BUSL

í nokkur ár og fram til ársins 2016 var virkt unglingastarf á vegum Sjálfsbjargar og var það nefnt BUSL. Þetta var framkvæmt í samstarfi við Rauða krossinn í Reykjavík og var ætlað þrettán til sautján ára unglingum. Rauði krossinn dró sig út úr þessu samstarfi 2016 og var þá grundvellinum kippt undan starfinu og því sjálfhætt, enda hafði lítil endurnýjun orðið í hópnum.

Unglingarnir fengu tækifæri til að hittast og skemmta sér í góðum félagsskap og vinna saman að hagsmunamálum sínum á þeirra forsendum. Í starfinu var lögð áhersla á félagslegt frumkvæði og byggðist starfið á áhugamálum þátttakenda hverju sinni. Þá voru ferðalög virkur þáttur í starfsemi BUSL-ara framan af.

Sem dæmi má nefna að farið var á Langjökul á vegum unglingastarfsins í maí 1998 og slegist í för með BUSL-ara sem búsettur var í Borgarnesi. Svo voru etnir hamborgarar, svo mikið að ,,frést hefur að það hafi farið hrollur um alla nautgripi í gervöllum Borgarfirði.” Ferðin var fyrst og fremst skemmtileg og spennandi og jafnframt lærðust ýmsar lexíur svo sem að á jökul væri ekki hægt að fara án þess að vera með sólgleraugu, en fyrir því höfðu ekki allir hugsað. Eftir jökulferðina var farið í laugina á Húsafelli, eftir lokun, en þó löglega.

Árið 2004 fór hópur á vegum BUSLs, fimmtán félagar á aldrinum 13-19 ára ásamt leiðbeinendum til að mynda til Svíþjóðar í vikuferð. Eftir mikla fjáröflun var hægt að njóta lífsins í Suður – Svíþjóð, fara í hitabeltisdýragarð og sitthvað fleira.

Buslarar hittust framan af nokkuð reglulega en er frá leið dró þó úr starfinu smá saman og megin ástæðan var talin vera að ungt hreyfihamlað fólk blandast æ meira inn í félagsstarf jafnaldra og vina sem þau umgangast í almennu skólastarfi – sem er auðvitað af hinu góða og nokkuð sem Sjálfsbjörg hefur barist fyrir.