Alþjóðaár fatlaðra 1981

Árið 1981 var útnefnt alþjóðlegt ár fatlaðra af hálfu Sameinuðu þjóðanna. Undirbúningur hófst hér á landi meðal annars með stofnun ALFA – nefndarinnar svokölluðu, sem Svavar Gestsson félagsmálaráðherra skipaði 23. september árið 1980. Formaður nefndarinnar var Margrét Margeirsdóttir, sem fjallað hefur ítarlega um málefni fatlaðra, meðal annars í bók sinni, Fötlun og samfélag, frá árinu 2001. Þar fylgir hún eftir ýmsum hugsjónum þessa merka árs.

Á ári fatlaðra var haldinn útifundur Sjálfsbjargar sem var gríðarlega vel sóttur, bæði af fötluðum og ófötluðum. Undirbúningur hófst snemma vors og var ákveðið að fundurinn yrði einn af dagskrárliðum aukaþings landsambandsins.  Hrafni Sæmundssyni og Vikari Davíðssyni var falið að vera í forsvari fyrir undirbúningi fundarins. Síðan var vinnuhópur skipaður undir forystu Hrafns og Sigursveins D. Kristinssonar og ótal smærri hópar tóku til starfa.  ASÍ kom að undirbúningi fundarins, lagði til ræðumann og félög sambandsins voru beðin að auglýsa hann sem best þau gátu, og bar það og aðrar áskoranir um auglýsingar drjúgan árangur. Kjörorð fundarins var ,,Jafnrétti”.  Í ávarpi Björns Þórhallssonar varaforseta ASÍ var sjónum beint að atvinnumálum fatlaðra og sagði hann meðal annars:

,, … hljóta menn að kenna blygðunar að hið fjölbreytta og verkskipta, sérhæfða nútíma atvinnulíf skuli ekki hafa megnað að finna hverjum manni hæfilegt starf og nýta þannig þann mikla fjársjóð vinnuafls sem ónýttur er.”

skutifundur_1981_ar_fatl

Slagorð Sameinuðu þjóðanna ,,Ekkert um okkur án okkar“ má rekja til árs fatlaðra og hefur sett mikinn svip á umræðuna hin seinni ár.