Staðsetning og hvað er í nágrenninu.

Fjölskylduhúsið er í byggðakjarnanum í Reykholts í Biskupstungum (sjá kort) og er því sérlega vel staðsett á Suðurlandi og stutt í nauðsynlega þjónustu og margvíslega afþreyingu og vinsæla ferðamannastaði. Hér í bæjarkjarnanum er verslunin Bjarnabúð, og jafnframt er Landsbankinn með útibú í sama húsi. Við verslunina er bensínstöð. Þá er hérna Reykholtslaug, skóli, leikskóli, Aratunga (það fræga sveitaballhús), urmull af gróðurhúsum sem flest hver selja varning sinn á sumrin í og við stöðvarnar.

Friðheimar er landskunn gróðurstöð þar sem er hægt að kaupa veitingar í gróðurhúsinu (m.a. frábæra tómatsúpu og heimabakað brauð) en þau eru líka með hestasýningar og kynna þær á mörgum tungumálum og selja jafnframt allskonar varning úr tómötum.  Hestagallerí er starfandi á sumrin í hesthúsahverfinu,  og þegar fáni er að húni er opið. Kaffi Mika er mjög vinsæll veitingastaður að baki Bjarnabúðar og þar að baki er gott tjaldsvæði þar sem stórfjölskyldar getur líka dvalið. Hið sögufræga setur Skálholt er í nágrenninu ásamt Skálholtsdómkirkju. Í Laugarási er heilsugæsla, margar gróðrastöðvar sem selja varning í og við stöðvarnar. Dýragarðurinn Slakki er jafnframt með veitingarekstur og þar má finna margt skemmtilegt fyrir börnin að gera – þar er opið snemma vors til haust. Á Engi er völundargarður, m.a. berfættastígur og á sumrin er þar markaður með lífrænt grænmeti  og kryddjurtir.

Á Geysi er hinn heimsfrægi Geysir auðvitað og þar er hótel, veitingarekstur, verslun, og golfvöllur. Í Haukadalsskógi eru flottar gönguleiðir og þar eru m.a. stígar gerðir fyrir hjólastóla. Síðan er ómissandi að skoða Gullfoss, frægasta foss landsins og einn hinn fegurstaMilli Geysis og Gullfoss er hestaleiga , pöbb er á Skjóli og tjaldsvæðiHandverksmarkaður er  í Skálanum, Gullfoss, Brúarhlöð.

Í Úthlíð er sundlaug, veitingar, hestaleiga og golfvöllur. Í Efstadal í Laugardal er rekin veitingasala í fjósi, hestaleiga og gisting  Svofossinn Faxi  í næsta nágrenni og Tungnaréttir þar sem er tjaldsvæði og veitingarhúsið Við Faxa .

Í Hrunamannahreppi er bæjarkjarninn Flúðir þar sem finna má verslun, vínbúð, sundlaug, markaði, veitingahús, bensínsölu, golfvöll, fótboltagolf, og Flúðasveppir sem eru með veitingastað og bjóða uppá sveppasúpu vel úti látna, og margt fleira.  Stutt er á LaugavatnÞingvöll, Stöng, Hjálparfoss, Háafoss,  Gjánna, Kerið og fleira áhugavert.

Hægt væri að telja upp meira sem er í nágreninu en látið er staðar numið hér. Hægt er að fá staðarbækling í verslunum á svæðunum sem lýsa öllu sem er í boði í nágrenninu. Í Fjölskylduhúsinu er stórt landakort uppi á vegg þar sem finna má helstu staði á Suðurlandi. Njótið dvalarinnar í Fjölskylduhúsi Sjálfsbjargar og verið dugleg að skoða nágrennið vel og eigið góðar stundir.

Gestir þurfa að hafa með sér: Sængurfatnað þó ekki lök (sængur og koddar eru til staðar fyrir 7), allar sápur, uppþvottaklúta, og handklæði.

 

Svefnherbergi I: 2 sjálfstæð sjúkrarúm (stærð 90×200 cm)

Svefnherbergi II: 2 rúm (stærð 90×200 cm) + ferðabarnarúm (60×120 cm)

Svefnherbergi III: 3 rúm (1 stk. stærð 90×200 cm – 2 stk. 120×200 cm sem tveir geta sofið í)

Fjöldi svefnrýma: allt að 7-9 manns í rúmstæðum í svefnherbergjum – svefnsófi er síðan í holi – barnaferðarúm er til staðar  (geymt í bílskúrnum) og hafa einstaka hópar bætt við dýnum.

Baðherbergi/salerni: 3

Baðherbergi I: Gestasalerni við aðalinngang (salerni hæð frá gólfi 48.5 cm og vaskur).

Baðherbergi II: Salerni (hæð frá gólfi  45.5 cm – sturtutæki og armstoðir við salerni), vaskur aðgengilegur sem og sturtan.

Baðherbergi III: við útgang á sólpall, salerni (hæð frá gólfi 43 cm), vaskur (aðgengilegur) og aðgengileg sturta.

Eldhús: þar er helluborð, háfur, ofn, ísskápur, örbylgjuofn, uppþvottavél, brauðrist, kaffivél, vatnsketill, vöfflujárn, pönnukökupanna, hnífapör og borðbúnaður fyrir 18 manns og annar almennur eldhúsbúnaður (útigasgrill).

Borðstofa: Stórt borðstofuborð er rúmar vel 10 manns (auk 2 felliborða í geymslu sem má bæta við).

Stofa: Björt stofa, sófi er tekur 4 og hægindastóll (með lyftibúnaði), gott 55 tommu sjónvarp – bogið.

Hol: Sófi er tekur 2 í sæti (má líka sofa í – lyfta endum upp og svo niður), stórt kort af Íslandi á vegg.

Þvottahús: Til staðar er þvottavél og þurrkari, vaskur og þurrkaðstaða.

Bílskúr og bílaplan: Þetta er 40 fermetra bílskúr sem keyra má inní. Skábraut er upp í íbúðarhluta hússins. Plan fyrir utan húsið er upphitað ásamt hallandi stétt upp að útidyrum. Stæði eru fyrir utan hús fyrir 4-5 bíla. Til að opna stóru hurðina þarf að fara inn í bílskúrinn (með útihurðarlykli sem er í lyklaboxi) og opna þar með hurðaropnara (er hægra megin þegar inn er komið).

Sólpallur: Stór sólpallur er við húsið aftanvert. Þar er útigasgrill, útihúsgögn (borð og 4 stólar – auk 4 sólstóla sem eru geymdir inni), og mjög góður heitur pottur með nuddi og lýsingu.

Afþreying: Á staðnum er eitthvað af bókum á íslensku og ensku, spilum, fótboltaspil íbílskúr (bobborð undir fótboltaspilinu), 55 tommu bogið sjónvarp, og netaðgangur með ótakmörkuðu niðurhali.

Sér útbúnaður fyrir hreyfihamlaða:

 • Upphituð innkeyrsla og upphituð hallandi stétt að útidyrum.
 • Unnt að keyra inn í rúmgóðan bílskúr og fara þaðan eftir skábraut inn í húsið.
 • Aðgengilegur sólpallur. Þar er heitur pottur með nuddi sem er sérstaklega útbúinn svo hreyfihamlaðir eigi auðvelt með að fara í hann (hæð frá palli er 50.5 cm). Upphitaðar hellur eru frá útidyrum baðherbergis III og að pottinum.
 • Tvö baðherbergi sem eru sérstaklega rúmgóð og bæði með aðgengilegri sturtuaðstöðu. Þrenn salerni eru í húsinu í sitt hverri hæðinni og eru armstoðir við eitt þeirra. Gert er ráð fyrir að einnig verði settar upp armstoðir í hitt baðherbergið fljótlega.
 • Vandaður sturtuhjólastóll fyrir hreyfihamlaða er til staðar og hækkanlegur sturtukollur.
 • Tvö sjúkrarúm eru í svefnherbergi I (stærðir 90×200 cm).
 • Hurð á ofni í eldhúsi opnast til hliðar sem auðveldar hjólastólanotendum að nýta hann og er útdraganleg plata undir.
 • Eldhúsborð, þar sem vaskur og helluborð er staðsett, er rafstýrt þannig að unnt er að stilla hæð þess og auðvelt að vinna á því fyrir hjólastólanotendur og aðra hreyfihamlaða (ef það stoppar þarf að fara með það í botnstöðu).
 • Háfur (gufugleypir) yfir helluborði er með fjarstýringu.
 • Hægindastóll í stofu með rafstýrðum lyftibúnaði.
 • Skúffur og skápar eru í þægilegri hæð fyrir hjólastólanotendur.
 • Öll rými inni eru vel rúm og aðgengileg.
 • Allt gólf inni er á einum fleti án þröskulda.
 • Allar hurðir eru extra breiðar (breidd 95 cm).
 • Sérstakur lyftari er til staðar sem nota má m.a. til að lyfta fólki í og úr rúmi, í og úr sturtustól, og í og úr heitum potti (þarf að hlaða batteríið fyrir notkun).

Reglur um útleiguna

 •  Lykill er í lyklaboxi sem er áfast innan á annarri súlunni fyrir framan útidyrnar. Fram kemur í leigjendamöppu hvar notkunarlykill er geymdur í húsinu. Lykilorð fyrir lyklaboxið kemur með netpósti til leigjanda áður en mætt er á staðinn. Eftir opnun skal setja opnunarlykilinn aftur í lyklaboxið, rugla síðan talnaröðinni og nota notkunarlykilinn sem er inni í húsinu meðan á dvöl stendur.
 • Athugið að útihurðin er með þriggja punkta læsingu og því þarf að lyfta fyrst upp hurðahúni og læsa svo – ef fólk er ekki vant svona læsingu getur þetta verið aðeins snúið fyrst.
 • Rusl er flokkað í þrjár ruslafötur sem eru í eldhúsinu: 1. Almennt rusl. 2. Plast. 3. Pappír og pappi.
 • Umbúðir utan af víni, vatni og gosi (dósir og flöskur með skilagjaldi) skal setja í sérstaka ruslafötu (með rauðu loki) sem er í bílskúrnum.
 • Reykingar eru stranglega bannaðar í húsinu.
 • Leigutakar þurfa að vera orðnir 25 ára, en unnt er að veita undanþágu frá því ef góð rök eru gefin.
 • Leigutaka er óheimilt að framselja samninginn nema með skriflegu samþykki Sjálfsbjargar lsh.
 • Hundahald er leyfilegt í húsinu en öll lausaganga er stranglega bönnuð utandyra og á svæðinu – það þarf að passa að taka upp allan hundasskít á lóðinni.
 • Greiða þarf leiguna innan viku eftir að leigan er samþykkt – ef ekki er vikan boðin öðrum og leigutími er ekki frátekinn.
 • Ef forföll eru tilkynnt með meira en mánaðar fyrirvara er leigan endurgreidd að fullu – en innan þess tíma aðeins ef unnt er að leigja hana öðrum á þessum tíma.
 • Húsið er inni í byggð og býr fjölskyldufólk í næstu húsum. Því er það krafa að þið sýnið nágrönnum okkar þá sjálfsögðu kurteisi og virðingu að vera ekki með hávaða og læti úti fyrir eða inni á venjulegum svefntímum fólks (milli kl. 23:00 og 07:00)!
 • Leigutaka ber að skila húsinu snyrtilegu eins og hann kom að því.
 • Leigutaki ber fulla ábyrgð á öllum skemmdum sem verða á húsmunum eða húsi meðan hann er með það á leigu og áskilur Sjálfsbjörg lsh. sér fullan rétt til að láta lagfæra skemmdir/tjón á kostnað leigutaka.
 • Athugið, á haustin og á veturna fara mýslur á kreik, enda eiga þær  líka heima í sveitinni. Og þegar kalt er í veðri reyna þær að skjótast inn í hlýjuna með öllum ráðum. Þess vegna þarft þú að passa upp á að hafa ekki opnar dyr, bæði þegar þú ert að bera inn farangur og líka meðan þú situr í heita pottinum.  Ef ég væri þú myndi ég líka loka dyrunum á bílnum meðan borið er í hann eða úr.  Nema þú viljir taka með þér gæludýr heim!

Til staðar í húsinu.                                    

Við höfum kappkostað að í húsinu sé nánast allt til alls sem þarf til að gera dvöl okkar gesta í Fjölskylduhúsinu sem þægilegasta. Margvísleg tæki og búnaður er til staðar sem talinn er upp annars staðar. Gott snjall sjónvarp er t.d. í stofu og opinn aðgangur er að internetinu með frjálsu niðurhali er innifalið í leigunni. Lykilorðið er í leigjendamöppunni. Húsið er sem sé afar vel búið búnaði og tækjum, en ef þið hafið ábendingu um e-h sem gott væri að hafa vinsamlegast skrifið það á blað og skiljið eftir hjá upplýsingamöppunni.

LAUSABÚNAÐUR SEM Á AÐ VERA Í FJÖLSKYLDUHÚSINU
Ausa, spaði og skeið (sett) 1 Kaffikanna 1 Sjúkrataska 1
Barnarúm ferða (Naskov) 1 Kaffistell 18 Skál minni (Lilly) 2
Barnatrappa í baðherbergi 1 Kaffivél 1 Skál stór (Lilly) grænar 2
Blómavasar 3 Kjöthnífar 16 Skálasett (Agata) 1
Borðlampar 7 Kjötmælir 1 Skóhorn stórt í anddyri 1
Borðstofustólar (svartir blandaðir) 6 Korkplattar 6 Skrælari 1
Brauðrist 1 Matarstell 18 Skurðarbretti 2
Dessertskálar 18 Morgunverðarbakki 2 Skæri 1
Dósaopnari 1 Mæliskeiðar 1 Sleif plast 1
Dýna í barnarúm (Plus F30) 1 Ostaskeri 1 Sleikja 1
Eggjabikarar – stál 8 Panna m loki (Fair cook 28 cm) 1 Sósuausa 1
Eggjaskeri 1 Pensill 1 Sósukönnur 2
Eldfast fat, stórt og lítið 2 Pizzuskeri 1 Sósupískari 1
Eldhúsrúllustandur 1 Pískari 1 Stálfat m. handföngum og grind) 1
Fiskispaði 1 Plastundirlag í skúffur 2 Steikarhnífur og gaffall 2
Gaskútar plast f grillið – plast 10 ltr 2 Pottaleppar 2 Tappatogari 1
Glerskálar millistærð 2 Pottasett (Juvi) 4 Tekanna 1
Glasaplattar – tré 14 Pottastandur 1 Tertuspaðar/hnífar 2
Glersköfur í sturtur 2 Pottur lítill 1 Uppþvottabursti 2
Glervasi Pattern Rose 2 Púðar 2 Útidyramotta (fyrir framan útidyr) 1
Glös fyrir börn í 4 litum 4 Pönnukökupanna 1 Vatnsglös 18
Grillbursti 1 Pönnukökuspaði 1 Vatnskanna 2
Grilltöng 1 Rafmagnsfjöltengi 2 Vatnsketill 1
Handhrærivél (Bosh) 1 Rifjárn 1 Viskustykki 4
Hliðarborð Sari 1 Ruslatunnur í eldhús – flokkun 3 Vínglös – f raut og hvítt 18
Hnífabrýni 1 Ruslatunna (rautt lok) f flöskur/dósir 1 Vöfflujárn 1
Hnífapör 18 Ryksuga (Domo) 1 Þurrkgrind í eldhús (Leifheit) 1
Hnífasett 4 Salatglerskálar stórar 2 Þurrkmotta (fyrir lítið uppvask) 1
Hvítlaukspressa 1 Salatskeiðar 2 Þvottaþurrkgrind 1
Íslandskort á krossvið 1 Salt og piparstaukar 1 Þvottakarfa 1
Ísskeið 1 Sigti lítið opg stórt 2

Ef eitthvað af framantöldum lausabúnaði vantar í húsið, þá vinsamlega komið upplýsingum um það til skrifstofu Sjálfsbjargar lsh á netfangið: sjalfsbjorg@sjalfsbjorg.is.

Fyrir smábarnið: Barnastóll með borðplötu, eitt ferðabarnarúm með dýnu (6ö-120 cm) – ekki lak, barnaþvottabali, og koppur er á staðnum.

 

Frágangur við brottför.

Mikilvægt er gestir skilji vel við húsið að lokinni dvöl – í sama eða betra ásigkomulagi og þið komuð að því, að innan sem utan. Hafið í huga að til að viðhalda gæðum hússins verður að ganga vel um það. Ef pera springur eða eitthvað smálegt er að og þú ert fær um að laga þá er það vel þegið, annars skaltu skrifa það niður og skilja minnismiða eftir hjá upplýsingamöppu við brottför. Ef  eitthvað er ábótavant með þrifin þarf að hafa samband strax við umsjónarmann sem heitir Sigríður í síma 868-6297.

Af gefnu tilefni viljum við biðja gesti sem finna hjá sér þörf til að breyta uppstillingu í stofunni (eða í öðrum rýmum) að laga það aftur til upprunalegs horfs áður en húsið er yfirgefið. Og passa uppá að sjónvarpið sé stillt á  Ríkissjónvarpið  til þess að næsti sem kemur í hús lendi ekki í vandræðum.

 • Gera góða yfirborðs hreingerningu í öllu húsinu.
 • Ganga frá öllum lausabúnaði þar sem hann var við komu.
 • Þurrka af öllum borðum, hillum og úr gluggakistum.
 • Þurrka kám af rúðum, speglum og húsgögnum sem komið hefur í dvölinni.
 • Hreinsa úr niðurfalli í sturtum eftir sig og sína. Þetta er mikilvægt, því ef það er ekki gert stíflast niðurföllin auðveldlega.
 • Uppþvottavélina á að skilja eftir hálfopna, hreina, tóma og slökkt á henni við brottför.
 • Þrífa helluborð, ofninn og örbylgjuofninn.
 • Ísskápur á að vera hreinn og tómur stilltur á medium eða á 3 eftir því sem við á.
 • Ruslafötur eiga að vera hreinar og tómar.
 • Allar gardínur eiga að vera dregnar niður þannig að ekki sjáist inn – en ekki láta þær liggja í gluggakistunum. Í stofunni eru gardínurnar dregnar fyrir.
 • Öll ljós þarf að slökkva inni í húsinu.
 • Ekki skilja borðstofustóla eftir uppi á borði.
 • Setjið alla lausamuni á sinn stað eins þeir voru er þið komuð.
 • Látið allar sængur og kodda liggja snyrtilega á hverju rúmi sem var notað.
 • Hrista upp í öllum púðum.

Úti:            

 • Þrífa heita pottinn og loka honum tryggilega og passa að það sé stillt á TÆMA.
 • Ganga frá útihúsgögnum.
 • Þrífa útigrillið og ganga frá því. Losa fitu sem rennur í box á grillinu til að minnka eldhættu. Henda rusli úr þeim ef þar er eitthvað sem ekki á að vera.

Að lokum:

 • Setja allt rusl í ruslatunnurnar sem eru við húsið – svört tunna = almennt sorp, blá tunna = pappír og pappi (vinsamlegast brjótið pappa saman áður en sett er í tunnuna), og græn tunna = plast.
 • Ganga frá lyklum eins og getið er um í leigjendabók sem er á staðnum. Ávallt muna að rugla tölunum þegar lyklaboxi er lokað.

Ýmsar notkunarleiðbeiningar.

 1. Sjónvarpið. Aðeins er hægt að ná RÚV, en þar sem um snjall sjónvarp er að ræða má tengja við tölvu og ná netsambandi t.d. til að horfa á Netflix (þá þarftu að muna/kunna lykilorðið þitt þar). Ef sjónvarpið dettur út má prófa að slá örygginu fyrir það út (taflan er í anddyrinu).
 2. Helluborðið. Um er að ræða snertistillingar og þarf ekki að útskýra stillingarnar frekar. Passið bara að slökkva alltaf á hellum þegar ekki er verið að nota þær. Barnalæsing er á hellunni og þarf að halda puttanum má “lyklinum” í smá stund svo helluborðið opnist.
 3. Gufugleypirinn. Kveikt er á gufugleypinum (háfinum) með fjarstýringu sem hangir á næstu hillu vinstra megin við háfinn (fjarstýringin er með segulstáli). Setja fjarstýringuna aftur á sinn stað og muna að slökkva.
 4. Uppþvottavélin. Kveikt er á takkanum fram á vélinni. Velja síðan prógramm (takki P) eftir því hvernig á að þvo. Til að setja vélina af stað er ýtt á takkann lengst til hægri þar sem þríhyrningurinn er og fer vélin þá af stað. Það dugar almennt hálf þvottatafla nema ef vélin er alveg full.
 5. Ísskápurinn. Þetta er ósköp venjulegur kæliskápur. Hann er stilltur á 3 og vinsamlegast haldið honum þar. Ef hellist niður í skápinn vinsamlegast þrífið það upp.
 6. Þvottavélin. Ekki er reiknað með miklum þvottum meðan á dvöl gesta stendur. Þó þarf stundum að þvo handklæði og fleira. Þvottaefni er til staðar og dugar ein skeið almennt á alla þvotta. Slökkvið á vélinni að lokinni notkun.
 7. Þurrkarinn. Þurrkarinn er við hlið þvottavélar. Hægt er að stilla hversu lengi á að þurrka. Slökkvið á vélinni að lokinni notkun.
 8. Frystiskápur. Lítil frystiskápur er staðsettur í geymsluherbergi þar sem geyma má t.d. ís og klaka og annað sem komið er með frosið. Passið að skápurinn lokist örugglega og ekki eiga við stillingar á honum. Ef eitthvað lekur í skúffurnar  vinsamlegast hreinsið það strax. Muna svo að tæma skápinn við brottför.
 9. Heitur pottur. Á sólpallinum er heitur pottur með nuddstútum og er lok yfir hann. Við notkun þarf að losa lokið og lyfta því síðan af pottinum. Lokið er létt og best að taka það alveg af og geyma á pallinum meðan verið er í pottinum. Vatnsslanga er úti hjá pallinum og gott að nota hana til að skola pottinn áður en hann er fylltur. Kveikt er á pottinum með veggstillingu (takka) sem staðsettur er á veggnum hægra megin við hurðina inn í þvottahúsið á pallinum í bílskúrnum. Aðeins þarf að snúa takkanum til hægri (réttsælis) og þá fyllist potturinn með heitu vatni (39°C). Mikilvægt er að, bæði þegar verið er að opna fyrir pottinn og loka, að þá þarf að heyrast tveir smellir – klikk-klikk. Síðan þarf bara að bíða eftir að potturinn fyllist. Eftir pottferð, vinsamlegast setja lokið yfir og reimið niður og slökkvið með því að snúa stillihnappinum til baka (rangsælis). Ekki er um neinar aðrar stillingar að ræða.
 10. Gasgrillið. Gasgrillið er geymt yfir sumartímann úti á sólpalli en á veturna í bílskúrnum. Fyrir notkun þarf að taka yfirbreiðsluna af og leggja til hliðar. Fyrst er grilllokið opnað. Kveikt er á grillinu með því að opna fyrir gasið á gaskútnum. Þá er kveikja með því að opna fyrir gasið út í brennara með einum stillihnappinum og kveikja síðan með kveikjaranum sem er vinstra megin á grillinu. Eftir að búið er að grilla er nauðsynlegt að fara yfir grillteinana með vírburstanum og leyfa svo grillinu að kólna vel áður en yfirbreiðslan er sett á aftur. Ef gaskútur tæmist er einn til vara inni í bílskúr. Ef báðir eru orðnir tómir þarf að fara með tóma í Bjarnabúð og ná í nýjan og er hann skrifaður á Sjálfsbjörg lsh.
 11. Netsambandið. Þráðlaust netsamband er í húsinu og er lykilorðið í leigjendabók. Jafnframt er innifalið í leigunni ótakmarkað niðurhal. Netsambandið getur verið eitthvað rokkandi og er ekkert við því að gera og símtal til umsjónaraðila skilar engu – prófa að taka rouderinn úr sambandi og tengja aftur..
 12. Pallhúsgögn. Á sumrin standa pallhúsgögn (borð og 4 stólar) úti á palli milli útleigu. Gangið vel um þau.
 13. Ruslatunnur. Við húsgaflinn handan bílskúrshurðar eru þrjár ruslatunnur sem ruslið er flokkað í – vinsamlegast tæmið inni-ruslafötur við brottför þangað. Svört tunna = almennt rusl, græn tunna = plast, blá tunna = pappír og pappi.

Af hverju Fjölskylduhús Sjálfsbjargar?

Markmiðið með kaupum Sjálfsbjargar landssambands hreyfihamlaðra á húsinu Kistuholti 19, Reykholti, og frágangi á því, var að skapa með því grundvöll fyrir hreyfihamlaða félaga og fjölskyldur þeirra að hittast utan þéttbýlis og að heiman. Stundum hafa fjölskylduböndin jafnvel gliðnað og með Fjölskylduhúsinu er tilvalið að styrkja böndin, hittast og dvelja saman á fallegum stað í glæsilegu orlofshúsi. Nú er tækifærið til að tengja meðlimi fjölskyldunnar saman á nýjan leik eða treysta böndin enn betur.

Því var ákveðið að fjárfesta ekki í hefðbundnu sumarhúsi úti í sveit heldur finna rúmgott hús á byggingarstigi og gera það þannig úr garði að allt aðgengi utan húss sem innan verði eins og best verður á kosið fyrir hreyfihamlað fólk. Jafnframt að það sé þannig staðsett (í byggðakjarna), að það sé vel aðgengilegt að því jafnt að vetri sem sumri. Útbúa það síðan þannig að allt sé rúmt og jafnframt huggulegt þannig að fólk getur verið saman með stærri hóp, eitthvað sem hefðbundin orlofshús bjóða ekki uppá. Til að byrja með verður húsið einvörðungu leigt út í viku í senn til félaga Sjálfsbjargar, en erlendir hreyfihamlaðir aðilar geta þó leigt húsið til styttri tíma (en greiða líka hærra leiguverð og fá meiri þjónustu). Nokkuð hefur borist af  fyrirspurnum frá erlendum fötluðum aðilum um aðgengilegt húsnæði fyrir hreyfihamlaða erlenda ferðamenn, en slíkt húsnæði er nánast hvergi fáanlegt.