Byggingasaga Sjálfsbjargarhússins

skhatun12_68

 

Bygging sérstaks húss sem þjónaði hagsmunum fatlaðra var frá fyrstu stundu eitt helsta baráttumál Sjálfsbjargar. Landssamtökin og aðildarfélögin vörðu drjúgum hluta tekna sinna til að leggja í sjóð sem renna átti til húsbyggingarinnar. Samtökin fengu úthlutað lóðinni sem nú er Hátún 12, en var lýst þannig að hún lægi milli Laugavegar og ,,væntanlegrar Kringlumýrarbrautar ofan Sigtúns“ en þetta svæði var þá að mestu leyti óbyggt. Gísli Halldórsson arkitekt var fenginn til að teikna húsið eftir ítrustu kröfum þess sem best gerðist um slíkar byggingar þá. Ásamt honum komu Ólafur Júlíusson byggingafræðingur og Jósep Reynis arkitekt að verkinu.  Margrét Margeirsdóttir, sem ritaði merka bók um málefni fatlaðra, tók svo djúpt í árinni að segja að á þessum tíma hafi það verið óþekkt hér á landi að hús væri sniðið að þörfum fólks í hjólastólum. Húsið bætti því úr brýnni þörf. Fyrirmyndin var sótt til Danmerkur og í riti Sjálfsbjargar mátti finna frásagnir af því sem best gerðist þar á þessum tíma. Vel var vandað til allra verka.

Í október 1966 tók Eggert G. Þorsteinsson fyrstu skóflustunguna að byggingunni að Hátúni 12. Í tímariti Sjálfsbjargar sama ár birtist glæsileg teikning af húsinu, draumsýn sem átti eftir að verða að veruleika. Þá voru framkvæmdir að hefjast og þeim var fylgt úr hlaði með þessum orðum:

,,Það er trú okkar fatlaðra að bygging Sjálfsbjargar sé eitt brýnasta verkefnið á sviði öryrkjamála í dag. Þess vegna heitum við á alla að leggja okkur lið, svo að byggingin þurfi ekki að stöðvast vegna fjárskorts.“

Framundan var tími mikilla framkvæmda og oft þurfti að dansa mikinn línudans til að halda verkinu gangandi. Elín Ólafsdóttir sem var gjaldkeri í stjórn Sjálfsbjargar í nítján ár kunni þann dans betur en flestir aðrir að láta aldrei fjárskort hamla framkvæmdum. Hún valdi reikninga til greiðslu af mikilli kostgæfni og hélt öllum, sem að verkinu komu, sáttum. Unnið var sleitulaust að fjáröflun á meðan á framkvæmdum stóð og opinberir aðilar sýndu verkinu skilning og áhuga. Guðmundur Jóhannsson var byggingameistari hússins. Eiginkona hans, Guðný Bjarnadóttir, hafi fengið mænuveiki ung og honum var það mikið kappsmál að koma húsinu upp. Hann var ábyrgur fyrir öllum framkvæmdum við húsið og tók aldrei eyri fyrir það verk. Við hlið hans var byggingarnefnd sem vann ötullega að framgangi málsins.

Í júlí 1973 rann stóra stundin upp þegar fyrstu íbúarnir fluttu í húsið, en stór hluti hússins var þá enn í byggingu. Á þessum tímapunkti hófst starfsemi Sjálfsbjargarheimilisins og var starfsfólk heimilisins þá um fimmtíu manns, læknir, hjúkrunarkonur, sjúkraliðar og annað starfsfólk. Við vígslu hússins færðu systursamtök Sjálfsbjargar í Danmörku samtökunum veglegt framlag til hússins að gjöf.

Ragna Guðmundsdóttir var fyrsti íbúi hússins. Hún var ættuð frá Fáskrúðsfirði og veiktist af mænuveiki á fyrsta ári. Þegar hún fluttist í Sjálfsbjargarhúsið, Hátúni 12, var tekið við hana viðtal þar sem hún segir frá umskiptunum sem urðu á lífi hennar við flutninginn í húsið.  Áður en hún fékk hjólastól átti hún ekki annan valkost en að skríða milli staða á heimili sínu. Seinustu árin áður en hún fluttist í Hátúnið var hún, eins og svo margir aðrir, á sjúkrahúsi, sem einkum sinnti öldruðum, þar sem hún átti litla samleið með öðrum íbúum, þótt hún hafi vissulega litið á björtu hliðarnar á málinu.

Mynd: Ragna Guðmundsdóttir

Mynd: Ragna Guðmundsdóttir

 

,,Það var ekki mulið undir slíkt fólk í þann tíð, og mér var sagt að bjarga mér sjálf. Fyrsta hjólastólinn fékk ég ekki fyrr en ég 27 ára gömul fór til Reykjavíkur. Þá fannst mér ég orðin svolítil manneskja. Aldarfjórðung dvaldist ég hjá vinafólki, sem ég kynntist eftir að suður kom, en síðustu tólf árin hef ég verið á Sólvangi í Hafnarfirði. Þar var úrvals starfsfólk, sem allt vildi fyrir mann gera.
Og nú er ég komin hingað, bý í mínu eigin herbergi með dótið mitt hjá mér. Það er mikil breyting á högum. Ég get ekki hugsað mér neitt betra en vera hér.”

Á næstu árum voru fleiri hlutar hússins teknir í notkun og sameiginleg aðstaða smám saman bætt. Árið 1981, á ári fatlaðra, var síðasta stóra áfanga hússins lokið, þegar sundlaugin var tekin í notkun.

En byggingum var ekki lokið því byggt var tveggja hæða hús austast á lóðinn sem tekið var í notkun 1988. Þar var Hjálpartækjabankinn á neðri hæðinni og framan af var efri hæðin hugsuð fyrir félagsstarf samtakanna. En síðar flutti Þjónustumiðstöð Sjálfsbjargarheimilisins (dagþjónustan) á efri hæðina og hefur starfað þar síðan.

Lífið í Sjálfsbjargarhúsinu hefur ekki oft verið umfjöllunarefni á annan hátt en til að bera saman aðstæður þar og annars staðar í samfélaginu. Fyrst komu íbúar af elliheimilum og sjúkrahúsum inn í Sjálfsbjargarhúsið og síðar hafa ýmsir gestir sem dvalið hafa þar um lengri eða skemmri tíma lagt sitthvað til málanna um ágæti hússins. Innan um leynast þó frásagnir af lífi og fjöri í húsinu og er til dæmis áhugavert að lesa lýsingu Hörpu Ingólfsdóttur af lífi unga fólksins í C-álmu Sjálfbjargarhússins á áttunda áratugnum. ,,Á þessum tíma var heilmikið samband á milli þeirra sem bjuggu í C – álmunni. Þar bjó mikið af ungu og hressu fólki. Við komum oft saman í íbúðinni hjá Jóa, héldum partý, sungum og skemmtum okkur. Þetta var mjög skemmtilegur tími.” Jói, sá sem Harpa talar um, var Jóhann Pétur Sveinsson, sem varð síðar eiginmaður hennar og var formaður Sjálfsbjargar frá 1988 til 1994 er hann féll frá ungur að árum. En hann bjó í Sjálfsbjargarhúsinu í nokkur ár.