Ný-ung

Ný-ung var ungliðahreyfing Sjálfsbjargar lsh. í um áratug. Hreyfingin var opin bæði hreyfihömluðum og ófötluðum einstaklingum á aldrinum 18 – 30 ára sem höfðu áhuga á málefnum ungs hreyfihamlaðs fólks.

Markmið hreyfingarinnar var að vekja athygli á því að í þjóðfélaginu væri hópur ungs hreyfihamlaðs fólks. Ný-ung beindi sjónum sínum að hverju því sem snerti þennan hóp, bæði jákvæðu og neikvæðu. Þau verkefni sem hreyfingin tók sér fyrir hendur áttu iðulega upphaf sitt í einhverju sem snerti meðlimahópinn persónulega. Verkefnin tóku síðan á sig stærri mynd og afrakstur þeirra nýttist síðan mun fleirum en þeim hópi sem virkur var í Ný-ung hverju sinni. Jákvæðni, bjartsýni og húmor voru sterkustu vopnin sem Ný-ung notaði og voru þau óspart notuð í hinum ýmsu verkefnum.

Ný-ung var til dæmis móðurfélag Götuhernaðarins sem stóð fyrir ýmiss konar uppákomum á árabili 2008-2015,  Öryrkjans ósigrandi og fjölda annarra verkefna.

Segja má að þegar kjarnahópurinn hafði runnið sitt skeið lagðist starfið upp fyrir. Sama ástæðan er án efa fyrir því og í öðru félagsstarfi hreyfihamlaðra, fólk blandaðist inn í samfélagið og vinnur að sínu áhugamáli með vinafólki, ófötluðu sem fötluðu, eins og Sjálfsbjörg hefur alla tíð haft að markmiði og leiðarljósi.