Sjálfsbjörg býður félagsfólki á námskeið tengd andlegri líðan, samskiptum, næringu fyrir hreyfihamlaða og hreyfingu, á fyrstu vikum ársins.
Fyrstu tveir fyrirlestrarnir eru á höndum Samskiptamiðstöðvarinnar og verða í janúar. Íris Eik Ólafsdóttir félagsráðgjafi fjallar um samskipti í fjölskyldum eftir slys eða veikindi og svo samskipti í parasambandi. Fyrri fyrirlesturinn verður 14. janúar nk og hefst kl. 15.00 Sá seinni verður 21. janúar kl. 15.00.
Nauðsynlegt er að fólk skrái sig á fyrirlestrana með því að senda tölvupóst á [email protected] eða hringja í síma 550 0360. Vinsamlegast setjið hvaða Sjálfsbjargarfélagi þið tilheyrið í skráninguna. Viðkomandi fær sendan fundarhlekk. Fyrirlestrarnir eru félagsfólki að kostnaðarlausu.
14.janúar kl. 15 - Fyrirlestur fyrir fjölskyldur eftir slys eða veikindi
Þegar einstaklingur lendir í slysi eða alvarlegum veikindum hefur það áhrif á alla fjölskylduna. Slík reynsla er áfall bæði fyrir þann sem veikist eða slasast og aðstandendur, og raskað jafnvægi, hlutverkum og samskiptum innan fjölskyldunnar. Fjallað verður um hvernig áföll birtast hjá fjölskyldum og hvernig streita, sorg, óvissa og ótti geta haft áhrif
á tilfinningar, hegðun og tengsl. Lögð er áhersla á fjölskylduna sem heild, þar sem breytingar hjá einum fjölskyldumeðlim hefur áhrif á alla. Rætt verður um mikilvægi tengsla, samskipta og samstöðu, sem og hvernig hægt er að styrkja seiglu, sjálfsumhyggju o gagnkvæman stuðning. Markmið námskeiðsins er að auka skilning, veita hagnýt verkfæri og styðja við heilbrigð samskipti og bataferli fjölskyldunnar í heild.
21. janúar kl 15 - Fyrirlestur fyrir pör eftir slys eða veikindi
Þegar afleiðingar slyss eða veikindi verða hluti af lífi pars hefur það áhrif á sambandið í heild. Slík reynsla hefur áhrif á tilfinningar, samskipti, nánd og hlutverk innan sambandsins. Fjallað verður um algeng viðbrögð einstaklinga í parsambandi við áföllum, hvernig ótti, sorg, reiði eða fjarlægð geta komið fram og hvers vegna slík viðbrögð eru eðlileg í ljósi aðstæðna. Lögð er áhersla á sambandið sem síbreytilegt ferli þar sem áfallið snertir báða aðila, þó á ólíkan hátt. Rætt verður um mikilvægi öruggra tengsla, opins samtals og gagnkvæms skilnings, sem og hvernig hægt er að styrkja seiglu, nánd og samvinnu í kjölfar áfalls. Markmið námskeiðsins er að styðja pör í að takast á við breyttar aðstæður, efla tengsl og finna leiðir áfram saman. Mælt er með því að par hlusti saman á fyrirlesturinn og ræði um efni hans eftir á með það i huga hvaða verkfæri þau gætu hugsað sér að nýta.
Í febrúar verður námskeið um næringu hreyfihamlaðra og í mars fyrirlestrar um hreyfingu og sárameðferðir.