Saga Sjálfsbjargar – Sjálfsbjargarfélögin

skheidrun_og_sigursteinn

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fimm Sjálfsbjargarfélög voru stofnuð á Íslandi árið 1958, ári áður en Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra, var stofnað. Þau fimm félög sem stóðu að stofnun landssambandsins voru Sjálfsbjargarfélögin á Siglufirði, í Reykjavík, á Akureyri, á Ísafirði og í Árnessýslu.

Um tilurð fyrstu Sjálfsbjargarfélaganna segir Sigursveinn D. Kristinsson í fyrsta hefti Sjálfsbjargar, tímariti landssambandsins:

,,Tveir menn hittust í góðviðrinu á tröppunum við Gránugötu 14 [á Siglufirði], annar handarvana, hinn með bilaða fætur. Þeir ræddu um það, hvort ekki væri hægt að koma á fót samtökum til þess að berjast fyrir réttindum fatlaðs fólks. Næstu daga stækkaði hópurinn. Allir voru sammála um nauðsyn samtakanna, og fyrsta félagið var stofnað 10. júní 1958, á Siglufirði. [Almennt er nú miðað við að félagið hafi verið stofnað 9. júní.]

Fyrirkomulag Sjálfsbjargarfélaganna var með þeim hætti að einungis fatlað fólk átti rétt á að teljast fullgildir félagar, en auk þess gátu aðrir fengið að vera styrktarfélagar og í sumum félögum voru þeir álíka margir eða jafnvel fleiri en fullgildu félagarnir. Þá voru fáeinir einstaklingar gerðir að ævifélögum Sjálfsbjargar, en einnig það var misjafnt eftir félögum. Hlutverk félaganna var margþætt, að halda uppi öflugu félagslífi fyrir fatlaða, setja upp vinnustofur fyrir fatlaða sem ekki áttu aðgang að vinnu á almennum vinnumarkaði en til alls þessa þurfti einnig að sinna fjáröflun.  Þá skiptust félögin framan af á að halda landsþing Sjálfsbjargar og oft var sá háttur hafður á að útvega þingfulltrúum gistingu í heimahúsum. Þetta varð til þess að bæjarbúar í gistibænum, fatlaðir og ófatlaðir, kynntust Sjálfsbjargarfélögum vel og höfðu betri skilning á högum þeirra eftir að hafa deilt með þeim kjörum meðan á þinghaldi stóð.

Fyrir hinn almenna félagsmann Sjálfsbjargar var þátttakan í félagsstarfinu ómetanleg. Konráð Þorsteinsson segir árið 1964 um þátttöku sína í félagssamtökum fatlaðra … ,,hverra samnefnari er Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra, boðar bjartari framtíð mörgum þeim, sem vegna ytri fötlunar og annarrar örorku, hafa fundið sig utangarðs í lífsbaráttunni að meira eða minna leyti.” Hann fjallar einnig um önnur baráttumál svo sem aukna atvinnuþátttöku fatlaðra: ,,Þegar hefur mikið áunnizt. All algengt er nú að sjá öryrkja inna af höndum störf með sama árangri og full frískt fólk.”

Mynd: Heiðrún Steingrímsdóttir og Sigursveinn D. Kristinsson leika á gítar og fiðlu.

Í gegnum árin með mjög breyttu samfélagi, stórbættum samgöngum, aukinni menntun hreyfihamlaðra og eðlilegri þátttöku þeirra í samfélaginu sem og tilkomu og virkni samfélagsmiðla, hefur þörfin fyrir sérstöku almennu félagsstarfi hreyfihamlaðra minnkað mikið. Því hefur aðildarfélögum samtakanna fækkað aðeins, og á 60 ára afmælisári (2019) samtakanna eru aðildarfélögin tólf.