Tryggingar og kostnaðargreiðslur

Í fyrstu lögum Sjálfsbjargar er sjónum beint að þeim breytingum sem nauðsynlegt þótti að gera á löggjöf um málefni fatlara, en í einni markmiðsgreininni er einfaldlega sagt:

  • að vinna að bættri löggjöf um málefni fatlaðs fólks.

Á bak við þessa setningu var geysileg óunnin vinna, því í nánast öllum málaflokkum þurfti að huga að því hvernig löggjöfin snerti fatlaða. Í fyrstu var þó sjónum einkum beint að lagasetningu á sviði tryggingamála og endurgreiðslna ýmiss konar kostnaðar sem sérstaklega lagðist á fatlaða, til dæmis vegna sérútbúinna bíla sem voru mörgum fötluðum bráð nauðsyn, jafnvel meðan bifreiðaeign var ekki eins almenn og síðar varð. Þá voru endurbætur á skipulagslöggjöf, tollalögum og ýmsum fleiri lögum sem huga þurfti að. Tollar á sumum bráðnauðsynlegum hjálpartækjum voru til dæmis svo háir að íþyngjandi var. Á fyrsta þingi Sjálfsbjargar var sjónum beint að tryggingamálum og eftirfarandi áskorun send alþingi – sumar kröfurnar tók áratugi að fá samþykktar, aðrar nutu meiri skilnings:

1. að örorkulífeyrir verði greiddur án tillits til tekna.
2. að örorkulífeyrir verði hækkaður um minnst 30%.
3. að sjúkrabætur verði greiddar jafnt húsmæðrum sem eiginmönnum.
4. að hjón, sem bæði eru örorkulífeyrisþegar fái greiddan tvöfaldan einstaklingslífeyri.

Sett var á laggirnar farartækjanefnd sem skoraði á alþingi að breyta tollskrám varðandi eftirgjöf aðflutningsgjalda, að afskriftir verði hraðari, svo og að leyfisgjald af bifreiðum, sem þá var við lýði, verði fellt niður. Þá var farið fram á að þungaskattur af bifreiðum yrði felldur niður, öryrkjar fengju að leggja bifreiðum sínum eftir þörfum, öryrkjar fengju aðild að nefnd um úthlutum farartækja með tollaeftirgjöf og þeim farartækjum sem úthlutað væri til fatlaðra yrði fjölgað um helming. Allt voru þetta mjög brýn mál.

Á landsþingi Sjálfsbjargar árið 2004 vakti fráfarandi formaður landssamtakanna athygli á því að fyrstu starfsár Sjálfsbjargar hefði sambandið átt gott samstarf við verkalýðssamtökin um kjaramál öryrkja. Hins vegar væri svo komið að verkalýðshreyfingin væri hætt að fylgja eftir kröfum hagsmunasamtaka fatlaðra og sýndi stuðning einungis í orði en ekki verki.

Nokkuð þokaðist í réttindamálum á fyrstu árunum og einnig bættist við þær kröfur sem Sjálfsbjörg beitti sér fyrir. Á þingi Sjálfsbjargar árið 1962 voru lagðar fram ítarlegar tillögur um tilhögun greiðslna vegna ökutækja og val á bifreiðum fyrir fatlaða. Þær voru eftirfarandi:
a) Samin verði reglugerð um úthlutun bifreiða til öryrkja.
b) Kosin verði þegar á þessu þingi milliþinganefnd, til að semja slíka reglugerð.
c) Eftirgefin aðflutningsgjöld afskrifist á fimm árum.
d) Eftirgjöfin hækki í samræmi við hækkað verðlag.
e) Öryrkar hafi frjálst val til bifreiðakaupa, en ekki bundið ákveðnum tegundum, sem í mörgum tilfellum henta alls ekki.
f) Mótorhjól með einu eða tveimur sætum og hjálpartæki í bifreiðir, verði styrkt á sama hátt og hjólastólar.

Flest af þessu hefur gengið eftir, en ennþá er Sjálfsbjörg að berjast fyrir betrumbót á bifreiðastyrkjum til bifreiðakaupa og endurgreiðslum á margvíslegum hjálðpartækjum og búnaði, þannig að sífellt bætast fleiri verkefni við á þessu sviði.