Afslættir

Niðurfelling bifreiðagjalda

Lífeyrisþegar geta átt rétt á niðurfellingu bifreiðagjalda (undanþegnir bifreiðagjaldi). Réttindi varðandi bifreiðamál eru á vegum Tryggingastofnunar. Tryggingastofnun staðfestir rétt lífeyrisþega á niðurfellingu eða leiðréttingu bifreiðagjalda. Umsækjandi sækir um með eyðublaðinu „Umsókn um niðurfellingu bifreiðagjalda" og þarf að undirrita hana. Einnig fyllir tengiliður Tryggingastofnunar út hluta eyðublaðsins. Umsóknin þarf að berast til ríkisskattstjóra sem sér um niðurfellingu eða leiðréttingu bifreiðagjalda.
Ef lífeyrisþegar hafa greitt bifreiðagjöld því þeir vissu ekki af niðurfellingunni er hægt að óska eftir endurgreiðslu og skal senda erindið á trukkur(hjá)rsk.is og þá skoða þeir málið 2-3 ár aftur í tímann.

Samantekt TR um reglur vegna niðurfellingar bifreiðagjalda

Undanþegnir bifreiðagjaldi eru þeir sem fá greiddan:

  • Örorkulífeyri
  • Uppbót vegna reksturs bifreiðar
  • Örorkustyrk
  • Forráðamenn barna sem fá umönnunargreiðslur
  • Ellilífeyrisþegar sem fá greidda uppbót vegna reksturs bifreiðar
  • Ellilífeyrisþegar sem voru öryrkjar og öryrkjar sem dveljast á stofnun
  • Foreldrar langveikra og fjölfatlaðra barna sem vistuð eru utan heimilis ef réttur til umönnunargreiðslna héldist óskertur væri barnið heima.

Endurhæfingarlífeyrir gefur ekki rétt til niðurfellingar bifreiðagjalda.

Skilyrði fyrir niðurfellingu gjaldsins er að viðkomandi hafi einhverjar greiðslur frá TR.
Ef umsækjandi er vistmaður á stofnun og hefur ekki lengur greiðslur frá TR en hafði þær áður en hann kom þangað þá á viðkomandi rétt á niðurfellingu.
Réttur til þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri, uppbót vegna reksturs bifreiðar eða örorkustyrk er bundinn því skilyrði að bótaþegi sé í ökutækjaskrá annaðhvort skráður eigandi bifreiðar eða umráðamaður bifreiðar samkvæmt eignarleigusamningi.
Réttur foreldra sem fá umönnunargreiðslur er bundinn því skilyrði að skráður eigandi bifreiðar búi á sama stað og barnið.

Vegaaðstoð

FÍB

Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) veitir öryrkjum 30% afslátt af félagsgjöldum (upplýsingar fengnar símleiðis 27. júní 2012) og fjölskyldumeðlimir sem búa undir sama þaki geta fengið aukaaðild fyrir hálft gjald. FÍB býður félögum sínum upp á neyðaraðstoð. Í boði er eldsneytisaðstoð, start, dekkjaskipti og dráttarbíll. Þjónustan er ókeypis og veitt allan sólarhringinn um allt land. Innifalið í félagsgjaldinu er ókeypis dráttarbíll einu sinni á ári (samkvæmt ákveðnum reglum FÍB). Þar sem ekki er talið æskilegt að draga sjálfskipta bíla, getur þessi þjónusta komið sér vel fyrir marga hreyfihamlaða bíleigendur. Nánar um neyðaraðstoð FÍB.

Einnig býðst félögum FÍB margs konar afsláttur hjá ýmsum fyrirtækjum.

Sjóvá

Þeir sem tryggja hjá Sjóvá og eru í Stofni eiga rétt á vegaaðstoð og geta hringt í ákveðið númer ef þörf er á aðstoð.
Slík aðstoð getur komið sér vel ef t.d. þarf að skipta um sprungið dekk, ef bíllinn verður straumlaus eða bensínlaus og ef tjón verður og fylla þarf út tjónaskýrslu. Nánar um vegaaðstoð Sjóvá

VÍS

Vís býður upp á bílaaðstoð, t.d. ef bíllinn er bensínlaus, ef það springur dekk eða ef bíllinn bilar. Þjónustan er í boði um allt land og bæði er hægt að hringja og fá leiðbeiningar og fá mann á staðinn. Ef ekki er hægt að finna út úr vandamálinu sér VÍS um að flytja bílinn á næsta verkstæði. Nánari upplýsingar um bílaaðstoð VÍS.

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér