Örorkulífeyrir, styrkir, bætur

Hér getur þú nálgast gagnlegar upplýsingar um örorkulífeyri, styrki og bætur sem þú gætir átt rétt á í gegnum almannatryggingakerfið (TR og/eða SÍ). Nú þarf að stofna Mína síðu hjá TR og fara umsóknir um styrki og flesta aðra þjónustu í gegnum þessa síðu.

Endurhæfingarlífeyrir

Einstaklingur gæti átt rétt á Endurhæfingarlífeyri ef hann er á aldrinum 18 – 67 ára, hefur lent í slysi eða fengið sjúkdóm og ekki ljóst hver starfshæfni hans er/verður til frambúðar. Endurhæfingarlífeyri er hægt að fá í allt að 18 mánuði en hægt að framlengja um allt að 18 mánuði ef um sérstakar ástæður er að ræða.

Meginskilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris er að umsækjandi sé óvinnufær vegna sjúkdóma eða slysa og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði. Reglugerðarbreyting  nr. 887/2021 um 3ja ára búsetu var gerð 13.07.2021. Reglugerðarbreytingin felur í sér að þeir sem samanlagt gætu átt geymdan þriggja ára búseturétt á síðaliðnum 10 árum geta sótt um endurhæfingartímabil hjá stofnuninni. Ákvæðið gildir um umsóknir sem berast á tímabilinu 1. mars 2020 -31. desember 2021. 

Til þess að eiga rétt á endurhæfingarlífeyri þarf að uppfylla ákveðin skilyrði.

Umsækjandi þarf að :

  • Eiga lögheimili á Íslandi.
  • Vera á aldrinum 18–67 ára.
  • Hafa lokið áunnum veikindarétti sínum frá atvinnurekanda og greiðslum sjúkra- eða slysadagpeninga frá stéttarfélagi og vátryggingafélögum.
  • Eigi ekki rétt á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk (vegna barna fæddra 1. janúar 2021 eða síðar). 
  • Eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Athugið að réttur á sjúkradagpeningum frá stéttarfélagi getur verið til staðar í framhaldi af atvinnuleysisbótum.
  • Taka þátt í endurhæfingu í umsjón fagaðila með starfshæfni að markmiði.
  • Sérreglur gilda þegar lögheimili er flutt til Íslands erlendis frá. Ef starfsgeta er óskert við komu til landsins getur skapast réttur eftir 6 mánaða dvöl á Íslandi. Ef umsækjandi er óvinnufær við komuna getur skapast réttur eftir 3 ára búsetu á Íslandi.

Þegar sótt er um endurhæfingarlífeyri  þarf að fá læknisvottorð þar sem fram koma ástæður þess að einstaklingur sé óvinnufær. Einnig þarf að fylgja endurhæfingaráætlun frá lækni eða meðferðaraðila. Í henni þarf að koma fram upplýsingar um langtíma- og skammtímamarkmið endurhæfingar, ásamt greinargóðri lýsingu á innihaldi hennar. Jafnframt þarf að skila inn tekjuáætlun.

Munur á örorku- og endurhæfingarlífeyri

Sömu reglur gilda um flest réttindi til tengdra bóta og hjá örorkulífeyrisþegum, undanskilið er:

  • réttur á bifreiðakaupastyrkjum, bílalánum og niðurfelling á bifreiðagjöldum
  • sjúkrahúsvist í greiningar- og endurhæfingarskyni, sem er styttri en eitt ár skerðir ekki greiðslur
  • endurhæfingarlífeyrir er ekki greiddur úr landi og skerðist hafi einstaklingur búið erlendis

Reglugerð um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð var sett í júní 2020.

Örorkumat

Einstaklingar á aldrinum 16 til 67 ára geta óskað eftir örorkumati í samráði við lækni sinn þegar ljóst er að fullum bata eftir slys eða sjúkdóm er ekki náð. Síðastliðinn ár hefur verið aukinn áhersla á að endurhæfing og endurhæfingarlífeyrir sé undanfari áður en kemur að örorkumati. Einstaklingur fer í skoðun hjá lækni sem starfar fyrir utan TR. Farið er eftir svo kölluðum örorkumatstaðli.

