Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra (fatlaðra)

Sögu Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, (nafninu var breytt á Landsfundi 2016 í Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra) er vitanlega gerð skil í öllum köflum þessa vefs en í þessum hluta er yfirlit yfir starfsemina og þá einkum þann ramma sem henni var búin á fyrstu árunum.

Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra, var stofnað 4. júní 1959. Á stofnfundinum voru 32 félagar úr stjórnum þeirra fimm félaga sem þegar höfðu verið stofnuð.

Sjálfsbjörg fékk sína fyrstu skrifstofuaðstöðu í bílskúr við Sjafnargötu 14 í Reykjavík, en húsið var aðsetur Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, sem lánaði bílskúrinn endurgjaldslaust. Í húsnæði Styrktarfélagsins var endurhæfing fyrir fatlaða, meðal annars sundlaug. Síðan lá leiðin í hús SÍBS við Bræðraborgarstíg 9, þá á Laugaveg 120 árið 1970 og loks í eigið húsnæði í Sjálfsbjargarhúsinu við Hátún 12  árið 1973.

Starfsfólk skrifstofu Sjálfsbjargar hefur aldrei verið margt og því á þessi lýsing á hlutverki framkvæmdastjórans árið 1974 ef til vill við á ýmsum tímabilum í starfi samtakanna:

,,Verkefni framkvæmdastjóra í þann tíð voru fjölbreytileg, allt frá því að kaupa frímerki og setja bréf í póst og upp í það að ganga á fund ráðherra fyrir hönd fatlaðra á Íslandi. Þá þurfti framkvæmdastjórinn að leysa alls konar persónuleg vandamál félaganna víðsvegar um landið og síðast en ekki sízt að vera skemmtilegur á góðra vina fundi.”

Árið 1960 lagði milliþinganefnd fram tillögu um fastan tekjustofn fyrir Sjálfsbjörg, fast gjald á hvert kíló af sælgæti sem framleitt væri í landinu, en á þeim tíma voru tekjustofnar af því tagi notaðir til að fjármagna starfsemi annarra mannréttindafélaga. Tvö ár tók að koma þessu máli gegnum alþingi og á árunum 1962-1974 var þetta einn mikilvægasti tekjustofn Sjálfsbjargar, en inn í það tímabil féll bygging Sjálfsbjargarhússins að Hátúni 12, stærsta einstaka verkefni Sjálfsbjargar.

Félagslegt hlutverk Sjálfsbjargar vissi einnig að samskiptum við stjórnvöld, en landssambandið var sífellt að þrýsta á stjórnvöld um úrbætur í málefnum fatlaðra. Enn í dag er það eitt helsta hlutverk samtakanna. Þrýstingur í ferlimálum, ályktanir þinga sambandsins og ýmsar aðrar leiðir hafa verið notaðar og fulltrúar samtakanna hafa tekið þátt í samstarfi með öðrum félögum fatlaðra og auk þess á vegum stjórnvalda. Viðbrögð stjórnvalda hafa eflaust verið misjöfn. Hins vegar lýsir það nokkuð vel samskiptum Sjálfsbjargar og stjórnvalda er Magnús Kjartansson (þ.v. ráðherra) setti í orð í ávarpi í Sjálfsbjargarblaði árið 1971, en hann segir:

,,Í bréfi sem mér barst frá ritnefnd Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, var komizt svo að orði:

,,Við viljum láta í ljós gleði okkar yfir málefnasamningi ríkisstjórnarinnar varðandi bættan hag fatlaðs fólks og erum þakklát fyrir þær ráðstafanir, sem þegar hafa verið gjörðar þar að lútandi.”

Víst var það ánægulegt upphafsverkefni fyrir nýjan ráðherra, að standa að hækkun á lífeyrisgreiðslum almannatrygginga, en engum er ljósara en mér, að þær greiðslur eru enn gersamlega óviðunandi. Að því marki ber hiklaust að stefna á sem skemmstum tíma, að upphæðirnar nægi til framfæris þeim, sem eiga afkomu sína undir þessum greiðslum. Slík tekjutrygging er grundvallaratriði í nútímaþjóðfélagi, sem viðurkennir félagsleg viðhorf, og hún á ekki að vera torvelt viðfangsefni í ríki, sem getur státað af einhverjum hæstu þjóðartekjum á mann í víðri veröld.”

Mynd: Fremst frá vinstri eru Adolf Ingimarsson, Sigurgrímur Ólafsson, Sigursveinn D. Kristinsson, Theodór A. Jónsson og Hendrik Ottósson. Í miðröð eru Valgerður Hauksdóttir, Helgi Eggertsson, Ingibjörg Magnúsdóttir, Jónína Egilsdóttir og Heiðrún Steingrímsdóttir. Aftast eru Sveinn Þorsteinsson, Emil Andersen, Eiríkur Einarsson, Eggert Theodórsson, Zophonías Benedikts, Valey Jónasdóttir, Skarphéðinn Karlsson, Hulda Steinsdóttir, Þór Sigurþórsson, Trausti Sigurlaugsson og Bjarni Garðarsson.

Mynd: Fremst frá vinstri eru Adolf Ingimarsson, Sigurgrímur Ólafsson, Sigursveinn D. Kristinsson, Theodór A. Jónsson og Hendrik Ottósson. Í miðröð eru Valgerður Hauksdóttir, Helgi Eggertsson, Ingibjörg Magnúsdóttir, Jónína Egilsdóttir og Heiðrún Steingrímsdóttir. Aftast eru Sveinn Þorsteinsson, Emil Andersen, Eiríkur Einarsson, Eggert Theodórsson, Zophonías Benedikts, Valey Jónasdóttir, Skarphéðinn Karlsson, Hulda Steinsdóttir, Þór Sigurþórsson, Trausti Sigurlaugsson og Bjarni Garðarsson.

Alla tíð til dagsins í dag hefur eitt megin verkefni verið að veita stjórnvöldum aðhald þegar kemur að málefnum hreyfihamlaðs (fatlaðs) fólks. Í því sambandi þarf stöðugt að fylgjast með framgangi réttindamála og tala fyrir betrumbótum.