að fólk í hjólastól geti farið um hann. Kanturinn er nauðsynlegur fyrir sjónskerta og blinda svo þeir geti farið eftir gangstéttinni með hvítan staf. Hámarks halli á fláanum er 1:10 (10 %). Ef hallinn er meiri er hætta á að hjólastóllinn velti.
  • Aðkoma frá götu og bílastæðum að byggingum og útivistarsvæðum þeirra á að hafa slétt yfirborð með hálkuvörn og vera upphituð.
  • Fúgur flísa og hellna skulu vera að hámarki 5 mm breiðar. Séu þær breiðari þarf að fylla þær alveg upp með endingargóðu föstu efni.
  • Þrep eiga almennt ekki að vera í gönguleiðum að inngangi bygginga.
  • Hæðarmismun skal leysa með skábrautum og hallandi aðkomuleiðum.
  • Hliðarhalli á að vera að vera að hámarki 1:40 eða 2,5% svo að vatn safnist ekki fyrir á gönguleið að byggingunni.
  • Breidd gönguleiðar að byggingum á að vera að lágmarki 1,80 m. Gönguleiðir sem eru styttri en 3 m mega hafa  lágmarks breidd 1,40 m ef endi þeirra er að minnsta kosti 1,80 x 1,80 m að stærð svo hjólastólar hafi tök á að mætast.
  • Hallandi gönguleið þarf að hafa láréttan hvíldarflöt, sem er a.m.k. 1,80 m að lengd og breidd, fyrir hverja 0,60 m hæðaraukningu.
  • Við hæðarbreytingar á að vera áherslumerkingasvæði fyrir sjónskerta og blinda í samræmi við leiðbeiningar 6.2.4. frá Mannvirkjastofnun.

Inngangur:

  • Fyrir framan inngangsdyr er æskilegt að setja annað yfirborðsefni til að auðvelda sjónskertum að finna þær. 
  • Yfirborðsefni við inngangsdyr á að vera þannig að sjónskertir sjái það auðveldlega og þannig að þeir sem nota hvíta stafinn finni auðveldlega fyrir því. Slíkt má til dæmis gera með niðurfelldri rist, sem er í sömu hæð og gólfefnið eða með stálplötum, flísum eða hellum sem eru með upphleyptu munstri/hnöppum.
  • Ristar mega að hámarki vera með 9mm stór ristargöt svo hvíti stafurinn fari ekki í gegnum ristina.
  • Hnappar/munstur mega að hámarki vera 5mm að hæð.
  • Litamismunur á yfirborðsefnum við inngang skal vera að lágmarki LRV 60 eða NCS 0,75

Lýsing:

  • Lita/-og birtuskilyrði við innganga þurfa að vera þannig að öll aðkoma og inngangsleiðir séu afgerandi og skýrar til að auðvelda fólki með skerta sjón að átta sig á staðsetningu þeirra.
  • Passa þarf að lýsing sé góð og þannig uppsett að hún skeri ekki í augun.
  • Hæð útiljósastaura þarf að vera að lágmarki í mjaðmarhæð svo sjónskertum og blindum stafi ekki hætta af þeim.
  • Bil milli ljósastæða sem vísa leiðina að inngangi, ætti að vera að hámarki 10m.
  • Gott er að hafa sterkari lýsingu við tröppur, skábrautir og innganga, sérstaklega fyrir fólk með skerta sjón.

Merkingar: Stórir glerfletir:

  • Allar merkingar, upplýsinga- og ratskilti við byggingar skulu vera skýrar, greinilegar, auðlesnar, auðskildar og glampafríar.
  • Mikill litamismunur skal vera á milli bakgrunns og skiltis þannig að auðveldara sé að sjá skiltið úr fjarlægð og texti auðlesnari.
  • Mikill litamunur skal vera á texta og bakgrunni skiltis.
  • Forðast skal að nota einungis hástafi.
  • Upphleyptir stafir eru auðlesnastir fyrir sjónskerta.
  • Merkja skal eða afmarka alla stóra glerfleti sem eru í gönguleiðum á skýran og greinilegan hátt.
  • Merking skal vera bæði í 0,90 m hæð og í 1,40 - 1,60 m hæð með áberandi hætti.

Tröppur og þrep:

  • Séu lóðir of brattar til að hægt sé að jafna hæðarmun með halla samsvarandi halla skábrautar er heimilt að víkja frá þeirri reglu að ekki séu þrep í gönguleiðum að inngangi bygginga.
  • Við enda skábrauta og trappa á að vera yfirborðsefni í annars konar lit og áferð. Þetta yfirborðsefni á að vera í 0,9 m lengd frá brún skábrauta/trappa og í fullri breidd þeirra.
  • Tröppunef á að merkja lárétt og lóðrétt (hámark 40 mm á kant) með efni sem er í miklum litamismun við tröppurnar og inniheldur hálkuvörn. Þetta auðveldar sjónskertum að sjá brúnirnar og hjálpar einnig fólki með hvíta stafinn að finna kantinn. Varast skal þó að hafa mjög dökkan lit á ljósu yfirborðsefni þar sem það gæti virkað sem hola eða hæðarmunur.
Bílastæði hreyfihamlaðra

Í byggingareglugerð nr. 112/2012 er tilgreint hvernig bílastæði hreyfihamlaðra skulu vera. Á vef Mannvirkjastofnunar má sjá leiðbeiningar um bílastæði fatlaðra sem unnar eru út frá reglugerðinni. Hér fyrir neðan eru helstu atriðin í leiðbeiningunum dregin út.  Til að fá nánari upplýsingar er nauðsynlegt að skoða leiðbeiningablöðin.

  • Bílastæði hreyfihamlaðra skulu vera sérmerkt á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti.  Þau skulu vera sem næst aðalinngangi bygginga, ekki fjær en u.þ.b. 25m. Þar sem því verður komið við skal stæðum fyrir hreyfihamlaða komið fyrir á svæðum sem eru upphækkuð í gangstéttarhæð og tengd gangstéttum.
  • Hindrunarlaus leið skal vera frá bílastæðum hreyfihamlaðra að aðalinngangi byggingar.
  • Bílastæði hreyfihamlaðra skulu vera 3,8 m x 5,0 m að stærð.  Fimmta hvert stæði fyrir hreyfihamlaða skal vera 4,5 m x 8,0 m að stærð (fyrir ferðaþjónustubíla með lyftu að aftan). Þó skal aldrei vera færri en eitt slíkt við hverja byggingu.
  • Í leiðbeiningunum má einnig sjá töflur um lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða við íbúðar/-og samkomuhús sem dæmi.

Bílastæði sem tilheyra húsfélagi:

Húsfélag þarf að taka ákvörðun um hvernig bílastæði sem tilheyra húsinu eru notuð, fyrir utan þau bílastæði sem eru þinglýst eign íbúa. Það kemur fram í eignaskiptasamningi ef bílastæðin eru eign ákveðinna aðila. Í Lögum um fjöleignarhús 26/1994 er í 8.grein 5.lið fjallað um hvað telst til sameignar:
"Öll lóð húss og mannvirki, búnaður og tilfæringar á henni, þar með talið bílastæði, nema þinglýstar heimildir kveði á um að það sé séreign eða það byggist á eðli máls".
Það þarf því að taka það upp á húsfundi hvernig notkun á bílastæðum á að vera eða fyrir hverja stæðin eru hugsuð. Við höfum hreyrt dæmi þess að hreyfihamlaðir íbúar í fjölbýli þar sem íbúðir hafa ekki sérmerkt stæði hafi leitað eftir því við viðkomandi húsfélag að fá sérmerkt stæði fyrir sig sem er merkt með fatlaðamerki og bílnúmeri bílsins og hefur það víða gengið upp en það eru líka dæmi þess að húsfélagsfundur hafi hafnað slíkri beiðni.

Oft eru einhver stæði fyrir framan innganga fjölbýlis merkt fötluðum og eru þau stæði almennt ætluð fötluðum gestum eða sjúkrabifreiðum, en ekki hugsuð fyrir fatlaða íbúa - húsfélagafundur þarf að fjalla um þessi mál og ákveða hvernig stæðismálin eru ákveðin.

Breytingar vegna bílastæða og sérmerkingar:

Ef það þarf að breyta lóðinni til að gera fleiri bílastæði við inngang hússins þarf að hafa samband við skipulagsnefnd í sveitarfélaginu.

Ef bílastæðið er á einkalóð þarf ekki að sækja um leyfi fyrir merkingu stæðisins en annars þarf að hafa samband við skipulagsnefnd sveitarfélagsins.

Á vef Vegagerðarinnar má sjá merkingar sem notaðar eru til að merkja bifreiðastæði og sérstaka umferð fyrir fatlað fólk. Merkið sem notað er fyrir bifreiðastæði fatlaða flokkast sem J11.11 en einnig er hægt að nota merki D01.21 og merki D11.11 er notað við leiðir sem eru sérstaklega ætlaðar fyrir umferð fatlaðra.

Merkingar fyrir sérmerkt bílastæði:

Fyrirtækið Merking býr til skilti fyrir sérmerkt bílastæði.

Bílastæðamálun:

Fyrirtækið B.S Verktakar býður fyrirtækjum, bæjarfélögum, húsfélögum og öðrum upp á málun bílastæða og aðrar skyldar merkingar svo sem stæði fatlaðra.