Hvernig er sótt um örorkulífeyri?

Rétt á örorkulífeyri eiga þeir sem eru með 75% örorku og eru á aldrinum 18 - 67 ára. Hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu.

Eftirfarandi þarf að fylgja umsókn um örorkulífeyri  (sækja um á mínum síðum):

  • Læknisvottorð vegna umsóknar um örorkumat
  • Spurningalisti um færniskerðingu (fylltur út af umsækjanda)
  • Greinargerð frá endurhæfingaraðila sem staðfestir að endurhæfing sé fullreynd (ef við á)
  • Tekjuáætlun
  • Staðfesting um að sótt hafi verið um hjá lífeyrissjóði eða að réttur á greiðslum sé ekki til staðar
  • Upplýsingum um nýtingu skattkorts (hægt að skrá inni á Mínum síðum)

Ef tekjur fara yfir ákveðið mark eða ef lífeyrisþegi dvelur á stofnun lengur en mánuð í senn getur réttur til örorkulífeyris fallið niður. Einnig getur réttur fallið niður ef endurnýjað örorkumat er minna en 75% en þá getur viðkomandi átt rétt á örorkustyrk, sjá upplýsingar um örorkustyrk í kaflanum "Annar lífeyrir" hér að neðan.

Þegar niðurstaða mats liggur fyrir, þarf að skila inn tekjuáætlun. 

Örorkuskírteini

Einstaklingur sem fær metna 75% örorku fær útgefið örorkuskírteini. Til að hægt sé að gefa út skírteinið þarf viðkomandi að koma með mynd (sömu stærð og passamynd  3,5x4,5) til Tryggingastofnunar eða umboðsmanna stofnunarinnar utan höfðuðborgarsvæðisins, en það eru embætti sýslumanna .  Skírteinið veitir afslátt á læknisþjónustu, sjúkraþjálfun og lyfjum og endurgreiðslu á tannlæknaþjónustu. Ýmsar stofnanir og fyrirtæki gefa afslátt af vörum og þjónustu gegn framvísun skírteinisins. Við erum með lista yfir fyrirtæki sem við vitum að veita öryrkjum afslátt.

Örorkuskírteinið er sent í pósti innan tíu daga frá móttöku passamyndar. Skírteinið gildir sama tíma og örorkumatið.

Aldurstengd örorkuuppbót

Aldurstengd örorkuuppbót greiðist þeim sem fá greiddan örorkulífeyri og endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Fjárhæð miðast við þann aldur sem einstaklingur var í fyrsta sinn metinn 75% öryrki. Hér má finna frekari upplýsingar um aldurstengda örorkuuppbót.

Tekjutrygging

Tekjutrygginginn reiknast sjálfkrafa inn hjá örorkulífeyrisþegum ef tekjur eru undir viðmiðunarmörkum. Upphæð óskertar tekjutryggingar er 168.542 kr. Skerðingarhlutfallið er 38,35 %

Uppbætur á lífeyri öryrkja

Örorkulífeyrisþegar geta átt á rétt á uppbót á lífeyrir þegar ákveðnum forsendum er fullnægt. Þannig eiga t.d. einstaklingar sem búa einir rétt á heimilisuppbót ef tekjur þeirra eru ekki of háar. Skilyrði fyrir að fá uppbætur er þó að einstaklingur sé með einhverja tekjutryggingu

Útreikningur lífeyris

Hvað hefur áhrif á ráðstöfunartekjur?

Á  reiknivél TR getur þú sett inn þínar forsendur og séð hverjar ráðstöfunartekjur þínar geta orðið ef tekjur þínar breytast, hækka eða lækka.

Hérna má finna upplýsingar um útreikning á lífeyrir.

Fjárhæðir lífeyris.

Falla bætur niður ef ég fer að vinna?

Frítekjumarkið fyrir mánuð er 109.600 kr.

Það eru tvær reglur sem gilda um atvinnutekjur. Eldri reglan er að 1 / 12 af árstekjum hefur áhrif á hvern mánuð fyrir sig, óháð því hvenær innan almanaskársin teknanna er aflað. Þessi regla á einnig við aðrar tekjur en atvinnutekjur. Nýja regla er að atvinnutekjur hafi einungis áhrif á réttindi í þeim mánuði sem þeim er aflað.

Ef tekjur breytast hjá einstaklingi þá þarf hann að breyta tekjuáætlun sinni hjá TR. Breytingin tekur 4 til 6 vikur og gildir leiðréttingin aftur í tímann frá áramótum.

Uppgjör örorkulífeyris frá Tryggingastofnun er í lok júlí ár hvert og skal TR beita þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslu.

Hvaða áhrif hefur það á bætur ef ég giftist?

Heimilisuppbót er einungis greidd til þeirra sem búa einir. Ef viðkomandi er í leiguíbúð heldur hann húsaleigubótum á tekjulegum forsendum en ef maki fær tekjur minnka húsaleigubæturnar. Tryggingastofnun fær upplýsingar um breytta hjúskaparstöðu hjá Þjóðskrá.

Lífeyrissjóður

Á heimasíðu Landssamtaka Lífeyrissjóða má finna ýmsar upplýsingar um réttindi og fræðslu.

Tekjur sem hafa skerðingaráhrif á örorkulífeyri eru t.d.:

  • Atvinnutekjur
  • Leigutekjur
  • Fjármagnstekjur þ.e. tekjur af fjármagnseign t.d. vextir, verðbætur og arður, ekki er átt við eignina sjálfa. 

Skattfrjáls happdrættisvinningur eða lottóvinningur hefur ekki  áhrif á örorkubætur sem slíkur, en ef vinningurinn er lagður inn í banka geta vextirnir haft áhrif, þ.e. ef vextirnir af vinningnum (fjármagnstekjur) fara yfir 98.640 kr. á ári.

  • Þeir sem eru með það háar aðrar tekjur að þeir eiga ekki rétt á lífeyrisgreiðslum fá örorkuskírteini og geta fengið  þá afslætti sem fólk með örorkuskírteini fær.   

Annar lífeyrir, styrkir og bætur 

Barnalífeyrir
  • Upplýsingar um barnalífeyri. Barnalífeyrir er ekki greiddur vegna stjúpbarna en er greiddur vegna ættleiddra barna. 
  • Umsókn um barnalífeyri
  • Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi. Séu báðir foreldrar látnir eða örorkulífeyrisþegar skal greiddur tvöfaldur barnalífeyrir (20. grein laga um almannatryggingar). Barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, séu þau á framfæri þeirra, eða þeim sem annast framfærslu þeirra að fullu. 
    Séu báðir foreldrar öryrkjar en fráskilin þá fær sá aðili sem er með skráð forræði barnalífeyri greiddan en barnalífeyrir hins aðilans gengur upp í meðlagsgreiðslur. Sé ekki greitt meðlag fær einungis sá aðili sem er með barnið skráð til heimilis greiðslur barnalífeyris
  • Barnalífeyrir er ekki tekjutengdur.
      
    Ef barn er milli 18 - 20 ára og er í skóla eða starfsnámi er heimild til að greiða barnalífeyri en eingöngu er einfaldur lífeyrir greiddur þó báðir foreldrar séu lífeyrisþegar eða látnir (reglugerð 140/2006)
  • Andlát foreldris. Barnalífeyrir er greiddur með hverju barni undir 18 ára aldri sem var á framfæri hins látna.
Heilbrigðisþjónusta

Greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga sér til þess að einstaklingar greiða ekki meira en ákveðna hámarksfjárhæð í hverjum mánuði fyrir heilbrigðisþjónustu.

Einstaklingar geta skoðað greiðslustöðu sína í Réttindagátt Sjúkratrygginga.

Öryrkjar sem eru með háan heilbrigðiskostnað eiga rétt á niðurgreiðslu.

Tannlækningar - ódýr tannlæknaþjónusta

Tannlæknadeild Háskóla Íslands býður almenningi (börnum og fullorðnum) upp á ódýra tannlæknaþjónustu. Örykjar, aldraðir og börn þurfa ekki að greiða fyrir þjónustu hjá tannlæknadeild Háskóla Íslands
Nánari upplýsingar og tímapantanir eru í síma 525- 4850.

Sjúkratryggingar Íslands  greiða upp undir 95% af gjaldskrá tannlækna ef um alvarleg tilvik er að ræða (t.d. klofin vör, tannvöntun 4 stk fyrir framan endajaxl, kjálkaaðgerð).  

Einstaka stéttarfélag veitir félagsmönnum sínum styrki til tannréttinga barna. 

Félagsþjónustan í Reykjavík veitir ekki styrki til tannréttinga. 

Athugið að í sumum tilfellum (þegar ekki er hægt að sækja um niðurgreiðslu annars staðar) er hægt að sækja um lækkun á skattstofni (ívilnun) vegna mikils lækniskostnaðar/tannlæknakostnaðar, því meiri upplýsingar sem fylgja því betra. Sjá nánari upplýsingar á vef Ríkisskattstjóra.

Maka- og umönnunarbætur

Einstaklingur sem annast maka sinn og er frá vinnu vegna þess getur óskað eftir maka/-og umönnunarbótum svo framarlega sem hann hefur sama lögheimili og sá sem annast er um, er ekki með lífeyri frá Tryggingastofnun og er ekki yfir ákveðnum tekju- og eignamörkum.

Meðlag - auka framlög

Ef eitthvað sérstakt er framundan,  t.d. skírn, ferming, tannlækningar  eða annað, er hægt að sækja um viðbótargreiðslur vegna sérstakra útgjalda. Það þarf að liggja fyrir úrskurður sýslumanns eða staðfestur samningur um greiðslurnar til að greiðslur geti hafist
Sýslumaður getur einnig úrskurðað að föður barns beri að greiða móður þess framfærslueyri í þrjá mánuði í kringum fæðingu barnsins ef sérstaklega stendur á. Veikist móðirin vegna meðgöngu eða fæðingar má úrskurða að föður beri að greiða framfærslueyri í allt að níu mánuði. 
Nánar um sérstök framlög á vef sýslumanna 
Sótt er um sérstakt framlag á Mínum síðum (TR)

Ráðstöfunarfé

Einstaklingar sem búa á dvalar- eða hjúkrunarheimilum eiga rétt á ráðstöfunarfé, en ekki þarf að sækja sérstaklega um það. Ráðstöfunarfé er tekjutengt og koma 65% af tekjum til lækkunar á því. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu TR

Vinnusamningur öryrkja

Vinnumálastofnun annast vinnusamninga öryrkja. 
Nánari upplýsingar um vinnusamning öryrkja má finna undir Atvinna og menntun

Við 18 ára aldur - að breytast úr fötluðu barni í öryrkja

Þegar sótt er um örorkulífeyri á mínum síðum á vef Tryggingarstofnunar þarf að fylgja læknisvottorð með lýsingu á fötlun barnsins/einstaklingsins. Geti einstaklingurinn ekki skrifað undir umsóknina sjálfur t.d. sökum fötlunar, er foreldrum ráðlagt að sækja um tímanlega þannig að öruggt sé að unnið sé í umsókninni fyrir 18 ára afmælisdag viðkomandi. Efst á síðunni má finna nánari upplýsingar um hvernig sækja skal um örorkulífeyri.

  • Við 18 ára aldur verður einstaklingur lögráða sem þýðir að hann verður sjálfráða og flytjast þá öll gögn hans sem voru áður á nafni foreldra yfir á hans nafn. Í sumum tilfellum geta foreldrar ekki kvittað sjálfir fyrir hönd barnsins en þá getur réttindagæslumaður aðstoðað.
  • Stofna þarf bankareikning í nafni einstaklingsins, sé slíkur reikningur ekki til staðar, til að taka við greiðslum frá TR. Ef búinn er til bankareikningur fyrir 18 ára aldur getur foreldri kvittað fyrir honum. Stundum hafa verið búnir til stimplar fyrir einstaklinga sem geta ekki skrifað.
  • Önnur þjónusta, eins og liðveisla og sjúkraþjálfun, ætti ekki að breytast við 18 ára aldur.

Til foreldra

  • Ef umönnun barna er mjög þung er hægt að óska eftir umönnunargreiðslum með umsókn um örorku.  Til að fá þær greiðslur þarf að sýna fram á tekjumissi vegna fötlunar barns sem er heima eftir 18 ára aldur, það er að foreldri geti ekki unnið fullan vinnudag. 
  • Hægt er að óska eftir lækkun tekjuskattsstofns á skattayfirliti samkv. 65. grein skattalaga vegna fatlaðs barns sem býr enn heima eftir 18 ára, sé mikill kostnaður tengdur fötlun þess. Til að sækja um lækkun er fyllt út eyðublað 3.05 umsókn um lækkun
  • Óski foreldrar eftir því getur barn þeirra  verið á umönnunargreiðslum til 20 ára aldurs ef það býr heima og fer þá ekki á örorku.  Þetta gæti hentað foreldrum sem eru sjálfir með örorku því að auknar tekjur inn á heimilið geta skert örorkugreiðslur til foreldra.
  • Umönnunargreiðslur má ekki greiða úr landi og falla því umönnunargreiðslur niður ef foreldrar/barn flytja erlendis.
Styrkir til námsgagnakaupa og fyrir skólagjöldum

Mörg sveitafélög bjóða upp á styrki fyrir skólagjöldum og til námsgagnakaupa. Er styrkurinn veittur einstaklingum sem eru 18 ára og eldri og eru fatlaðir í skilningi laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.

Með umsókn þurfa að fylgja kvittanir fyrir kaupum á námsgögnum eða fyrir skólagjöldum.

Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðum sveitafélaganna eða hjá félagsráðgjöfum.

Lækkun á skrásetningagjöldum - Háskóli Íslands

Samkvæmt reglum um gjaldskrá Háskóla Íslands vegna þjónustu við nemendur o.fl., og innheimtu og ráðstöfun skrásetningargjalds, nr. 244/2014 geta nemendur sem búa við örorku eða fötlun og hafa örorkuskírteini eða ­endurhæfingar­lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins fengið lækkað skrásetningargjald nemenda sem kr. 55.000. Er sú upphæð miðuð við fasta krónutölu og er óháð því hvort nemendur eru skráðir í heilt eða hálft háskólaár.

Hægt er að hafa samband við Nemendaskrá Háskóla Íslands og óska eftir lækkun á skólagjöldum. Nauðsynlegt er að sýna staðfestingu á örorku eða ­endurhæfingar­lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.

Styrkir til náms og námskeiða - ERASMUS+

Erasmus+ áætlunin leggur áherslu á inngildingu og eitt af markmiðum hennar er að öllum séu tryggðir jafnir möguleikar á þátttöku í verkefnum sem þeir styrkja óháð aldri.

Erasmus+ styrkir verkefni sem stuðla að jöfnum tækifærum og fjölbreytni í samfélaginu. Með þetta markmið að leiðarljósi býður áætlunin upp á aukalegan fjárhagsstuðning til jafnrar þátttöku allra í verkefnum erlendis og hérlendis. Til dæmis er boðið upp á viðbótarstyrki vegna aðstoðarmanna eða annarrar aðlögunar sem nauðsynlegt getur verið að gera.

Hægt er að hafa samband við Erasmus+ fyrir frekari upplýsingar.

Við 67 ára aldur - að breytast úr öryrkja í ellilífeyrisþega

Þegar öryrkjar ná 67 ára aldri hætta þeir að fá aldurstengda örorkuuppbót og við tekur uppbót vegna framfærslu. Ennfremur lækkar tekjutrygging, sem bætt er upp með framfærsluuppbót og frítekjumörk og lífeyrissjóðstekjur lækka gagnvart atvinnutekjum. 

