Ferðalög

Ferðalög, einkum innanlands, voru lengi framan af snar þáttur í starfsemi Sjálfsbjargar. Fyrsta Sjálfsbjargarferð sem getið er um í ritum sambandsins er skemmtiferð sem félögin á Siglufirði og Akureyri efndu til sumarið 1959. Félögin hittust miðja vegu í Skagafirði, hópur frá Siglufirði og sjötíu manna hópur frá Akureyrarfélaginu. Leiðin lá um Skagafjörð. Til eru frásagnir frá báðum félögunum sem tóku þátt í þessari ferð og grípum við niður í frásögn Akureyringanna úr náttstað í Skagafirði, sem mun vera nokkuð dæmigerð fyrir seinni ferðir Sjálfsbjargar þegar meira var sungið en sofið.

,,Jón hafði fundið fyrir okkur góðan tjaldstað, en það var í fögrum hvammi fyrir austan aflstöðina [við Skeiðfoss], þar var slegið upp tjaldborg einni mikilli. Þegar allir höfðu tjaldað í hvamminum hinum fagra (nema tvenn og einn lausamaður, er gerðu ráð fyrir því að ekki mundi svefnsamt í tjaldborginni, drógu sig úr hópnum og tjölduðu niður við á, seinnilega til þess að hafa þar frið með sínar næturhugleiðingar, en það ku vera háttur djúpt hugsandi manna að einangra sig svo) fóru þær af stúlkum okkar er duglegastar voru, að hita kaffi og finna einhverja lífsnæringu handa fólkinu, en það var ekki vanþörf á því eftir hina löngu ferð.

Þá er allir voru komnir í tjöldin, og ætluðu að fara að sofa, þá fóru að heyrast tíst og önnur ankannaleg hljóð úr tjaldi og tjaldi. Við vorum sex, sem gistum í tjaldi sem notað var fyrir eldhús, og er við hugðumst sofna svefni hinna réttlátu, fóru að heyrast svefnlæti all ferleg úr næsta tjaldi við okkur.
Í því tjaldi ku hafa verið tvenn hjón, og er annar bóndinn hætti að skera hrúta og fremja önnur strákapör í svefninum, og við héldum að nú væri kominn á friður og ró, þá tók hinn bóndinn við og hraut öllu hærra …”

Mynd: Úr sumarferð Sjálfsbjargar um suðurland árið 1962: Pálína, Vilborg, Hlaðgerður, Rósa og Helga að skoða bæinn á Keldum.

Mynd: Úr sumarferð Sjálfsbjargar um suðurland árið 1962: Pálína, Vilborg, Hlaðgerður, Rósa og Helga að skoða bæinn á Keldum.

Með auknum möguleikum hreyfihamlaðra til ferðalaga á eigin vegum sem og aukning bifreiðaeignar þeirra (m.a. sérútbúnar bifreiðar) sem almenn bifreiðaeign landsmanna og stór bættar samgöngur, hefur þörfin fyrir skipulögðum ferðalögum á vegum aðildarfélaganna sem landssambandsins minnkað með árunum, þó mörg aðildarfélaganna séu ennþá með einhver ferðalög sem hluta af sínu starfi þá er almennt um að ræða dagsferðir.