Sjálfsbjargarfólk í sjónvarpinu!

Þátturinn ,,Dagur í lífi'' sýnir frá degi og lífi venjulegs fólks með mismunandi fatlanir. Nokkrar átta þátta seríur hafa verið framleiddar og hefur áhorf verið gott á allar þáttaraðir. Þáttunum er ætlað að auka skilning almennings á ýmsum áskorunum sem fólk með sýnilegar og ósýnilegar fatlanir tekst á við, og breyta viðhorfum. Í þáttunum sem nú eru sýndir, koma fram þrír frábærir félagar í þremur þáttum. Fylgst er með ungri konu, Bjarneyju Guðrúnu Jónsdóttur, frá Akureyri sem stundar nám í Mílanó á Ítalíu og rætt við Jón Heiðar Jónsson varaformann Sjálfsbjargar lsh. sem kom fram í þættinum með dóttur sinni Bjarneyju.

Í kvöld verður Hanna Kristleifsdóttir gestur þáttarins en hún hefur tekið virkan þátt í starfi Sjálfsbjargar hér á höfuðborgarsvæðinu og var í stjórn landssambandsins á síðasta tímabili. Björn Elí Jörgensen Víðisson sagði sögu sína í síðasta þætti en hann naut þá endurhæfingar hjá Kjarki endurhæfingu sem er starfrækt af Sjálfsbjörg í Sjálfsbjargarhúsinu Hátúni 12. Þar fær margt fólk frábæra leiðsögn og stuðning til að takast á við breytingar í lífi og limum, og komast út í lífið aftur sem þátttakandi og ekki síst stjórnandi í eigin lífi.

Hvetjum öll til að horfa!

Fleiri fréttir