Sjálfsbjörg á Siglufirði

Sjálfsbjargarfélagið á Siglufirði er elsta félag Sjálfsbjargar á Íslandi. Það var stofnað 9. júní 1958 og hefur verið við lýði óslitið síðan þá.  Fjórtán manns voru mætt að Gránugötu 14 á Siglufirði þetta mánudagskvöld ,,til þess að ræða möguleika á stofnun félags lamaðra og fatlaðra í Siglufirði,“ eins og greinir frá í fyrstu fundargerð félagsins. Forgöngumaður um málið var Sigursveinn D. Kristinsson tónskáld. Fjórtánmenningarnir stofnuðu félagið þetta kvöld, enda var til þess tekið að mikill áhugi væri innan hópsins að stofna félag sem hefði svo mikilla sameiginlegra hagsmuna að gæta. Fyrsti formaður félagsins var Valey Jónasdóttir. Fyrsta starfsárið voru haldin spilakvöld, vinnufundir, bazar og einn dansleikur var fyrsta árið.

,,Við fundum strax mikinn velvilja og hlýhug streyma til samtakanna okkar hér, og margir gengu snemma í félagið, sem styrktarmeðlimir” segir í skýrslu stjórnarinnar til landssambandsins eftir fyrsta starfsárið.

Félagið efndi til skemmtiferðar sumarið 1959 og er það ein fyrsta af fjölmörgum ferðum Sjálfsbjargar sem fleiri en eitt félag tók þátt í, en miðja vegu hitti hópurinn, sjötíu manna hóp frá Akureyrarfélaginu. Leiðin lá um Skagafjörð og þótti sérlega vel heppnuð.

Mynd: Á landsþingi á Siglufirði 1961: Eftirtaldir eru nafngreindir, í fremstu röð: Theodór A. Jónsson, Gunnar og Sigursveinn D. Kristinsson, í annarri röð Ólöf Ríkarðsdóttir, Ingibjörg Magnúsdóttir, Heiðrún Steingrímsdóttir, Vilborg Tryggvadóttir, Jón Þór Buch, Helgi Eggertsson og Helga. Aftast: Zophónías, Valey, Eiríkur, Valdimar, Sveinn, Adolf Ingimarsson, Karl, Jón B. Guðmundsson, Trausti Sigurlaugsson og Pálína Snorradóttir.

Mynd: Á landsþingi á Siglufirði 1961: Eftirtaldir eru nafngreindir, í fremstu röð: Theodór A. Jónsson, Gunnar og Sigursveinn D. Kristinsson, í annarri röð Ólöf Ríkarðsdóttir, Ingibjörg Magnúsdóttir, Heiðrún Steingrímsdóttir, Vilborg Tryggvadóttir, Jón Þór Buch, Helgi Eggertsson og Helga. Aftast: Zophónías, Valey, Eiríkur, Valdimar, Sveinn, Adolf Ingimarsson, Karl, Jón B. Guðmundsson, Trausti Sigurlaugsson og Pálína Snorradóttir.

 

Árið 1962 voru félagar orðnir 62 talsins. Þá voru áfram haldin vikuleg spilakvöld til fjáröflunar starfseminni. Vinnukvöld voru einu sinni í viku fyrir félaga og þar voru unnir munir og seldir með hagnaði. Snemma árs var opnuð vinnustofa félagsins um mánaðamótin febrúar/mars og var hún starfrækt í þrjá mánuði fyrir sumarhlé. Á vinnustofunni voru framleiddir vinnuvettlingar og á fyrstu starfsmánuðunum voru unnin 500 dúsín af vettlingum. Fjórar stúlkur unnu þá á vinnustofunni sem var að Túngötu 9.

Árið 1974 kemur fram að Sjálfsbjörg annist kaup á tækjum til endurhæfingarstöðvar sem er til húsa á sjúkrahúsi bæjarins. Starfsemi stöðvarinnar hófst í maí það ár. Félagið átti á sama tíma í miklum fjárhagserfiðleikum en engu að síður er bjartur tónn vegna tilkomu endurhæfingarstöðvarinnar í skýrslu Huldu Steinsdóttur gjaldkera Sjálfsbjargar á Siglufirði.

Árið 2001 var ákveðið að hafa ,,opið hús” alla virka daga í félagsheimili Sjálfsbjargar á Siglufirði. Þá er Siglufjarðarfélagið landsfrægt fyrir ,,sólarpönnukökurnar” sem bakaðar eru í tilefni af því að sést til sólar á ný eftir háveturinn, 28. janúar ár hvert.

Þegar Sjálfsbjörg á Siglufirði varð 50 ára var efnt til samsætis í Bíó – kaffi á Siglufirði sunnudaginn 8. júní 2008 og öllum bæjarbúum boðið. Flaggað var með Sjálfsbjargarfánanum um bæinn og fjölmenni mætt í samsætið. Ýmsir stofnfélagar voru mættir og rifjuðu upp gamla tíma. Hulda Steinsdóttur, fyrsti gjaldkeri félagsins,  rifjaði upp þá hugarfarsbreytingu sem orðin er á afstöðu til fatlaðra frá upphafi félagsins og sagði meðal annars: ,,Dag nokkurn kom ég til dæmis þar sem starfsmenn bæjarins voru að lagfæra gangstétt. Mér fannst kanturinn nokkuð hár, svo ég spurði verkstjórann hvort hann héldi að eldra fólk eða fatlað gæti stigið upp á svona stétt. Svar hans var stutt og laggott. ,,Þeir sem ekki geta nýtt sér þessa stétt ættu bara að vera heima hjá sér.”

Gestir litu við í húsi félagsins á Siglufirði þar sem m.a. fer fram ýmiskonar handverk, svo sem keramik- og glermunagerð.

Formaður Sjálfsbjargar á Siglufirði á 50 ára afmælisári Sjálfsbjargar lsf. (2009) er Kolbrún Símonardóttir.