Siglt umhverfis landið til að safna áheitum

Ýmsar aðgerðir til stuðnings starfsemi Sjálfsbjargar hafa vakið athygli og fengið mikla fjölmiðlaumfjöllun. Ein þeirra er framtak Kjartans Jakobs Haukssonar, sem í tvígang, árið 2003 og 2005 lagði upp í siglingu á árabáti umhverfis Ísland til þess að safna áheitum til styrktar Hjálparliðasjóði Sjálfsbjargar, sem stofnaður var árið 1997. Björg Árnadóttir þáverandi félagsmálafulltrúi Sjálfsbjargar var framkvæmdastjóri þessa átaks af hálfu landssambandsins.

akkjartan

Mynd: Kjartan rær inn í Sandgerðishöfn sumarið 2005.

 

Kjartan reri undir slagorðinu ,,Frelsi”. Fyrri ferðinni lauk með brotlendingu nálægt Bolungarvík í september, en Kjartan lagði upp síðsumars, 21. ágúst, 2003. Síðari ferðin var farin sumarið 2005 og í það skiptið tókst Kjartani að ná í áfangastað eftir sumarlanga siglingu, en hún stóð frá 4. júní til 3. september. Alls söfnuðust um átta milljónir króna í Hjálparliðasjóð Sjálfsbjargar þegar Klifur tók viðtal við Kjartan og enn var verið að safna.

(Textahöfundur: Anna Ólafsdóttir Björnsson, 2009)