Sjálfsbjörg í Vestmannaeyjum

Sjálfsbjargarfélag var stofnað í Vestmannaeyjum 15. desember árið 1959 og voru stofnfélagar 23 talsins en haldið var áfram að taka inn félaga og töldust fullgildir stofnendur samtals 43. Fyrsti formaður félagsins var Ástgeir Ólafsson, Ási í Bæ. Félagsstarf hófst af fullum krafti um miðjan mars árið 1960.  Sá sem næstur tók við formennsku félagsins var Richard Þorgeirsson. Skemmtifundir voru haldnir skuggamynda- og kvikmyndasýningar og spilakvöld ásamt fleiru og einnig var föndrað. Árið eftir fjölgaði í félaginu og fékk það til afnota húsnæði í götuhæð í Akoges-húsinu.

Nokkurt félagsstarf var í Vestmannaeyjum á árinu 1962 og þá voru haldnir sex félagsfundir þar, umræður um félagsmál, skuggamynda- og kvikmyndasýningar og spilakvöld. Fundasókn var þó eitthvað dræm. Verið var að athuga með einhvers konar iðnrekstur á vegum Sjálfsbjargarfélagsins. Fullgildir félagar voru þá 34.

Á næstu árum var það einkum húsnæðisskortur sem þótti standa félagsstarfinu fyrir þrifum.

Eftir Vestmannaeyjagosið sem var árið 1973 bárust Sjálfsbjörg í Vestmannaeyjum rausnarlegar peningagjafir vegna gossins frá samtökum fatlaðra í Danmörku og Noregi. Peningunum var varið til að styrkja 40-50 aðila sem þurftu á því að halda.

Árið 1977 var keypt lítið hús undir starfsemina, 50 fermetrar að stærð og þar voru haldnir fundir, fengist við föndur og ýmiss konar félagsstarf fór fram í húsinu.

Sjálfsbjörg í Vestmannaeyjum átti þátt í undirbúningi að stofnun verndaðs vinnustaðar, kertaverksmiðjunnar Heimaeyjar, sem varð fljótlega mjög öflugt fyrirtæki í Eyjum.

Mynd: Fyrir utan nýtt hús í Vestmannaeyjum árið 1977. Frá vinstri eru Arnmundur Þorbjörnsson, Richard Þorgeirsson og Hildur Jónsdóttir.

Mynd: Fyrir utan nýtt hús í Vestmannaeyjum árið 1977. Frá vinstri eru Arnmundur Þorbjörnsson, Richard Þorgeirsson og Hildur Jónsdóttir.