Ferlimál

Ferlimál fatlaðra urðu snemma eitt af helstu baráttumálum Sjálfsbjargar. Aðgengi að ýmsum opinberum byggingum var á þessum tíma stórlega ábótavant og Sjálfsbjargarfélagar unnu ötullega að því að benda á það sem aflaga fór víðs vegar um landið. Í einu af fyrstu blöðum Sjálfsbjargar er m.a. bent á lélegt aðgengi að Háskóla Íslands, Borgarbókasafninu, Þjóðleikhúsinu og Þjóðminjasafninu.

skferlilandsbank

Ákallið sem fylgdi var: Arkitektar – húsbyggjendur. Komið til liðs við okkur – burt með tröppurnar! Þessu var fylgt eftir á næstu árum og fjölmargar opinberar byggingar og þjónustubygginar teknar fyrir.

Þá beitti Sjálfsbjörg sér fyrir því að gera fötluðum kleift að fara ferða sinna með því að flytja inn og leigja út hjálpartæki og með því að styðja við bakið á þeim aðilum sem unnu að eða menntuðu sig í gervilimagerð og annarri nýsköpun sem nýttist fötluðum vel. Þannig var studdi Sjálfsbjörg t.d. Össur Kristinsson stoðtækjafræðing til að stofna fyrirtæki utan um stoðtækjaframleiðslu hans og gerðist hluthafi í fyrirtækinu í upphafi og lagði rekstrinum til húsnæði á jarðhæð í Sjálfsbjargarhúsinu og hóf fyrirtækið feril sinn þar og er nú orðið með stærri fyrirtækjum landsins með rekstur víða erlendisþ

Aðgengi að almenningssamgöngur voru einnig meðal helstu baráttumála í upphafi og eru reyndar ennþá á baráttulistanum. Og loks voru bílamál fatlaðra einstaklinga í brennidepli frá fyrstu tíð.

Þegar Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra, var stofnað var oft löng bið eftir hjólastólum og lítið úrval ýmissa bráðnauðsynlegra hjálpartækja sem auðvelduðu fötluðum að komast ferða sinna. Þótt sumir sýndu ótrúlega útsjónarsemi, settu hjól undir hægindastóla eða útbjuggu handsnúin þríhjól.

Til að mæta þessum þörfum hóf Sjálfsbjörg innflutning hjólastóla. Fljótlega mátti sjá hjólastóla og önnur hjálpartæki af ýmsum stærðum og gerðum á skrifstofu samtakanna. Stofnun Hjálpartækjabankans árið 1976 var framtak Sjálfsbjargar og Rauða kross Íslands. Þar með fluttist leiga ýmissa hjálpartækja, svo sem hjólastóla og hækja frá skrifstofu Sjálfsbjargar, en þessi þáttur í starfseminni varð sífellt umfangsmeiri. Þar með varð auðveldara fyrir fatlaða að fá hjálpartæki við hæfi.

Þegar ríkið (Tryggingarstofnun og síðar Sjúkratryggingar) fór að styrkja og útvega hjálpartæki breyttist grundvöllur Hjálpartækjabanks og keypti Össur hf. rekstur fyrirtækisins. Það má því segja að sagan fari í hringi því að Sjálfsbjörg setti á stofn hjálpartækjaleigu 2017 til að mæta þörfum þeirra sem verða tímabundið hreyfihamlaðir og fá ekki úrlausn hjá Sjúkratryggingum Íslands sem og fyrir erlenda hreyfihamlaða ferðamenn.

Mynd: Össur Kristjánsson og Atli Smári Ingvarsson við gervilimagerð í Sjálfsbjargarhúsinu árið 1971

Mynd: Össur Kristjánsson og Atli Smári Ingvarsson við gervilimagerð í Sjálfsbjargarhúsinu árið 1971

 

Gervilimagerð stóð á gömlum merg á Íslandi og má líta allt aftur til ársins 1921 í því sambandi, en þá stofnaði Halldór nokkur Arnórsson verkstæði sem smíðaði gervilimi og aðrar ,,umbúðir” handa fötluðu fólki. Það var fyrsta verkstæðið af því tagi á landinu en í kjölfarið fylgdu fleiri. Það var þó ekki fyrr en Össur Kristinsson kom frá námi í Svíþjóð árið 1970 og fékk inni endurgjaldslaust í Sjálfsbjargarhúsinu að verulegur skriður komst á þróun gervilima á Íslandi. Össur þekkti af eigin raun hvernig var að glíma við gervilimi sem ekki stóðust álag, því hann var fæddur með annan fótinn fimmtán sentimetrum styttri en hinn. Hann kynntist því hvernig bilaðir fætur eyðilögðust við fjöruborðið eða í kátum leik líkt og Stefán Jónsson, sem hafði fengið fyrirheit um að geta bæði skautað og dansað á sínum gervifæti, sem honum þótti reyndar merkilegt, því hvorugt kunni hann fyrir. Eftir byrjunarerfiðleika lagði Össur grunninn að því veldi sem fyrirtækið Össur hf. er nú. Framfarirnar sem fyrirtæki hans lagði grunn að urðu mörgum félögum gagnlegar. Össur hefur fyrir nokkru dregið sig út úr fyrirtækinu, en Össur hf. blómstrar sem fyrr sagði.

akkiwanis

Þannig 26. febrúar 1977 hófst nýr kafli í ferlimálum fatlaðra þegar svokallaður Kiwanisbíll hóf akstur, en það voru fyrstu almenningssamgöngur sem sérstaklega voru ætlaðar hreyfihömluðum. Kiwanismenn keyptu bílinn í því skyni og sáu í upphafi um akstur á kvöldin og um helgar. Á daginn rak Vinnu- og dvalarheimili Sjálfsbjargar bílinn.

Ferðaþjónusta fatlaðra var síðan formlega stofnuð 9. júní árið 1979 og var þá með fulltingi Reykjavíkurborgar og bætt við tveimur bílum sem tóku fjóra hjólastóla hvor. Venjuleg strætisvagnafargjöld giltu í bílana og bækistöðvarnar voru í Sjálfsbjargarhúsinu í Hátúni 12.

Bílastæðamál voru félögum Sjálfsbjargar mikið baráttumál, en þegar samtökin hófu baráttuna var lítill skilningur á því að fatlaðir ættu að geta lagt bílum sínum óhindrað og helst þannig að unnt væri að komast greiðlega úr bílnum og upp á gangstétt. Fljótlega (1968) kom það í hlut Sjálfsbjargar að sjá bæði um úthlutum bílastæðamerkja fyrir fatlaða og einnig að berjast fyrir því að fleiri merkt bílastæði væru til umráða fyrir fatlaða.

,,Á síðastliðnum vetri [1968-1969] gengu umferðaryfirvöld í Reykjavík endanlega frá reglugerð um undanþágu fyrir mikið fatlaða ökumenn, frá gildandi ákvæðum um bifreiðastöður. Eru þessar undanþágur veittar samkvæmt tillögum Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra.”

Í fyrstu var það einungis lítill hópur félagsmanna Sjálfsbjargar sem gat fengið þessi merki í bíla sína, en smátt og smátt hefur hópurinn farið stækkandi og eru nú meðal annars astma- og hjartasjúklingar meðal þeirra sem rétt eiga á slíku korti.

Úthlutun bílastæðamerkinga (P-merki) fyrir bifreiðar fatlaðra varð sífellt umfangsmeiri hluti af starfsemi Sjálfsbjargar og árið 2000 var þessari kvöð loks létt af Sjálfsbjörg og færð yfir til sýslumanna, líkt og útgáfa ökuskírteina. Sjálfsbjörg átti þó lengi fulltrúa í úrskurðarnefnd sem fjallaði um synjanir á útgáfu stæðiskorta, eða þar til nefndin var lögð niður. Ennþá er Sjálfsnbjörg að berjast innan þessa málaflokks og m.a. að það sé settur rammi um útgáfu og utan um hald P-merkja, en engin heildarskrá er t.d. til um hverjir hafa fengið merkin.

Barátta fyrir bættum ákvæðum í byggingarlögum og -reglugerðum og fræðsla til arkitekta og byggingaraðila voru snar þáttur í áherslum Sjálfsbjargar og voru margar ályktanir þess efnis samþykktar á þingum landssambandsins. Árið 1978 vannst áfangasigur í þeirri baráttu þegar ný ákvæði voru samþykkt í byggingarlögum, hinn 3. maí. Lagasetningin kom í framhaldi af þingsályktunartillögu Odds Ólafssonar, sem hann vann ásamt Ólöfu Ríkarðsdóttur og tók mið af tillögum Sjálfsbjargar. Þessum áfanga var vel fagnað. Það ákvæði laganna sem mest réttarbót var að var viðbót við 13. grein gildandi laga og hljóðaði svo: ,,Þá skal kveða á um, að hið skipulagða svæði geri fötluðu og öldruðu fólki auðvelt að komast leiðar sinnar og að tekið skuli að öðru leyti tillit til sérþarfa þess, svo sem varðandi götur, gangstéttir, bifreiðastæði og staðsetningu íbúðarhúsa, sem sérstaklega eru ætluð þessu fólki.” Þá var í lögunum grein um að setja skuli í byggingareglugerð ákvæði varðandi umbúnað bygginga til þess að auðvelda ellihrumu og fötluðu fólki að komast leiðar sinnar. Túlkun laganna á því hvað teldust ,,opinberar byggingar” var nokkuð þröng og mótmælti Sjálfsbjörg því ítrekað.

Árið 1997 voru sameinuð skipulags- og byggingalög í einn lagabálk og átti það að auka hagkvæmni. Skipulag ríkisins, sem var sett á laggirnar, átti að ,,fylgjast með og veita upplýsingar um ferlimál fatlaðra.” Guðmundur Magnússon formaður starfsnefndar Sjálfsbjargar um ferlimál skrifaði grein um fyrirhugaðar breytingar á fyrirkomulagi skipulags- og byggingamála í tímaritið Klifur árið 2004 en þær breytingar sem hann fjallar um hafa enn ekki komið til framkvæmda. Ábendingar hans eru hins vegar kjarninn í þeirri umræðu sem hann hefur meðal annars fjallað um á alþingi, en hann hefur setið þar sem varaþingmaður árið 2005. ,,Eitt er þó alveg klárt að aðgengismál eru og verða mjög pólitísk, þ.e.a.s. hverjir skulu eiga greiðan aðgang að mannvirkjum og hverjum skal haldið fyrir utan.” Á alþingi komst Guðmundur allra sinna ferða nema í ræðupúltið eftir að endurbætur höfðu verið gerðar á húsinu eftir langa þrautagöngu. Í svipaðan streng og Guðmundur tók Ragnar Gunnar Þórhallsson þá formaður Sjálfsbjargar, og raunar með mun víðari skírskotun, í forystugrein 2. tölublaðs Klifurs sama ár er hann spyr: ,,Á að innleiða í stjórnarskrá eða lög á Íslandi bann við mismunun einstaklinga í samfélaginu á grundvelli fötlunar? Mitt svar er hiklaust. Að þessu skal stefnt.”

Mynd: Ýmsir ráðamenn þjóðarinnar hafa verið settir í hjólastóla til að auka skilning þeirra. Hér er Halldór Ásgrímsson að spreyta sig.

Mynd: Ýmsir ráðamenn þjóðarinnar hafa verið settir í hjólastóla til að auka skilning þeirra. Hér er Halldór Ásgrímsson að spreyta sig.

 

Árið 2012 var loksins gefin út ný byggingarreglugerð þar sem tekið var nær fullt tillit til svokallaðrar algildrar hönnunar og bar þar með hönuðum og byggingaraðilum að gera ráð fyrir fötluðum í öllum mannvirkjum. Samtökin standa ennþá vaktina á þessu sviði.

Á seinni árum hefur baráttan í ferlimálum á vegum Sjálfsbjargar meðal annars falist í ýmiss konar aðgerðum, ýmist á eigin vegum eða í samvinnu við aðra aðila. Fólk í hjólastólum hefur í gegnum árin gert úttektir á ýmsum byggingum og aðgengi að þeim og oft hefur þetta orðið kveikjan að því að úrbætur hafa verið gerðar, þótt það hafi tekið mislangan tíma. Eins hafa ýmsir ráðamenn þjóðarinnar verið settir í hjólastóla og fengið að reyna sjálfir hvernig er að komast leiðar sinnar einn dag. Sú baráttuaðferð hefur ekki verið einskorðuð við stjórnmálamenn hjá ríki og sveitarfélögum heldur afa ýmsir aðrir fengið að prófa hvernig er að komast um á hjólastól og meðal annarra prófuðu nemendur 5. bekkjar Borgarhólsskóla á Húsavík að komast ferða sinna um bæinn í hjólastólum og urðu margs vísari.

Þannig var Ársverkefni Sjálfsbjargar sett á laggirnar eftir samþykkt þar um á Landsfundi samtakanna árið 2017. Fyrsta ársverkefnið var sama ár undir þemanu “Sundlaugar okkar ALLRA!”. Þetta voru notendaúttektir aðildarfélaga samtakanna á nokkrum sundlaugum á þeirra starfssvæði. Útbúið var vinnuhefti með gátlista sem þeir sem önnuðust úttektirnar fylgdu. Verkefnið tókst afar vel og var ársverkefnið árið 2018 úttektir á aðgengi að söfnum undir þemanu “Söfn okkar ALLRA!” og árið 2019 eru gerðar aðgangaúttektir á leiksskólum undir þemanu “Leikskólar okkar ALLRA!”

Af sama meiði er ,,Hjólastólaverkefni” sem skipulagt var með fulltingi fulltrúa frá Sjálfsbjörg fyrir nemendur á umhverfisskipulagsbraut við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri árið 2004. Nemendurnir í þessu námi, þar sem einmitt þarf að vera til staðar raunverulegur skilningur á ferlimálum, eyddu þá einum degi í hjólastól og könnuðu aðgengi á háskólasvæðinu. ,,Þeir hanna gangstígana, garðana, leikvellina og útisvæðin sem allir þegnar landsins eiga jafnan rétt á að geta notað” segir í grein um framtakið í tímaritinu ,,Klifur”. Á fundi sem haldinn var eftir þessa tilraun kom meðal annars fram að fjögurra sentimetra þröskuldur sem þeim hafði ekki fundist nein hindrun, var allt í einu óyfirstíganlegur þröskuldur í orðsins fyllstu merkingu.

Á degi fatlaðra, 3. desember árið 2004 kynnti Ásgeir Eiríksson þá framkvæmdastjóri Strætó bs. að frá og með árinu 2005 væri skylda að hafa almenningsvagna aðgengilega fyrir fatlaða. Rampur og aðstaða fyrir hjólastóla yrði framvegis í öllum nýjum bílum sem keyptir yrðu. Þá yrðu þeir jafnframt lággólfsvagnar, ekkert þrep upp í vagnana. Í viðtali við sama blað fyrr á sama ári kynnti Ásgeir ýmsa valkosti og útfærslu til þess að ná þessu marki. Hins vegar kom fram að fatlaðir yrðu að hafa aðstoðarmann með í för vegna öryggismála, en þó ætti þeim ekki að vera meinaður aðgangur að strætó þótt þeir komi án fylgdarmanns og biðji um að komast með strætó. ,,Ég vona alla vega að svo sé ekki,” bætir hann við í þessu viðtali. Þetta gekk eftir og eru nú allir strætisvagnar Strætó lággólfsvagnar. Vandamálið í dag er að of stórt hlutfall strætisvagnastoppistöðva á höfuðborgarsvæðinu eru ekki vel aðgengilegar.

Þá er ennþá enn.á verið að berjast fyrir betrumbótum á aðgengi í almennigsbifreiða er fara um landið utan höfuðborgarsvæðisins en þær eru almennt ekki með hjólastólaaðgengi. Jafnvel hópbifreiðar er ganga frá Keflávíkurflugvelli eru ekki með aðgengi og þarf að panta slíkan bíl með sólarhrings fyrirvara.

Þá er endalaust verið að berjast fyrir betra aðgengi að flugvélum, en það er barátta á alþjóðavísu, en hreyfihamlað fólk ferðast æ meira erlendis með flugi og er endalaust vandamál með t.d. meðferð hjólastóla í tengslum við flug.

Bókin ,,Aðgengi fyrir alla”, sem var fyrsta bók sinnar tegundar á Íslandi er aðgengileg á netinu. Fulltrúar Sjálfsbjargar tóku virkan þátt í samningu bókarinnar, sem kom út árið 2002.