Innandyra

Aðgengi innandyra

Það er að ýmsu að hyggja þegar kemur að aðgengi innandyra og hefur Mannvirkjastofnun gefið út leiðbeiningar þar sem tilgreint er hvernig mannvirki eru gerð aðgengileg samkvæmt Byggingarreglugerð 112/2012 .

Leiðbeiningar vegna byggingarreglugerðar 112/2012

Hér fyrir neðan eru tenglar á leiðbeiningablöð Mannvirkjastofnunar sem eiga við aðgengismál innanhúss og eru helstu atriðin í leiðbeiningablöðunum dregin út hér fyrir neðan. Til að fá nánari upplýsingar er nauðsynlegt að fara inn á sjálf leiðbeiningablöðin.
Einnig eru upplýsingar um hvar hægt er að nálgast hjálpartæki sem eiga við hvert svæði.  Ef þið hafið upplýsingar um fleiri sölustaði þá viljum við gjarnan fá að vita af þeim.

Dyr innanhúss,  Leiðbeiningar 6.4.3.

Samantekt úr leiðbeiningablaðinu Dyr innanhúss 

 • Hindrunarlaus umferðarbreidd allra dyra í byggingum þar sem krafist er algildrar hönnunar er a.m.k. 0,80m x 2,00m.
 • Dyr eiga að vera þannig gerðar að allir geti opnað þær án erfiðleika og má þar nefna fólk í hjólastólum og fólk með lítinn kraft í fingrum og höndum. Mælt er með að dyr við útidyr og brunaútganga hafi sjálfvirkan hurðaropnunarbúnað.
 • Í byggingum sem hannaðar eru á grundvelli algildrar hönnunar skulu dyr innanhúss vera þröskuldslausar, eða með þröskuldum sem auðvelt er að fjarlægja.
Skábrautir og hæðarmunur - Leiðbeiningar 6.4.11.

Samantekt úr leiðbeiningablaði um Skábrautir og hæðarmun

 • Skábrautir ættu ekki að vera brattari en 1:20. Ef umferðarleið er styttri en 3 m er þó heimilt að halli skábrautar sé mest 1:12.
 • Sléttur láréttur flötur, að lágmarki 1,50m x 1,50m að stærð skal vera við báða enda skábrautar.
 • Sé hæðarmunur meiri en 0,6 m þar sem nota á skábraut skulu vera hvíldarpallar að minnsta kosti við hverja 0,60 m hækkun. Hvíldarpallurinn á að vera jafn breiður skábrautinni og að lágmarki 1,5 m að lengd eða 1,8 m þar sem umferð er mikil.
 • Breidd skábrauta skal vera minnst 0,9 m og ekki minni en 1,30 m á lengri leiðum mælt á milli handlista.
 • Engar hindranir mega vera á skábrautum. Yfirborð skábrautar skal vera nægjanlega hrjúft til að það verði ekki hált í bleytu.
 • Við hliðar skábrauta skal vera kantur (upphækkun) minnst 40 mm að hæð nema handrið sé þannig frágengið að hjólastóll geti ekki runnið út af skábrautinni.
 • Handrið skal vera beggja vegna við skábrautir við skábrautir með handlistum í 0,70m og 0,90 m hæð. Ekki er þörf á handriðum á skábrautum sem jafna minni hæðarmun en 0,25 m og eru með minni halla en 1:20.
 • Handlisti skal ná 300 mm fram fyrir báða enda skábrautar og/eða palls.
 • Hæðarmismun við skábrautir skal auðkenna fyrir sjónskerta og blinda.
 • Lýsing skábrautar skal henta aðstæðum á svæðinu og fyrirhugaðri umferð.

Skábrautir, slyskjur eða hjólastólarampa er m.a. hægt að kaupa hjá BykoEirberg og Öryggismiðstöðinni, Öryggismiðstöðin selur einnig bílarampa.

Baðherbergi og snyrtingar - Leiðbeiningar 6.7.10 og 6.8.3

Algild hönnun snyrtinga og baðherbergja 6.8.3

Í almennum leiðbeiningum um baðherbergi og snyrtingar eru myndir og upplýsingar um algilda hönnun á baðherbergjum en það eru ýtarlegri upplýsingar í leiðbeiningum um algilda hönnun. Engar sérstakar reglur eru um handföng í sturtuklefum. 

Þegar baðherbergi er hannað á grundvelli algildrar hönnunar skal hafa eftirfarandi í huga:

 • Blöndunartæki þarf að vera hægt að stýra með krepptum hnefa.
 • Salernishæð er 48 cm.
 • Fellanlegar salernisstoðir skulu vera beggja vegna salernis. Þær eru í 80 cm hæð og breiddin milli þeirra er 60 cm.
 • Við hlið salernis á að vera 90 cm hindrunarlaust svæði
 • Framan við vask og salerni skal vera 1,5 m þvermál og 0,9 m breitt hindrunarlaust snúningssvæði.
 • Vaskur á að vera í 80 cm hæð, vera með flötum botni og hafa frárennslið dregið aftur.
 • Hæð spegils við vask á að vera 90 - 190 cm.
 • Sápuskammtari á að vera í  90 - 120 cm hæð.
 • Pappírsþurrkur eiga að vera í hæð 90 - 120 cm.
 • Handfang er á hurð til að toga hana aftur (hentar t.d. fólki sem er í hjólastól og mjög lágvöxnu fólki).

Salernisstoðir er m.a. hægt að kaupa í Eirberg, Fastus og Stoð ásamt öðrum bað- og salernishjálpartækjum.
Einnig er hægt að kaupa ýmis bað- og salernishjálparæki hjá Vélum og verkfærum og Öryggismiðstöðinni.

Almennar kröfur til íbúða - Leiðbeiningar 6.7.1

Í þessum leiðbeiningar eru margvíslegar leiðbeiningar er varða íbúðir. Það helsta sem fram kemur um algilda hönnun í eldhúsum má sjá hér fyrir neðan:

 • Í íbúðum sem hannaðar eru á grundvelli algildrar hönnunar skal athafnarými framan við eldhúsinnréttingu ekki vera minna en 1,50m að þvermáli eða sýnt fram á að unnt sé að breyta innréttingum á þann veg.
 • Hjólastólar skulu geta snúið í hring á 1,5m hindrunarlausu athafnarými framan við innréttingar.
Lyftur og lyftupallar - Leiðbeiningar 6.4.12

Það helsta sem kemur fram í leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar varðandi lyftur og lyftupalla má sjá hér fyrir neðan:

 • Hjólastólapallslyfta. Þegar sett er upp hjólastólapallslyfta á hún að vera að lágmarki 0,9 x 1,4m að innan.  Framan við hurðir hjólastólapallslyftu skal vera hindrunarlaust athafnasvæði að lágmarki 1,5 x 1,5 m að stærð. Burðargeta hjólastólapallslyftu skal vera a.m.k. 300 kg og 450 kg ef fylgdarmaður á að fara með
 • Stigalyfta fyrir hjólastól þarf að vera minnst 0,80 x 1,20 m. Framan við hurðir stigalyftu skal vera hindrunarlaust athafnasvæði að lágmarki 1,5 x 1,5 m að stærð. Burðargeta stigalyftu skal vera að lágmarki 300 kg og 450 kg ef fylgdarmaður á að fara með.

Hjá eftirtöldum fyrirtækjum er hægt að kaupa hjólastólalyftur:

Rými Ofnasmiðjan , Gylfaflöt 4, 112 Reykjavík, Sími 511 1100

HÉÐINN Schindler lyftur ehf. Gjótuhrauni 4, 220 Hafnarfjörður, 565 3181 

Íslandslyftur, Smiðjuvegur, 28, 201 Kópavogur, Sími: 568-7600 

Hjá Léttitækni, Lambhagavegi 13, Reykjavík, Sími: 452-4442, er hægt að kaupa rafknúinn klifurstól. Klifurstóll klífur tröppur og stiga þannig að aðstoðarmaður þess sem á erfitt með gang eða þess sem notar hjólastól þarf ekki að reyna mikið á sig við að aðstoða einstaklinginn upp stigann.

Þvottaherbergi íbúða

Samantekt hefur verið felld út úr leiðbeiningum - en eftirfarandi ákvæði komu þar fram:

 • Í íbúðum sem hannaðar eru á grundvelli algildrar hönnunar skal stærð þvottaherbergis vera nægjanleg og grunnflötur þannig skipulagður að hægt sé að koma við hindrunarlausu snúningssvæði, a.m.k. 1,50 m að þvermáli en a.m.k. 1,30 m að þvermáli í íbúðum minni en 55 fermetrar. 
 • Í þvottaherbergi sem er hluti af baðherbergi og hannað út frá algildri hönnun opnast hurðin út (ekki inn í baðherbergið) og passa þarf upp á að rými sé milli veggs og  þvottavélahliðarinnar/hlið þurrkarans þannig að hægt sé að komast að athafnasvæði við hlið vélarinnar. 

Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja.

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér