Sögurvefur – Staðreyndir í stuttu máli

skvigslasundolragn

Mynd: Frá vígslu sundlaugar Sjálfsbjargar á ári fatlaðra 1981. Á myndinni má meðal annarra þekkja Guðrúnu Helgadóttur fv. alþingismann og forseta alþingis, Jóhönnu Sigurðardóttur sem síðar varð forsætisráðherra, Ólaf Ragnar Grímsson sem síðar varð forseti Íslands og Ólaf Ólafsson fv. landlækni.

Saga Sjálfsbjargar er ekki síst saga áfanga og sigra. Fyrstu fimm Sjálfsbjargarfélögin voru stofnuð á árinu 1958 og landssamtökin ári síðar, 1959. Lengst af hefur krafan verið sú að aðeins þeir sem voru fatlaðir (hreyfihamlaðir síðar) gátu orðið fullgildir félagar, en ófatlaðir gátu orðið styrktarfélagar. Síðustu ár hefur þetta ekki verið algilt en í sumum félaganna er gerð krafa til þess að hluti stjórnarmanna og jafnvel formaður sé hreyfihamlað fólk.

Markmið og hlutverk samtakanna var fjölþætt en einkum var lögð áhersla á menntunarmál fatlaðra, atvinnumál, félagsmál og úrbætur á löggjöf um málefni fatlaðra. Þá var frá upphafi á dagskrá Sjálfsbjargar uppbygging vinnustofa fatlaðra víðs vegar um landið svo og bygging húss sem yrði í senn dvalarheimili, íbúðir og félagsmiðstöð fatlaðra. Þessum hugmyndum var hrundið í framkvæmd einni af annarri eins og sjá má á þessum stiklum úr sögu Sjálfsbjargar, þó vinnustöðunum og félagsmiðstöðvunum hafi fækkað með breyttu samfélagi.

Hér er yfirlit yfir þá atburði og ártöl sem oft er staldrað við í sögunni og eru þeim mörgum gerð skil á ítarlegri hátt á öðrum stað í  þessum söguvef. Hver áratugur í sögu Sjálfsbjargar hefur á sér sterkt svipmót, jafnvel þótt stiklað sé á hinu stærsta. Stofnun landssamtakanna árið 1959, opnun Sjálfsbjargarheimilsins árið 1973, jafnréttisgangan árið 1978, allt eru þetta dæmi um stiklur sem marka leiðina til nútímans. Fólkið sem mótaði leiðina sem farin var gegndi ýmsum hlutverkum. Þótt hér á eftir sé getið formannanna samtakanna voru æði margir aðrir sem settu sterkan svip á starf Sjálfsbjargar, bæði í Reykjavík og víðs vegar um landið í gegnum árin. Einhver þeirra sem þar áttu hlut að máli koma við sögu í öðrum köflum þessa söguvefs.

Formenn Sjálfsbjargar landssambands hreyfihamlaðra (-fatlaðra) frá upphafi:

1959-1960 – Emil Andersen

1960-1988 – Theodór A. Jónsson

1988-1994 – Jóhann Pétur Sveinsson

1994-1998 – Guðríður Ólafsdóttir

1998-2004 – Arnór Pétursson

2004-2010 – Ragnar Gunnar Þórhallsson

2010-2016 – Grétar Pétur Geirsson

2016-          – Bergur Þorri Benjamínsson