Þegar einstaklingar sem hafa fengið örorkulífeyrisgreiðslur (75% örorka) verða 67 ára þurfa þeir ekki að sækja sérstaklega um ellilífeyri en sækja þarf um allar aðrar bætur frá Tryggingastofnun. 
Best er að gera sér grein fyrir hvað gerist með því að skoða töflu um aldurstengda örorkuuppbót (2019) eða útreikninga á vefsíðu TR á lífeyri og tengdum bótum (2019).

Það breytist ekkert varðandi styrki til bifreiðakaupa við það að öryrki verður 67 ára. Ennþá er hægt að sækja um styrk og skila þarf inn hreyfihömlunarvottorði. Upphæðirnar eru þær sömu og fyrir örorkulífeyrisþega og hægt er að sækja um á 5 ára fresti.

Örorkustyrkur

Veittur er örorkustyrkur til einstaklinga sem eru metnir með 50 - 74% örorku  og eiga rétt á örorkustyrk. Örorkustyrkur er hugsaður fyrir einstaklinga á aldrinum 18-67 ára sem bera verulegan aukakostnað vegna örorku sinnar, t.d. vegna lyfja, læknishjálpar eða hjálpartækja. Örorkustyrkur er tekjutengdur og reiknast út frá tekjuáætlun. Skilyrði er að umsækjandi hafi verið búsettur á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert við flutning til landsins. Örorkustyrkur fyrir fólk á aldrinum 18-61 árs getur hæstur verið 3/4 af fullum örorkulífeyri.

  • Fyrir fólk á aldrinum 62-67 ára er örorkustyrkur jafn hár örorkulífeyri.
  • Engar viðbótargreiðslur eru með örorkustyrk nema til þeirra sem hafa börn undir 18 ára á framfæri sínu. Viðbótin er 75% af barnalífeyri fyrir hvert barn.

Örorkustyrkur fellur niður ef :

  • Ef árstekjur fara yfir 8.234.565 kr. fyrir 18-61 árs eða 8.316.784 kr. fyrir 62-67 ára.
  • Þegar endurnýjað örorkumat er undir 50%.
  • Þegar einstaklingur verður 67 ára, því þá öðlast hann rétt til ellilífeyris og þarf að sækja sérstaklega um hann.
  • Ef endurnýjun á örorkumati berst of seint til TR fellur örorkustyrkur niður þar til nýtt örorkumat hefur verið afgreitt.
  • Ef búsetuskilyrði eru ekki uppfyllt.
  • Upplýsingar um örorkustyrk

Örorkulífeyrir og dvöl erlendis

Búferlaflutningar

Ef öryrki hyggst flytja til útlanda þarf að láta TR vita tímanlega um nýtt lögheimili  (þ.e. fullt heimilisfang) því annars stöðvast greiðslur.  

Samkvæmt vefsíðu TR halda elli- og örorkulífeyrisþegar sem eru búsettir í öðru EES landi, Bretlandi og Sviss rétti sínum til lífeyrisgreiðslna almannatrygginga. Þetta á þó ekki við um ýmis konar uppbætur og greiðslur skv. lögum um félagslega aðstoð. Sömu aðilar eiga einnig að fá sjúkratryggingavottorð S1 hjá Sjúkratryggingum Íslands og framvísa því við skráningu hjá tryggingastofnun í nýja búsetulandinu. S1 vottorðið á ekki að þurfa ef flutt er til Norðurlandanna. Athugið að þeir sem eiga rétt á því að fá S1 vottorðið verða að vera EES borgarar, vera lífeyrisþegar á Íslandi og eiga ekki rétt á lífeyri í því landi sem flutt er til.

Afgreiðslutími umsókna er þrjár til fjórar vikur.

S1 vottorðið gildir ekki fyrir eftirfarandi:

  • Heilbrigðisþjónustu sem veitt er utan opinbera kerfis búsetulands
  • Heimflutningur til Íslands (sérreglur gilda um Norðurlönd)

Algengt er að einstaklingar kaupi á sinn kostnað einkatryggingar sem veita þann rétt

Hægt er að hafa samband með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected] eða í síma 515-0002.

  • Upplýsingar um búferlaflutning lífeyrisþega til EES lands. Þeir einstaklingar sem eru þegar búsettir erlendis í EES landi er þeir ná lífeyrisaldri eða verða öryrkjar þurfa að snúa sér til tryggingastofnunar í viðkomandi landi til að sækja um lífeyrisgreiðslur. Ekki hefur verið gerður samningur um almannatryggingar við öll lönd og við brottflutning til þeirra landa falla greiðslur almannatrygginga niður.  

Hjá Fjölmenningarsetri má finna almennar upplýsingar um hvað þarf að gera þegar flutt er frá Íslandi.

Upplýsingar fyrir fólk sem flyst til Norðurlanda

Norden.org/is - er ætlað að aðstoða norræna borgara við að nýta sér þjónustu og tilboð sem norrænt samstarf býður.  Á síðunni má einnig finna upplýsingar um þjónustu við fatlaða sem vilja flytja til annars norræns lands. Halló Norðurlönd er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefnadarinnar fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

Upplýsingasíður fyrir fólk sem flyst til landa innan Evrópusambandsins (ESB):

Þín Evrópa - Veitir gagnlegar upplýsingar um réttindi og tækifæri innan ESB

Ráðgjafarsíða fyrir fyrirtæki - Veitir margvíslegar upplýsingar um rekstur fyrirtækja innan ESB. 

Upplýsingar fyrir fólk sem flyst til landa utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES)

Samkvæmt vef TR falla lífeyrisgreiðslur almennt niður við flutning til lands utan EES, frá 1.degi næsta mánaðar eftir að tilkynning kemur um lögheimilisbreytingu frá Þjóðskrá.Ef viðkomandi flytur aftur til landsins er 3ja ára biðtími.
Sérreglur gilda þó um flutning til Bandaríkjanna eða Kanada.
Ef öryrki flytur til Bandaríkjanna fær hann eingöngu greiddan örorkulífeyri og tekjutryggingu, ekki aldurstengda örorkuuppbót.
Ef flutt er til Kanada er eingöngu greiddur örorkulífeyrir, ekki aldurstengd örorkuuppbót eða tekjutrygging.
Einnig er samningur við Sviss,þannig að réttindi haldast svipuð og ef flutt er innan EES.

Einnig kemur fram að tryggingavernd almannatrygginga á Íslandi fellur almennt niður við brottflutning til landa sem enginn samningur hefur verið gerður við um almannatryggingar. Þó er hægt að halda tryggingavernd á Ísland ef um tímabundin störf er að ræða á vegum vinnuveitanda hér á landi.

Dvöl erlendis í atvinnuskyni

Á vef TR má sjá að mismunandi reglur gilda eftir því í hvaða landi er starfað.

Innan EES svæðisins kveða almannatryggingareglur EES samningsins á um það undir hvaða almannatryggingalöggjöf launþeginn eða hinn sjálfstætt starfandi fellur. Einstaklingar sem dvelja í atvinnuskyni á EES svæðinu eiga einnig að fá sjúkratryggingavottorð S1 (hét áður E121) hjá Tryggingastofnun og framvísa því við skráningu hjá tryggingastofnun í nýja búsetulandinu. S1 vottorðið er ekki notað ef flutt er til Norðurlandanna. 

Tímabundin dvöl erlendis

Flestir þeir sem dvelja tímabundið í öðru landi skipta ekki um lögheimili og halda því tryggingavernd hér á landi samkvæmt heimasíðu TR. Undantekningar eru t.d. námsmenn sem fara til Norðurlanda. 

Vinna í tveimur eða fleiri löndum til skiptis eða samtímis

Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér