Ferðalög innanlands

Hér höldum við utan um upplýsingar sem tengjast ferðalögum innanlands, allt frá ferðamáta til gististaða og aðgengilegra ferðamannastaða. Endilega látið okkur vita ef þið lumið á fleiri gagnlegum upplýsingum. Meiri upplýsingar er að finna í flipunum hér til hliðar.

Bílaleigur

Sumar bílaleigur hafa til leigu bíla sem hægt er að keyra hjólastól inn í en aðrar bílaleigur bjóða einungis uppá að akstursbúnaður fyrir hreyfihamlaða sé settur í bílinn.

Neðangreindar bílaleigur leyfa að akstursbúnaður sé settur í bílaleigubílinn eða hafa bíla sem eru nægilega stórir til að einstaklingur í hjólastól geti setið í hjólastólnum inni í bílnum. 

Bílaleiga Akureyrar - Höldur

Pósthólf 10 | 602 Akureyri | 461 6000 | holdur(hjá)holdur.is |Vefsíða Bílaleigu Akureyrar - Höldur

Akstursbúnaður fyrir hreyfihamlaða er leyfður í bílunum. Sá sem leigir bílinn þarf sjálfur að útvega sér slíkan búnað og sjá um að setja hann í bílinn.

Bílaleigan hefur 9 manna bíl til leigu og er hægt að taka sæti úr bílnum þannig að hjólastóll komist fyrir í bílnum. Bíllinn hefur festingar í gólfinu sem hægt er að festa hjólastólinn niður við og sliskjur til að hægt sé að koma hjólastólnum inn í bílinn. Athugið að bíllinn er ekki sérhannaður fyrir þetta en hefur reynst nokkuð vel (upplýsingar fengnar í maí 2016).

Hertz

Flugvallarvegi | 101 Reykjavík | 522 4400 | hertz(hjá)hertz.is | Vefsíða Hertz

Bílaleiga Hertz leyfir akstursbúnað fyrir hreyfihamlaða í bílum sínum. Sá sem leigir bílinn, sér sjálfur um að útvega sér búnaðinn og setja hann í bílinn. 

Bílaleigan hefur til leigu bíl sem hægt er að keyra einstakling í hjólastól inn í. Bíllinn hefur festingar fyrir hjólastólinn og sliskjur til að hægt sé að koma hjólastólnum inn í bílinn.

Í apríl 2024 var tekin í notkun bíll sem er með akstursbúnaði fyrir hreyfihamlaða sem nú gefst kostur á að leigja hjá Hertz. Um er að ræða bíl af gerðinni Hyundai Tucson sem er útbúin með akstursbúnaði.

Sixt rent a car

Fiskislóð 18 | 101 Reykjavík | 540 2222 |sixt(hjá)sixt.is | Vefsíða Sixt rent a car

Bílaleigan Sixt rent a car leyfir akstursbúnað fyrir hreyfihamlaða í bílum sínum (upplýsingar fengnar í apríl 2016).

Flug

Hafa skal í huga að þurfi einstaklingur aðstoð á flugvelli þarf að láta flugfélagið vita með 48 tíma fyrirvara. Einnig er gott að hafa samband við flugfélögin til að fá nánari upplýsingar um þá þjónustu sem er í boði. Hér fyrir neðan eru upplýsingar fengnar frá flugfélögunum.

Flugfélag Íslands

Flugfélag Íslands veitir þjónustu fyrir hreyfihamlaða farþega. Taka þarf fram við bókun hverslags aðstoð einstaklingur þarf á að halda. Upplýsingar um hjólastólaþjónustu flugfélagsins fást á vefsíðu Flugfélags Íslands.

Verklagsreglur Flugfélags Íslands

Flugfélag Íslands gaf okkur upp neðangreindar upplýsingar um viðmið í þjónustu við hreyfihamlaða farþega og þá sem hafa sérstakar þjónustuþarfir:

Eftirfarandi upplýsingar eiga við um þá flugfarþega sem hafa skerta hreyfigetu sem rakin verður til líkamlegrar fötlunar, svo sem skertrar skynjunar eða hreyfingar, hvort sem hún er varanleg eða tímabundin, greindarskerðingar, annars konar fötlunar eða aldurs.

Aðstoð starfsfólks Flugfélags Íslands við fatlaða og hreyfihamlaða einstaklinga felst meðal annars í að gera þeim kleift að:

 • Fara í gegnum innritun og öryggisleit á flugvelli á áfangastað Flugfélags Íslands.
 • Komast um borð í loftfar (flugvél).
 • Koma farangri fyrir um borð í loftfari (flugvél).
 • Komast úr loftfari (flugvél) í gegnum landamæraeftirlit.
 • Fara í gegnum tollskoðun á komustað/áfangastað.
 • Endurheimta farangur á komustað/áfangastað.
 • Frekari aðstoð starfsfólks Flugfélags Íslands felst til að mynda í aðstoð við meðhöndlun og frágang hjálpartækja og stoðtækja auk miðlunar nauðsynlegra upplýsinga.
 • Fatlaðir eða hreyfihamlaðir farþegar mega aldrei sitja í sæti við neyðarútgang.

Farþegi í hjólastól

Fyrir farþega í hjólastjól fer innritun fram eins og venjulega og farþegi er upplýstur um að hann muni fá aðstoð út í vél. Starfsmaður Flugfélags Íslands verður strax að láta þjónustustjóra í flugstöð vita þegar hjólastólafarþegi mætir.

Fokker 50 flugvél
Almennt séð eru hreyfihamlaðir farþegar settir í sæti sem eru með þeim fremstu í hverri flugvél t.d. 3A eða 4A. Það er vinnuregla að ætíð skal vísa farþega í gluggasæti nema sæti við hlið hans sé laust.

Dash 8-200 flugvél
Hjólastólafarþegar sitja alltaf framarlega í sætisröð t.d. 2 ABCD eða 3 ABCD.

Blindir og heyrnarlausir farþegar

Blindir og heyrnarlausir farþegar eru innritaðir hjá Flugfélagi Íslands án fylgdarmanns svo framarlega sem þeir þurfa enga einstaklingsbundna aðstoð eða meðhöndlun á meðan á flugi stendur.

Helst skulu farþegar innritaðir í sæti nálægt útgönguleið en ekki við útgönguleiðina sjálfa.

Hundur sem þjálfaður er í að leiða blindan má einnig fara í farþegarými en hann má ekki fá sæti heldur liggja við fætur þess blinda. Oft eru þetta sæti sem eru mjög framarlega í hverri flugvél fyrir blindan einstakling með hund.

Bókanir á farþega með sértækar þjónustuþarfir

Þegar starfsmaður Flugfélags Íslands bókar farþega með sértækar þjónustuþarfir er það alltaf skráð sérstaklega með hverjum farþega í bókunar- og innritunarkerfi.

Flugfélag Íslands ber ábyrgð á því að tryggja fötluðum og hreyfihömluðum farþegum aðstoð á flugvelli.

Farþega ber við farskráningu að gera grein fyrir þörf sinni á aðstoð eða í síðasta lagi 48 klst. fyrir brottför.

Flugfélagi Íslands er heimilt að synja farþega um flug á grundvelli fötlunar eða hreyfihömlunar þar sem flugöryggiskröfur krefjast þess eða þegar stærð loftfarsins (flugvélarinnar), dyr þess eða aðstæður á meðan á flutningi stendur koma í veg fyrir það.

(Upplýsingar fengnar í apríl 2016)

Flugfélagið Ernir

Hjá Flugfélaginu Erni eru ekki flugþjónar/flugfreyjur og er því enginn í vélinni sem getur aðstoðað ef eitthvað kemur uppá í flugvélinni. Flugvélarnar eru ekki þannig búnar að hægt sé að nota fluningsstól til að komast um borð. Ef einstaklingur getur gengið um borð með stuðningi og ferðast einn er hægt að ferðast með flugfélaginu Erni. Hægt er að flytja hjólastól sem er samanbrjótanlegur en ekki er hægt að flytja rafmagnshjólastóla.  Sé þörf á aðstoð að flugvél skal láta Flugfélagið Erni vita með að lágmarki 48 klukkustunda fyrirvara (upplýsingar fengnar í mars 2016).

Ferjur

Herjólfur

Fært er fólki sem notar hjólastóla í Herjólf og gott aðgengi fyrir aðra hreyfihamlaða t.d. er lyfta í skipinu. 

Afgreiðslustaðir Herjólfs
Aðgengi fyrir hjólastóla er með besta móti bæði í Vestmannaeyjum og Landeyjahöfn. Á báðum stöðum eru lyftur til að komast upp að landganginum og ættu flestar tegundir hjólastóla að komast fyrir í þeim. Landgangurinn er hallandi skábraut sem er nógu breið fyrir flestar tegundir hjólastóla, hallinn á landganginum getur verið mismunandi eftir stöðu sjávar.

Á afgreiðslustað Herjólfs í Þorlákshöfn er einnig lyfta frá afgreiðslunni upp að landganginum.

Um borð í Herjólfi
Um borð í Herjólfi eru tvær lyftur ætlaðar almenningi, önnur er á bílaþilfarinu og hægt er að komast þaðan á klefaþilfar og aðalþilfar, lyfta þessi er ekki stór en minni gerðir hjólastóla komast fyrir. Önnur lyfta er frá aðalþilfarinu upp á efsta þilfar ef farþegar vilja komast út á meðan siglingu stendur.


Baldur Breiðafjarðarferja

Samkvæmt upplýsingum frá Sæferðum sem reka Baldur Breiðafjarðarferjuna er ekkert mál að ferðast í hjólastól með Baldri. Best er að mæta tímanlega og að láta vita af sér, því fara þarf inn á sama stað og bílar aka inn og þar er farið með lyftu upp á farþegaþilfar. Nánar í síma 433 2254 og á vefsíðu Sæferða. Veita þeir líka upplýsingar um aðgengi í og um Flatey.

Sæfari - Grímsey/Hrísey

Ferðaskrifstofan Nonni sér um ferjuferðir til Grímseyjar og Hríseyjar. Samkvæmt upplýsingum frá þeim er ekkert mál að fara í hjólastól út í Grímsey en kannski ekki alveg eins auðvelt til Hríseyjar en samt hægt að bjarga því.
Nánari upplýsingar í síma 461 1841 eða á vefsíðu Sæfara

Leigubílar

Neðangreindir aðilar geta tekið farþega sem nota rafmagnshjólastóla. Best er að taka fram að um rafmagnshjólastól er að ræða. Margar leigubílastöðvar taka aukagjald fyrir stóra leigubíla og getur því verið gott að spyrja hvort greiða þurfi aukagjald.

Akureyri

Á Akureyri eru eftirtaldir aðilar með leigubíla sem rafmagns hjólastólar komast i bílinn.

Taxi-no17.com Panta þarf bílinn með góðum fyrirvara á sumrin. Sími: 892-4257

Ísafjörður

Á Ísafirði tekur Trausti að sér akstur fólks sem notar hjólastól og þarf að sitja í hjólastólnum í bílnum. Bíllinn er með ramp þannig að notendur handknúinna hjólastóla og rafmagnsstóla geta nýtt sér þessa þjónustu. 
Sími: 893-6356 (upplýsingar frá 12.4.2016)

Reykjavík

BSR S. 561-0000

Hreyfill - Bæjarleiðir S. 588-5522. Hringja þarf með góðum fyrirvara til að athuga hvort bílarnir séu lausir (upplýsingar frá ágúst 2016).

City Taxi - S. 422 - 22 22 Sérhæfa sig í þjónustu við fatlað fólk og eldri borgara og veita þeim 20% afslátt(upplýsingar frá 3.6.2016)

Rútur

Hópferðabílar í áætlunarferðum

Á vefsíðu BSÍ er hægt að kynna sér áætlunarferðir hópferðabíla um land allt. Því miður er almennt ekki hjólastólaaðgengi í hópferðabifreiðum sem eru í áætlunarferðum hérlendis. Hægt er þó að geyma hjólastóla sem leggjast saman í farangursgeymslu. Það eru 2-3 tröppur inn í hópaferðabílana. Ef haft er samband með sólarhrings fyrirvara er hægt að gera ráðstafanir varðandi flugrútuna .

Sæmundur Sigmundsson ehf.

Brákarbraut 20 | 310 Borgarnesi  | 862 1373

Hjá Sæmundi er hægt að leigja rútu sem tekur hjólastóla (hjólastólalyfta er í bílnum ) og einn 16 manna bíl sem tekur hjólastól.

Teitur Jónasson ehf.

Dalvegi 22 | 201 Kópavogi | 515 2700 | info(hjá)teitur.is | Vefsíða Teits

Hjá Teiti er hægt að leigja út 50 sæta rútu sem er aðgengileg fyrir hjólastóla. Samkvæmt vefsíðu þeirra eru nokkrar rútur aðgengilegar fyrir hjólastóla. Gott er að hafa samband með góðum fyrirvara.

Hópferðamiðstöðin Trex

Hesthálsi 10 | 110 Reykjavík | 587 6000| info(hjá)trex.is | Vefsíða Trex

Hægt er að leigja rútu hjá Trex sem er með hjólastólalyftu og sæti sem hægt er að nota til að flytja farþega á milli sætaraða.

Strætisvagnar

Strætisvagnar Akureyrar

Allir strætisvagnar Akureyrar eru þannig að gengið er beint inn í vagninn án þess að fara upp tröppur. Ef fólk notar til dæmis göngugrind og þarf aðstoð til að komast inn í vagninn mun bílstjórinn aðstoða fólk við það. Það er frítt í strætisvagna á Akureyri.

Strætisvagnar höfuðborgarsvæðisins

Allir strætidvagnar sem aka á höfuðborgarsvæðinu eru lággólfsvagnar og eru þar að leiðandi aðgengilegir fyrir  þá sem nota hjólastóla sem aðra hreyfihamlaða.  Hægt er að ganga beint inn í vagnana en þó eru sumar leiðir sem hafa tröppur. Í öllum vögnum er hjólastólarampur sem hægt er að setja út þegar hjólastólanotendur eru á ferð. Sérstakt svæði er fyrir hjólastóla rétt framan við miðjuhurð í öllum innanbæjarvögnum. Ekki eru festingar í gólfi í vögnum en það eru tveggja punkta belti í vögnunum. 

Á vefsíðu Strætó.is eru upplýsingar og tilmæli fyrir farþega í hjólastól undir  Farþegaþjónusta  

 • Viðkomandi þarf að vera fullkomlega sjálfbær með að komast inn og út úr vagninum.
 • viðkomandi þarf að biðja samferðafólk sitt um aðstoð við að taka út rampinn eða biðla til vagnstjóra um aðstoð
 • Tryggja að bak hjólastólsins snúi ávallt í akstursátt
 • Nota öryggisbelti til að festa stólinn
 • Aðeins kemst einn hjólastóll með í hverjum vagni
Strætisvagnar Reykjanesbæjar

Frítt er í strætisvagna Reykjanesbæjar. Öryrkjar greiða lægra gjald en aðrir í ferðum milli Reykjanesbæjar og Reykjavíkur.

Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja.

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér