Ég kem með!

Jón Gunnar Benjamínsson í viðtali

Jón Gunnar er fæddur og uppalinn í Eyjafirði og er mikið náttúrubarn að eðlisfari. Hann lærði matreiðslu og starfaði í því fagi bæði hérlendis og í Danmörku, þar sem hann bjó til 25 ára aldurs. Íslensk náttúra og útivist kölluðu þó sífellt meira á hann og ákvað hann því að söðla um, flytja aftur heim, skipta um starfsvettvang og gerast leiðsögumaður. Jón Gunnar blómstraði strax í ferðageiranum og eignaðist hlut í ferðaskrifstofu árið 2005.

Tveimur árum seinna tók lífið hins vegar aðra stefnu. Árið 2007, þegar hann var 32 ára gamall, lenti hann í alvarlegu bílslysi á Hellisheiði eystri og lamaðist fyrir neðan mitti. Slysið var mjög alvarlegt svo honum var á tímabili vart hugað líf. Hann þurfti að dvelja í heilan mánuð á gjörgæslu og við tók við heilt ár af endurhæfingu.

Eftir þessa lífsreynslu ákvað Jón Gunnar að flytja aftur heim í Eyjafjörð til að safna kröftum. Það tók hann langan tíma að komast aftur af stað eftir alla þessa áverka, bæði á sál og líkama. Ári seinna fór þó að rofa til og hægt og rólega jókst færni hans og þrek.

Hann flutti aftur suður, staðráðinn í að nýta reynslu sína til góðra verka. Hann stofnaði ferðaskrifstofuna Iceland Unlimited, sem er fyrsta ferðaskrifstofan á Íslandi sem sérhæfir sig í því að bjóða upp á skipulagðar ferðir fyrir fólk með hreyfihömlun. Þessar ferðir hafa slegið í gegn, ekki síst hjá erlendum ferðamönnum. Starfsemin hefur þó verið í lágmarki undanfarna mánuði vegna heimsfaraldursins COVID-19. “Þetta er búið að vera erfitt ár í ferðabransanum en það er mikilvægt að vera tilbúinn þegar fólk fer að ferðast á ný”, segir Jón Gunnar.

“Andlega hliðin er ekki síður mikilvæg, sérstaklega í því ástandi sem er í gangi núna. Heimsfaraldurinn er ógn við fyrirtækið og afkomu fjölskyldunnar og þá er mikilvægt að huga að sálinni og leggja rækt við hana.”

Í dag er Jón Gunnar fjölskyldumaður. Hann er í sambúð, á dóttur á fjórða ári og segir föðurhlutverkinu fylgja mikil gleði. Til að daglega lífið gangi sem best segir Jón Gunnar það mikilvægt að halda góðri rútínu og stunda líkamsrækt eins og hægt er. Hann fer reglulega í sund og æfir á hjólastólnum með sérhannað hjól framan á. Hann segir líkamsræktina og sjúkraþjálfunina hjálpa sér mikið við að sefa taugaverkina sem mjög algengt er að lamaðir einstaklingar þjáist af. Hann einbeitir sér að því halda sér í góðu formi og að hugsa um andlegu hliðina. “Andlega hliðin er ekki síður mikilvæg, sérstaklega í því ástandi sem er í gangi núna. Heimsfaraldurinn er ógn við fyrirtækið og afkomu fjölskyldunnar og þá er mikilvægt að huga að sálinni og leggja rækt við hana.”

Hvað varðar náttúruna og útivistina er hvergi bilbug á honum að finna. Hann tileinkaði sér fljótt eftir endurhæfinguna, notkun fjórhjóls sem hann nýtir óspart til þess að vera úti í náttúrunni, sérstaklega til að stunda sitt helsta áhugamál sem er fluguveiði. Uppáhalds staðurinn hans er á bökkum Laxár í Mývatnssveit og þar hefur hann stundað fluguveiði í mörg ár, en einnig er Eyjafjarðará í miklu uppáhaldi. Hann er þakklátur fyrir að hafa notið velvildar landeiganda og veiðirétthafa þegar kemur að notkun hans á fjórhjólinu við veiðarnar. Þá hefur hann einnig lagt stund á hreindýraveiðar.

Jón Gunnar hefur gaman af að ferðast og hefur farið víða erlendis, bæði um Evrópu og Bandaríkin. Á langtímaplaninu er að heimsækja vini í Namibíu.

,,Ekkert er auðvelt. Það að setja í þvottavél er áskorun, þú gerir ekkert hugsunarlaust, allt krefst skipulagningar og tækni.”

Innanlands hefur hann einnig ferðast mikið og mætti því segja að hann sé orðinn sérfræðingur í aðgengismálum á hinum ýmsu stöðum. “Flugstöðvar og ferlið í gegnum þær getur verið heill kapítuli út af fyrir sig og fær maður á tilfinninguna að maður skapi bara vesen. Flugvélahönnun er búin að vera eins í áratugi og til að mynda þarf mikið hugmyndaflug til að komast á salerni um borð í flugvél þegar þú ert í hjólastól”. 

Hann segir þróun aðgengismála hér á landi, síðan hann lenti í slysinu, bæði jákvæða og neikvæða en almennt gangi úrbætur allt of hægt. Þessi mikli seinagangur geti tekið á taugarnar. “Stærstu áskoranir við það að vera í hjólastól eru tengdar aðgengismálum. Ekkert er auðvelt. Það að setja í þvottavél er áskorun, þú gerir ekkert hugsunarlaust, allt krefst skipulagningar og tækni.”

Hann segir það allt of algengt að verið sé að opna nýja staði með nútímahönnun þar sem ekki er hugsað fyrir aðgengi hreyfihamlaðra. Það vanti samráð við notendur. Það er til að mynda athyglisvert að Jón Gunnar fer létt með að rúlla sjálfur út í Eyjafjarðará á fjórhjólinu sínu og renna fyrir lax, en að setja eldsneyti á fjórhjólið er hins vegar annað mál. Við þann einfalda hlut neyðist hann til að fá hjálp vegna tilgangslausra, manngerðra steypuhindrana sem torvelda honum aðgengi að sjálfsalanum.

Hann segir samtökin Sjálfsbjörg vera boðin og búin að veita aðstoð og ráðgjöf varðandi aðgengismál, en það sé oft eins og byggingaraðilar reyni að komast af með sem minnst og túlki þarfir og kröfur reglugerðar mjög naumt.

,,Oft er aðstaðan þannig að það mætti halda að rekstraraðilar telji það andstætt ímynd staðarins að hægt sé að taka á móti fötluðum"

“Eftir að hafa verið í mörg ár að ná sjálfstæði getur það tekið á taugarnar að sjá hvernig það er í raun tekið frá manni með hugsunarleysi og áhugaleysi gagnvart aðgengismálum.” Jón Gunnar nefnir sem dæmi nýopnaða almenningstaði eins og ákveðin ónefnd heilsuböð. “Þar kemur maður í hópi vina og starfsmenn verða vandræðalegir þar sem ekki er gert ráð fyrir fólki í hjólastólum. Að þurfa að láta vini og vandamenn bera sig ofan í er óásættanlegt og fer ekki vel í sálina á manni. Oft er aðstaðan þannig að það mætti halda að rekstraraðilar telji það andstætt ímynd staðarins að hægt sé að taka á móti fötluðum. Eingöngu málamynda lausnir eru til staðar sem „tékka“ í boxin.”

Annað dæmi um áhugaleysið gagnvart málaflokknum er aðgengi í Sundhöll Reykjavíkur. “Þar er mjög góð lyfta og aðgengið gott, en til marks um áhugaleysið að þá er lyftan búin að vera biluð í um eitt ár.”

Jón Gunnar reynir að benda á það sem betur má fara til þess að þoka þessum málum áfram, en viðbrögð rekstraraðila eru mjög misjöfn. Hann hefur fundið fyrir andúð og áhugaleysi hjá sumum aðilum, sem leiðir til þess að hann upplifir sig ekki velkominn á meðan aðrir eru allir af vilja gerðir til að bæta ástandið. “Viðhorfið í ferðabransanum getur verið mjög mismunandi og það eru ekki allir skussar.” Sumir ferðaþjónustuaðilar leita til að mynda til hans til að fá ábendingar. Honum var t.d. boðið að heimsækja nýtt hótel á Siglufirði og gera úttekt á aðstöðunni. “Það er mikilvægt að hafa í huga, þegar ráðist er í stórar og dýrar framkvæmdir, að það er lítill hluti heildarkostnaðar sem fer í sérstakar ráðstafanir vegna aðgengis, ef hugsað er fyrir því í byrjun. Það er alltaf dýrara að bæta við og breyta eftir á.“