Stiklur af sögu Sjálfsbjargar 1958-1969

Fyrsta Sjálfsbjargarfélagið var stofnað á Siglufirði 9. júní 1958. Síðar á sama ári eru stofnuð Sjálfsbjargarfélög í Reykjavík, á Ísafirði, Akureyri og í Árnessýslu.

Fimm Sjálfsbjargarfélög síðan með sér landssamband 4. júní 1959 í Reykjavík og nefna það Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra. Fyrsti formaður þess er Emil Andersen.

Síðar á árinu 1959 voru stofnuð Sjálfsbjargarfélög á Bolungarvík og í Vestmannaeyjum.

Útgáfa hafin á árlegu tímariti Sjálfsbjargar, sem bar nafn félagsins. Fyrsta ritið var fyrir stofnárið, 1959. Breytt var um brot á blaðinu árið 1991 og var það gefið út í nýju broti árin 1991 og 1992.

Árið 1960 er stofnað Sjálfsbjargarfélag á Húsavík.

Árið 1962 er stofnað Sjálfsbjargarfélag á Suðurnesjum með aðsetur í Keflavik.

Árið 1962 er stofnað Sjálfsbjargarfélag á Sauðárkróki. Þá eru félögin innan landssambandsins orðin 10 að tölu.

2. landsþing Sjálfsbjargar haldið á Akureyri árið 1960 í eigin húsnæði félagsins, Bjargi. Samþykkt ályktun um að Erfðafjársjóður styrki framvegis byggingu vinnu- og félagsheimila öryrkja með lánafyrirgreiðslu. Bygging Sjálfsbjargarhússins var síðar fjármögnuð að stórum hluta með láni úr Erfðafjársjóði. Theodór A. Jónsson kosinn formaður landssambandsins.

Öryrkjabandalag Íslands stofnað árið 1961 að frumkvæði Ólafar Ríkarðsdóttur, ritara Sjálfsbjargar. Stofnfélög auk Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra voru Blindrafélagið, Blindravinafélag Íslands, SÍBS, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra og Styrktarfélag vangefinna.

Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra gerist fullgildur aðili að norrænu samstarfi fatlaðra, Vanföras Nordiske Handikapforfund (V.N.I. sem síðar varð Nordisk Handikap Förbund) árið 1963.

Á þessu ári var 5. ársþing landssambandsins haldið og við það tækifæri gáfu aðildarfélögin landssambandinu útskorinn fundarhamar úr fílabeini eftir Ríkarð Jónsson, myndhöggvara. Á hann var skorið merki samtakanna sem Ríkarður teiknaði og einkunnarorð samtakanna: ,,Alltaf beita upp í vindinn, eygja, klífa hæsta tindinn”.

Framkvæmdir hefjast við byggingu Sjálfsbjargarhússins árið 1966. Uppsteypu lokið við fyrsta áfanga hússins árið 1968. Árið 1973 fluttu fyrstu íbúarnir inn í húsið.

Stiklur af sögu Sjálfsbjargar 1970-1979 er hægt að sjá hér

Stiklur af sögu Sjálfsbjargar 1980-1989 er hægt að sjá hér

Stiklur af sögu Sjálfsbjargar 1990-1999 er hægt að sjá hér

Stiklur af sögu Sjálfsbjargar 2000-2009 er hægt að sjá hér