Fyrirtækið GSG býður fyrirtækjum, bæjarfélögum, húsfélögum og öðrum upp á málun bílastæða fyrir fatlaða.


Ef þú veist um fleiri fyrirtæki sem sinna bílastæðamálun eða gera skilti fyrir sérmerkt bílastæði þá mátt þú vinsamlegast láta okkur vita.  Hægt er að hafa samband hér

Inngangsdyr / útidyr leiðbeiningablað 6.4.2.

Í leiðbeiningablöðum Mannvirkjastofnunar Inngangsdyr / útidyr og svala-/garðdyr leiðbeiningablað 6.4.2. um algilda hönnun tengt útidyrum má finna eftirfarandi:

  • Utan við aðalinngang skal vera pallur eða flötur sem er minnst 1,80 m x 1,80 m og má að hámarki halla frá byggingunni 1:40 eða 2,5%.
  • Hámarks hurðarátak er 25 N (um það bil 2,5 kg), svo fólk með takmarkaðan kraft í fingrum og höndum geti opnað hurðina.
  • Hliðarrými utan við inngangshurð skal vera að lágmarki 0,70 m skráarmegin, svo einstaklingar í hjólastólum hafi athafnarými.
  • Breiddin frá hurð að mótlægum dyrakarmi á að vera að lágmarki 87 cm að breidd og 207 cm að hæð. Ef handfang á hurðinni er nálægt lömum þarf að auka breiddina sem því nemur.
  • Þröskuldur við útidyr ætti ekki að vera hærri en 25 mm í byggingu fyrir hreyfihamlaða. 
  • Fyrir framan inngangsdyr er æskilegt að setja annað yfirborðsefni til að auðvelda sjónskertum að finna þær. 
  • Yfirborðsefni við inngangsdyr á að vera þannig að sjónskertir sjái það auðveldlega og þannig að þeir sem nota hvíta stafinn finni auðveldlega fyrir því. Slíkt má til dæmis gera með niðurfelldri rist, sem er í sömu hæð og gólfefnið eða með stálplötum, flísum eða hellum sem eru með upphleyptu munstri/hnöppum.
  • Ristar mega að hámarki vera með 9mm stór ristargöt svo hvíti stafurinn fari ekki í gegnum ristina.
  • Hnappar/munstur mega að hámarki vera 5mm að hæð.
  • Litamismunur á yfirborðsefnum við inngang skal vera að lágmarki LRV 60 eða NCS 0,75
  • Sjálfvirkur opnunarbúnaður skal vera á útidyrum og inngangsdyrum (þetta gildir ekki um sérbýlishús og inngangsdyr íbúða). Sé notaður rofi fyrir opnunarbúnað  á hann að vera í um það bil 1 m hæð, að minnsta kosti 0,5 m frá kverk/innhorni og hann á að vera skráarmegin við dyr sem eru á lömum. Hurðarrofar skulu vera greinilegir í lit sem aðgreinir sig vel frá vegg og vera merktir sérstaklega með texta (t.d. hurðarrofi) og tákni (t.d. hjólastólamerki).
Skábrautir, slyskjur og rampar

Neðangreindar upplýsingar eru fengnar úr leiðbeiningablaði 6.4.11 Mannvirkjastofnunar um Skábrautir og hæðarmun

  • Skábrautir ættu ekki að vera brattari en 1:20 (5%) á leið sem er styttri en 3 m. Sé ekki hægt að koma því við að hallinn sé 1:20 má hafa hallann að mesta lagi 1:12 (8,3%).
  • Sé hæðarmunur meiri en 0,5 m þar sem nota á skábraut skulu vera hvíldarpallar að minnsta kosti við hverja 0,60 m hækkun. Hvíldarpallurinn á að vera jafn breiður skábrautinni og að lágmarki 1,8 m að lengd.
  • Við sinn hvorn enda skábrautar skal vera sléttur láréttur flötur sem er 1,5 m x 1,5 m að stærð.
  • Yfirborð skábrautar skal vera nægjanlega hrjúft til að það verði ekki hált í bleytu.
  • Hæðarmun við skábrautir skal auðkenna fyrir sjónskerta og blinda.

Skábrautir, slyskjur og/eða hjólastólarampa er m.a. hægt að kaupa hjá BykoEirberg og Öryggismiðstöðinni , Öryggismiðstöðin hefur selt bílrampa.

Veggsvalir

Þröskuldur eða kantur á svölum bygginga, sem hannaðar eru með hliðsjón af algildri hönnun, á ekki að vera hærri en 25 mm og svalagólfið halli frá dyrum og húsi.

Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja.

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér