Söguyfirlit

Sjálfsbjörg landssamband fatlaðra var stofnað þann 4. júní 1959. Á 50 ára afmæli þess fór söguvefur Sjálfsbjargar formlega í loftið, en að öflun gagna og uppsetningar vefsins vann Anna Ólafsdóttir Björnsson, en textinn hefur að nokkru verið breyttur síðan þá, uppfærður og við hann bætt.

Textinn hér að neðan er úr þessum vef:

Vefurinn er byggður upp sem sögupunktar sem hafa tekið nokkrum breytingum og bætt hefur verið við hann. Félagar í Sjálfsbjörg og aðrir velunnarar munu eiga mikinn þátt í að móta söguvefinn með ábendingum um breytingar og viðbætur á sögunni og á þann hátt verður vefurinn þéttari og betri með hverri ábendingu, hvort sem það er mynd úr kassa á háaloftinu eða upplýsingar sem ekki hafa ratað á vefinn áður. Þá eu félagar hvattir til að henda ekki gögnum er þeir hafa undir höndum tengd Sjálfsbjörg heldur koma þeim til skrifstofu samtakanna þar sem eitthvað af þessum gögnum geta haft sögulega þýðingu.

ÞIÐ – SJÁLFSBJARGARFÉLAGAR – GETIÐ GERT ÞENNAN VEF ENN BETRI!

Sjálfsbjörg – landssamband hreyfihamlaðra (áður fatlaðra) á sér farsæla sögu, en einnig sögu sem lýsir því hvernig fjölmargar hindranir hafa verið  yfirstignar. Í Sjálfsbjargarferð árið 1964 var einu sinni sem oftar haldið á nýjar og erfiðar slóðir, Borgarvirki í Húnaþingi, slóðir sem fyrirfram hefðu verið taldar óyfirstíganlegar hreyfihömluðu fólki, en bæði lausavísur og myndir sýna að engin hindrun er óyfirstíganleg, stutt var í gaman og gleði og félagsskapurinn skipti miklu máli. Það er kjarninn í sögu Sjálfsbjargar.

skgudridurolafsdottirborgarvirki1964

Þau bröltu í Borgarvirki
og blöskraði ekki hót
höltruðu með hörku
og hækju lömdu í grjót.
Seigir þóttu forðum þeir
Suðurnesjamenn,
en táp og fjör og frískar konur
finnast hér enn.

Þess má geta að konan á myndinni, Guðríður Ólafsdóttir, varð seinna formaður Sjálfsbjargar, frá 1994-1998.