Menntunarmál

Sjálfsbjörg fór fljótlega að huga að menntunarmálum fatlaðra, en fjölmargir þeirra höfðu ekki notið fullnægjandi skólagöngu, ýmist vegna sjúkrahúsvistar eða annarra ástæðna, meðal annars lélegs aðgengis í flestum skólabyggingum. Í markmiðsgrein fyrstu laga Sjálfsbjargar segir meðal annars að markmið samtakanna sé:

  • að styðja fatlað fólk til þess að afla sér þeirra menntunar, bóklegrar eða verklegra, sem það hefur löngun og hæfileika til.

Ingibjörg Magnúsdóttir á Ísafirði skrifar greinina ,,Mennt er máttur” í Sjálfsbjargarblaðið árið 1971 og afhjúpar nöturlegan veruleika líkamlega fatlaðra ungmenna:

,,Blind og heyrnaskert börn hafa sérskóla og kennslu, er kostaði að vísu baráttu á sínum tíma, en hvernig skyldi þessu vera farið með önnur fötluð börn og unglinga? Skyldu fræðsluyfirvöldin vera nógu vel á verði um það, að þau ljúki tilskilinni skólaskyldu? Ég hika ekki við að segja, að það gera þau alls ekki, hvað þá heldur að þau stuðli að því að þau geti stundað framhaldsnám á einn eða annan hátt.

Augljóst er þó, að hafi einhverjir þörf fyrir menntun er það einmitt þeir, sem ekki geta unnið erfiðisvinnu, eins og aðalatvinnuvegir okkar útheimta. – Gera þarf athugun á því, hve mörg prósent fatlaðra barna og unglinga eru á skólaskyldualdri, og hvort einnig þau, sem á sjúkrahúsum og hælum dvelja, njóti þeirrar fræðslu, sem þeim ber, lögum samkvæmt.

Ég hika því enn ekki við að saka hið opinbera um, að það standi ekki í stöðu sinni gagnvart menntun líkamlega fatlaðra barna og unglinga. “

Mynd: Ingibjörg Magnúsdóttir er hér fyrir miðju í tágavinnu árið 1961.

Mynd: Ingibjörg Magnúsdóttir er hér fyrir miðju í tágavinnu árið 1961.

 

Léleg hönnun skólahúsnæðis var oft á tíðum helsta hindrun í vegi þess að fötluð börn og ugmenni gætu stundað skóla með eðlilegum hætti með jafnöldrum sínum. Sérstök vandamál voru í grunnskóla þegar skólafélagarnir gátu lítið sem ekkert hjálpað fötluðum félaga sínum, eins og glögglega kemur fram í grein Jóhanns Péturs Sveinssonar frá árinu 1980, er hann gerir upp við þá erfiðleika sem hann mætti í sinni skólagöngu:

,,Erfiðleikarnir við að fatlað barn fari í skóla á þessum árum eru t.d. í því fólgnir að þó að skólasystkin þess væru öll af vilja gerð að hjálpa því milli hæða eða yfir aðrar hindranir sem verða á vegi fatlaða barnsins í flestum skólabyggingum enn þann dag í dag, þá eru þau of ung til að geta hjálpað.”

Mynd: Menntunarmál voru umfjöllunarefni formannanna Jóhanns Péturs Sveinssonar (í miðju) og Ragnars Gunnars Þórhallssonar (til hægri) í umræðu innan Sjálfsbjargar. Með þeim á myndinni er Reynir Ingibjartsson og myndir er tekin á Sjálfsbjargarþingi árið 1992.

Mynd: Menntunarmál voru umfjöllunarefni formannanna Jóhanns Péturs Sveinssonar (í miðju) og Ragnars Gunnars Þórhallssonar (til hægri) í umræðu innan Sjálfsbjargar. Með þeim á myndinni er Reynir Ingibjartsson og myndir er tekin á Sjálfsbjargarþingi árið 1992.

 

Ekki var alltaf um að ræða að aðstöðuleysi réði því að menntun fatlaðra væri með öðrum hætti en gekk og gerðist meðal ófatlaðra jafnalda. Ragnar Gunnar Þórhallsson segir frá því í viðtali sem tekið var við hann er hann tók við formennsku í Sjálfsbjörg árið 2004 að það hafi hreinlega ekki þótt við hæfi að hreyfihamlaðir gengju í sama skóla og aðrir. Sjálfur var hann sendur í Reykjadal í Mosfellssveit, í skóla sem var rekinn fyrir hreyfihamlaða á vegum Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, en fyrir honum fór eins og fleiri fötluðum ungmennum: ,,Ég datt eiginlega alveg úr skóla eftir að ég veiktist, missti úr eitt ár í grunnskóla. Síðan fékk ég kennara heim til mín og fór svo í Reykjadal.” Ragnar Gunnar hélt þó áfram skólagöngu og fór í menntaskóla, sem ekki var sjálfsagt mál fyrir fatlaðan ungling eins og upplýsingar um skólagöngu fatlaðra barna og ungmenna hér að neðan gefur til kynna. ,,Þetta er kannski það helsta sem ég myndi vilja breyta er ég lít til baka,” heldur Ragnar Gunnar áfram. ,,Ég var bara hreyfihamlaður, það var ekkert að mér í höfðinu! Það hefði verð hægt að bjarga þessu með því að koma upp nokkrum skábrautum, en það hreinlega tíðkaðist ekki.”

Í könnun sem gerð var árið 1983 var staðfestur sá grunur sem margir höfðu verið vissir um, að skólagöngu fatlaðra væri stórlega ábótavant. Þar kom fram að hundraðshluti þeirra sem lokið höfðu einhverju námi eftir barnapróf var talsvert lægri meðal fatlaðra en ófatlaðra, 52,7% á móti 76,9%. Bilið milli skólagöngu fatlaðra og ófatlaðra kvenna var meira en meðaltalið sagði til um, eða um 25% munur en hjá körlum var munurinn tæp 20%. Félagsmálaráðuneytið lét gera könnunina að frumkvæði ALFA nefndarinnar, sem sett var á laggirnar í kringum ár fatlaðra, 1981. Þeir sem framkvæmdu könnunina voru Þórólfur Þórlindsson og Kristinn Karlsson. Kristinn segir í viðtali við blaðamann tímarits Sjálfsbjargar að þetta séu sérstaklega alvarlegar niðurstöður í ljósi þess að menntun hafi mikil áhrif á atvinnumöguleika fólks og þar standi fatlaðir einnig höllum fæti í samfélaginu, en jafnframt geti menntunarskorturinn einnig átt hlut að því að fólk fatlast og er það stutt með tölfræði um það á hvaða aldri fólk fatlast. ,,Fólk sem ekki hefur neina sérhæfða menntun að baki lendir gjarnan í erfiðustu störfunum. Ef það lendir svo í slysum og sjúkdómum sem leiða til fötlunar á það erfiðar með að fá léttari störf eða sérhæfð og er þar með dæmt úr leik á vinnumarkaðnum,” segir Kristinn í viðtalinu.

Menntamál og aðgengi hreyfihamlaðra að skólabyggingum á öllu menntastigi hafa verið eitt helsta baráttumál Sjálfsbjargar frá upphafi og er ennþá á dagskrá samtakanna og hefur verið ályktað um þessi mál á nær öllum þingum. Aðgengi skólabygginga hefur vissulega batnað verulega frá stofnun samtakanna, en víða er þó pottur brotinn og er sífellt verið að benda á hvar betur mætti fara.