Á Íslandi er skylduaðild að lífeyrissjóðum frá 16 ára aldri til sjötugs. Ávinningur af því að greiða í lífeyrissjóð er ellilífeyrir til æviloka, örorku- og barnalífeyrir ef sjóðfélagi missir starfsgetu, maka- og barnalífeyrir til maka og barna við fráfall sjóðfélaga auk möguleika á hagstæðum lánum.
Landssamtök lífeyrissjóða eru heildarsamtök lífeyrissjóða sem hlotið hafa starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 129/1997.
Landssamtökin uppfæra skrá yfir alla þá sem hafa greitt til lífeyrissjóða tvisvar á ári þar sem kemur fram til hvaða lífeyrissjóða einstaklingur hefur greitt og hvenær síðast var greitt til viðkomandi sjóða. Flestir lífeyrissjóðirnir hafa gert með sér samkomulag sem kemur í veg fyrir að réttindi einstaklinga glatist auk þess sem kveðið er á um flutning iðgjalda milli sjóða þegar kemur að lífeyristöku.
Sjá nánar um lífeyrissjóði á vefsíðu Landssamtakanna.
Á vef Landssamtaka lífeyrissjóða má finna upplýsingar um réttindi lífeyrissjóðsfélaga sem geta verið misjöfn eftir lífeyrissjóðum þó lög um lífeyrissjóði tryggi lágmarkstryggingavernd.
Greiðslur frá lífeyrissjóðum geta skert grunnlífeyri almannatrygginga, en ef þú átt lítil lífeyrisréttindi hjá lífeyrissjóðum gætir þú átt rétt á tekjutryggingu og öðrum bótum frá Tryggingastofnun ríkisins. Samspil almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóðanna getur þó verið talsvert flókið, þar sem lífeyrisgreiðslur, tekjur maka og fjármagnstekjur geta skert bætur almannatrygginga. Ef þú ert í vafa hvernig þinn lífeyrissjóður hefur áhrif á réttindi þín hjá Tryggingarstofnun Ríkisins, leitaðu til ráðgjafa þar.
Samkvæmt vef Landssamtaka lífeyrissjóða getur þú átt rétt á bótum ef þú hefur orðið fyrir slysi eða sjúkdómi sem dregur úr starfsgetu þinni og veldur tekjuskerðingu. Skilyrðin eru þau að starfið sem þú stundaðir hafi veitt þér aðild að viðkomandi lífeyrissjóði og að þú hafir sannanlega orðið fyrir tekjumissi. Miðað er almennt við að starfsorkumissir sé a.m.k. 50% (hjá sumum sjóðum 40%) og að greitt hafi verið í lífeyrissjóð í tvö ár eða lengur. Eftir þrjú ár er kannað hvort sjóðfélaginn sé vinnufær til allra almennra starfa og falla bætur niður ef hann er fær um að vinna öll almenn störf.
Athuga ber að lífeyrissjóður getur gert þá kröfu til sjóðfélaga að hann fari í endurhæfingu og á það bæði við þegar sótt er um örorkulífeyri og við endurmat á starfsgetu hans. Hámark örorkulífeyrisgreiðslna miðast við tekjur fyrir orkutap. Búferlaflutningar hafa engin áhrif á greiðslur úr lífeyrissjóðum.
Fari einstaklingur sem fær örorkulífeyri greiddan frá lífeyrissjóði að vinna getur það haft áhrif á lífeyrisgreiðslur. Hjá mörgum lífeyrissjóðum er gerð tekjuathugun hjá einstaklingnum um það bil 4 sinnum á ári. Ef örorkulífeyrisþeginn er kominn yfir sínar viðmiðunartekjur (þ.e. tekjur 3 - 4 ár fyrir orkutap) geta greiðslur skerðst eða fallið niður.
Einstaklingur sem hefur fengið skertan örorkulífeyri frá lífeyrissjóði sínum vegna vinnu, en þarf svo að hætta vinnu og hefur þá lægri tekjur getur sent starfslokavottorð til lífeyrissjóðsins. Mál einstaklingsins er þá tekið fyrir og gæti hann þá átt aftur rétt á fullum lífeyrisgreiðslum frá sínum lífeyrissjóði.
Við andlát sjóðfélaga fær eftirlifandi maki greiddan óskertan makalífeyri í að minnsta kosti tvö ár eða þar til yngsta barnið hefur náð 18 ára aldri ef eftirlifandi maki hefur börn undir 18 ára á framfæri sínu. Hjá sumum lífeyrissjóðum er makalífeyrir greiddur lengur. Ef eftirlifandi maki er öryrki við andlát sjóðfélaga og yngri en 67 ára er óskertur makalífeyrir greiddur á meðan örorkan varir. Makalífeyrir fellur niður ef makinn gengur í hjónaband á ný eða stofnar til sambúðar.
Samkvæmt vef Landssamtaka lífeyrissjóða borgar sig að nýta sér réttindi sín varðandi viðbótar lífeyrissparnað sem felst í því að launagreiðendur greiða 2% af launum starfsmanna sinna sem mótframlag við viðbótarlífeyrissparnað þeirra, enda sé framlag launamanns a.m.k. 2%. Slíkur viðbótarsparnaður stuðlar að betri hag eftir starfslok og getur auðveldað fólki að hætta að vinna fyrir sjötugt. Einnig er hægt að nota hann ef alvarleg slys eða veikindi skerða starfsorku.
Iðgjöld sem greidd eru í lífeyrissjóð eru ekki skattlögð þar sem þau eru dregin frá skattskyldum tekjum áður en tekjuskattur er reiknaður. Þar sem þessar tekjur hafa því ekki verið skattlagðar er útgreiddur lífeyrir skattlagður eins og hverjar aðrar vinnutekjur en lífeyrisþegar geta nýtt sér persónuafslátt til að lækka skattana. En þegar fólk tekur út séreign sína þarf að greiða af henni tekjuskatt.
Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja.
Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér