BUSL

Unglingastarf Sjálfsbjargar er nefnt BUSL og er ætlað þrettán til sautján ára unglingum.

Unglingarnir fá tækifæri til að hittast og skemmta sér í góðum félagsskap og vinna saman að hagsmunamálum sínum. Í starfinu er lögð áhersla á félagslegt frumkvæði og byggist starfið á áhugamálum þátttakenda hverju sinni.

Buslarar hafa hist nokkuð reglulega þó talsvert hafi dregið úr reglulegu starfi þar sem fötluð ungmenni blandast æ meira inn í félagsstarf jafnaldra og vina sem þau umgangast í almennu skólastarfi – sem er auðvitað af hinu góða. Unglingar utan af landi eru velkomnir í BUSL og geta tekið þátt í starfinu þegar þeir hafa tækifæri til.

Ferðalög hafa verið virkur þáttur í starfsemi BUSL-ara.

Sem dæmi má nefna að farið var á Langjökul á vegum unglingastarfsins í maí 1998 og slegist í för með BUSL-ara sem búsettur var í Borgarnesi. Svo voru etnir hamborgarar, svo mikið að ,,frést hefur að það hafi farið hrollur um alla nautgripi í gervöllum Borgarfirði.” Ferðin var fyrst og fremst skemmtileg og spennandi og jafnframt lærðust ýmsar lexíur svo sem að á jökul væri ekki hægt að fara án þess að vera með sólgleraugu, en fyrir því höfðu ekki allir hugsað. Eftir jökulferðina var farið í laugina á Húsafelli, eftir lokun, en þó löglega.

Árið 2004 fór hópur á vegum BUSLs, fimmtán félagar á aldrinum 13-19 ára ásamt leiðbeinendum til að mynda til Svíþjóðar í vikuferð. Eftir mikla fjáröflun var hægt að njóta lífsins í Suður – Svíþjóð, fara í hitabeltisdýragarð og sitthvað fleira.