Nokkrir punktar úr sögu Sjálfsbjargar

 

Fyrsta Sjálfsbjargarfélagið var stofnað á Siglufirði 9. júní 1958. Síðar á sama ári eru stofnuð Sjálfsbjargarfélög í Reykjavík, á Ísafirði, Akureyri og í Árnessýslu.

Fimm Sjálfsbjargarfélög stofna síðan með sér landssamband 4. júní 1959 í Reykjavík og kalla það Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra. Fyrsti formaður þess er Emil Andersen.

Síðar á árinu 1959 eru stofnuð Sjálfsbjargarfélög á Bolungarvík og í Vestmannaeyjum. Árið 1960 er stofnað Sjálfsbjargarfélag á Húsavík, árið 1961 á Suðurnesjum og árið 1962 á Sauðárkróki. Þá eru félögin innan landssambandsins orðin 10 að tölu.

  1. landsþing Sjálfsbjargar var haldið á Akureyri árið 1960 í eigin húsnæði félagsins, Bjargi. Samþykkt var  ályktun um að Erfðafjársjóður styrki framvegis byggingu vinnu- og félagsheimila öryrkja með lánafyrirgreiðslu. Bygging Sjálfsbjargarhússins var síðar fjármögnuð að stórum hluta með láni úr Erfðafjársjóði. Theodór A. Jónsson var kosinn formaður landssambandsins.

Öryrkjabandalag Íslands var stofnað árið 1961 að frumkvæði Ólafar Ríkarðsdóttur, ritara Sjálfsbjargar lsf. Stofnfélög auk Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra voru Blindrafélagið, Blindravinafélag Íslands, SÍBS, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra og Styrktarfélag vangefinna.

Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra gerist fullgildur aðili að norrænu samstarfi fatlaðra, Nordisk Handikap Förbund árið 1963. Á þessu ári var 5. ársþing landssambandsins haldið og við það tækifæri gáfu aðildarfélögin landssambandinu útskorinn fundarhamar úr fílabeini eftir Ríkarð Jónsson, myndhöggvara. Á hann var skorið merki samtakanna sem Ríkarður teiknaði og vísupartur sem æ síðan hefur verið notaður sem einkunnarorð samtakanna: ,,Alltaf beita upp í vindinn, eygja, klífa hæsta tindinn”.

Framkvæmdir hefjast við byggingu Sjálfsbjargarhússins árið 1966. Uppsteypu var lokið við fyrsta áfanga hússins árið 1968. Árið 1973 fluttu fyrstu íbúarnir inn í húsið.

Sjálfsbjargarfélög stofnuð í Stykkishólmi og á Akranesi árið 1970 og árið 1974 í Neskaupstað.

Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík var stofnað að frumkvæði ÍSÍ og Sjálfsbjargar lsf. árið 1974

Hjálpartækjabankinn var stofnaður af Rauða krossi Íslands og Sjálfsbjörg lsf. árið 1976. Fyrirtækið var fyrst til húsa að Nóatúni 21 í Reykjavík en fluttist síðar í eigið húsnæði að Hátúni 12. Árið 1995 var Hjálpartækjabankinn seldur Össuri hf.

Sjálfsbjörg stendur fyrir ,,jafnréttisgöngu” fatlaðra 1978 í tilefni árs fatlaðra. Um 10 þúsund manns taka þátt í göngu og baráttufundi til að leggja áherslu á hagsmuna- og réttindamál fatlaðra.

Sjálfsbjargarfélag stofnað í Austur-Húnavatnssýslu árið 1981 og árið 1984 á Höfn í Hornafirði. Þá eru félögin innan landssambandsins orðin 15 að tölu.

Theodór A. Jónsson lætur af starfi formanns landssambandsins árið 1988 eftir 28 ára farsælt starf. Við formennsku tekur Jóhann Pétur Sveinsson. Sextánda Sjálfsbjargarfélagið stofnað á Vopnafirði árið 1991.

,,Hollvinir” Sjálfsbjargar lsf. verða til árið 1993. Þetta er fjöldi einstaklinga um land sem tekur að sér að leggja fram fasta upphæð til styrktar samtökunum, einu sinni eða oftar á ári.

Jóhann Pétur Sveinsson lést hinn 5. september 1994 tæplega 35 ára gamall. Við formennsku landssambandsins tók þá Guðríður Ólafsdóttir, sitjandi varaformaður. Hún var síðan kosin formaður á þingi samtakanna árið 1996. Félag heilablóðfallsskaðaðra gerist þá aðili að Sjálfsbjörg lsf. Félögin innan landssambandsins voru þá orðin 17.

Arnór Pétursson var kosinn formaður landssambandsins árið 1998 á þingi sambandsins á Siglufirði.

Ragnar Gunnar Þórhallsson var kosinn formaður landssambandsins árið 2004 á þingi, sem haldið var á Flúðum.

Grétar Pétur Geirsson var kosinn formaður landssambandsins árið 2010 á þingi, sem haldið var á Selfossi.

Bergur Þorri Benjamínsson var kosinn formaður á Landsfundi landssambandsins í Reykjavík í október 2016.